Wednesday, April 16, 2008

Einkunnagjöf par exelans

Ja, detti mér allar dauðar lýs úr höfði. Ég hélt við hefðum þurft að skrifa handrit að stuttmyndinni okkar áður en við tókum hana upp. Einhvern veginn rámar mig í að Siggi Palli hafi beðið okkur um að skila þessu handriti og að einkunnin sem við fengjum fyrir það myndi svo faktora inn í stuttmyndina sem við gerðum eftir handritinu. Þarna virðist ég þó hafa haft rangt fyrir mér, því 0:15, handrit sem fór aldrei til Sigga Palla áður en það var tekið upp, var rétt í þessu að fá 10 í einkunn í lokaverkefninu. Vei mér og minni heimsku fyrir að hafa haldið að við í Ólympíuliðinu værum að fara rétt að hlutunum með því að skrifa handritið, fara eftir því í megindráttum við tökur og vinna að gerð myndarinnar á einvhers konar fagmannlegum nótum. Það virðist þó hafa verið nóg fyrir Emil og félaga að hafa Svabba Ká innanborðs, enda þekkir hann vel til tæknivinnunnar á bakvið stuttmyndir og átti því auðvelt með að láta myndina líta flott út og það virðist hafa verið það eina sem skipti máli á endanum. Mig langar núna að ganni að sýna leiðarlýsinguna sem SP gaf að stuttmyndavinnunni og get þá kannski útskýrt hvernig ég misskildi pointið með þessu verkefni.

1. Undirbúið atburðarásina með því að sýna söguhetjuna við eðlilegar aðstæður
Fyrsta atriði myndarinnar er ætlað að sýna þetta. Kannski er atriðið ekki fullkomið, enda átti það upphaflega að vera með fleiri persónum, en andskotinn hafi það þá er eitt sem þetta námskeið hefur sýnt og það er að við erum ekki að vinna að fullkomnun heldur erum við að læra. Þá erum við aðallega að læra á tækin og læra að segja með þeim sögu og við gerðum okkar besta í báðum þessum flokkum, eitthvað sem 0:15 gerði kannski ekki jafn mikið af. Ég vil samt koma því á framfæri núna strax að mér fannst myndin hjá Emli, Marra, Andrési, Bjössa og Svabba mjög flott þótt ég hafi ekki fílað söguna. Ég vil ekki að þessi póstur líti út fyrir að ég sé að upphefja mína mynd á kostnað mynda annarra, ég vil bara benda á ákveðnar röksemdavillur hjá lærimeistaranum, honum til betrunar. SP má því líta á þessa færslu sem lokafærsluna þar sem ég tala um hvernig mætti bæta þetta námskeið. Siggi Palli nefnir í gagnrýni sinni á myndina "Syndir Feðranna"(for future reference):
"Hvaða tilgangi gegndi t.d. upphafssenan? Hvernig fleytti hún handritinu áfram? Kannski hefði senan virkað betur ef aðalpersónan hefði sagt söguna, en eins og hún er þá er varla hægt að tala um að hún dýpki persónusköpunina."
Nei, hún dýpkar kannski ekki persónusköpunina að fleira leiti en því að þarna sjáum við að aðalpersónan er bara hver annar ánægður gæji. No more, no less. Við kynnum hann fyrir fólki með því að sýna hann nákvæmlega einsog hann er, gæji sem er ekkert merkilegri en hver annar á yfirborðinu. Við köfum síðan ekkert dýpra í karakterinn fyrr en, æ, nei, við köfum einmitt dýpra í karakterinn ALLA RESTINA AF MYNDINNI. Þess vegna er þetta KARAKTERMYND með HEILSTEYPTRI SÖGU, hvað sem mönnum kann að finnast um svoleiðis. Ef menn langar aftur á móti til að sjá trikkin úr Groundhog Day í mynd sem hefur enga persónusköpun skil ég vel að okkar mynd fái ekki hærri einkunn en 8,5.

2. Kynnið hvatann til sögunnar. Hvatinn getur verið hvað sem er, en hann verður að hafa sýnileg áhrif á söguhetjuna, því hann hrindir atburðarásinni af stað.
Hvatinn í myndinni okkar er frekar augljós, pabbinn deyr og strákurinn fær upp í hendurnar fáránlega beiðni. Það er því ekki beint hægt að dissa myndina okkar út frá þessu. Ég held jafnvel að við í Ólympíuliðinu höfum verið hvað fastastir í því að fylgja fyrirmælunum við gerð þessarar stuttmyndar. Auðvitað vikum við út af braut hér og þar, en við ákváðum að gera myndina frekar straight-forward(einsog fyrirmælin segja til um og þetta er einmitt ein aðalgagnrýni Sigga Palla á Endurfundi) þannig að við misstum ekki sjónar á myndinni í einhverju stílstríði við hina hópana. Mér finnst þetta persónulega betri pæling en að endurvinna gamlar hugmyndir og reiða sig að öllu leiti á stíl myndarinnar. En hver hefur sína skoðun á því.

3. Byggið upp atburðarásina með röð atburða þar sem söguhetjan reynir að yfirstíga hindranir sem hindra hann í að ná markmiði sínu(meginhvötinni). Hindranirnar ættu sífellt að verða stærri, þangað til hámarkinu er náð.
Þennan punkt má skilja á ýmsa vegu, eftir því hvernig mynd er verið að gera. Þar sem okkar mynd er karakterdrifin og hindranir aðalpersónunnar felast í að yfirstíga sálræna þrautabraut skulum við ganga út frá henni.
Hvati: Pabbi deyr og sonurinn fær símtal.
Hindrun 1: Lögfræðingurinn sem segir Gumma að hann þurfi að leyfa einhverjum gaur á Ásvallagötunni að ríða pabba sínum.
Hindrun 2: Kærastinn hans Gumma sem segir honum að þetta sé á allan hátt siðlaust og fáránlegt hvort sem um lög og peninga er að ræða eður ey. Maður fær það á tilfinninguna að sambandið muni jafnvel ekki lifa það af að Gummi fylgi þessari áætlun eftir.
Hindrun 3: Það að sjá loksins á eftir föður sínum inn til náriðilsins. Gummi kemst ekki yfir þessa hindrun og hér förum við Ólympíuliðsmenn út af formúlubrautinni. Hann hættir við. En, bíðum við...
Hindrun 4: Orkuveitureikningarnir. Gummi virðist hafa gleymt að skila líkinu eftir að hann neitaði Baltasar Breka um að nauðga því. Nú fær hann bakþanka út af fjárhagsvandræðum sínum og lætur alla siðfræði lönd og leið og yfirstígur þriðju hindrunina í annarri tilraun. Meginhvötin í þessu tilfelli verandi peningar gamla mannsins. Ólympíuliðið kemur sér aftur inn á formúlubraut.
Ég sé ekki beint hvar við erum að skíta á okkur út frá sögunni séð. Við erum að hitta á allar dramatísku nóturnar í lífi mannsins, allavega frá mínum bæjardyrum séð.

4. Ljúkið atburðarásinni þannig að söguhetjunni takist eða mistakist.
Check.

5. Ljúkið handritinu á stuttri senu(eða einu skoti) sem sýnir aðstæður söguhetjunnar í lok myndar.
Double Check.

Af þessari stuttu yfirferð má sjá að við fylgdum að minnsta kosti fyrirmælunum um söguuppbyggingu til hins ýtrasta þótt sagan hafi kannski ekki fallið í kramið hjá "The Man". Nú langar mig aftur á móti að koma inn á hin umkvörtunarefni hans og gera hreint fyrir okkar dyrum.

1. "Líklegast er það smámunasemi í mér, en "líkpokinn" var ekki að gera sig - var pabbinn kannski dvergur?"
Þetta er ekki smámunasemi í þér, líkpokinn virkaði bara alls ekki og er það versta lýti myndarinnar að mínu mati. Okkur tókst einfaldlega ekki að redda neinu almennilega raunverulegu þannig að shit-mix var "the name of the game" í þessu. Þarna máttu jafnvel setja mínus á myndina fyrir stíl eða props eða hvaða einkunnarniðurröðun sem þú ert með.

2. "Sama hvað ég pæli í því þá skil ég ekki af hverju hljóðvinnslan í bílasenunni ætti að þykja fyndin eða sniðug. Í fyrsta lagi má setja spurningamerki við það að klippa alltaf yfir á pokann í einræðu aðalpersónunnar - það er ekki eins og við séum forvitin um viðbrögð pokans við ræðunni (mér fannst það samt alveg virka). En af hverju í ósköpunum að nota annað umhverfishljóð í skotunum af pokanum -þótt það sé gert viljandi þá virkar það samt viðvaningslega á mig."
Í fyrsta lagi má setja spurningamerki við þá ákvörðun þína að ákveða á sýningu myndarinnar að lækka hljóðið niður úr öllu valdi á dramatískum hápunkti sögunnar þegar lagið var í gangi þannig að "punch-ið" sem hljóðið hafði sem kontrast við tónlistina eyðilagðist gjörsamlega. Ég ætla samt ekki að kenna sýningarstjóranum um lélegt gengi myndarinnar en það er augljóst að sumir þurfa að passa sig áður en þeir kvarta yfir sýningarstjórum í Laugarásbíó á næstunni. Næst nefniru að mönnum finnist ekkert áhugavert að sjá viðbrögð pokans. Nú spyr ég; "Af hverju?" Það eru samræður í gangi í þessari senu, þótt ekki sé nema einn sem ræðir í henni. Reaction skotin af líkinu þjóna kannski ekki þeim tilgangi að sýna viðbrögð pabbans per se en þau þjóna þeim tilgangi að sýna firringu augnabliksins og örvæntingu Gumma þar sem hann er að keyra með lík föður síns á vit líkriðils. Hér fáum við líka meiri dýpt í persónu Gumma og samband feðganna þegar Gummi segir að pabbi hans hafi ekki verið alltof sáttur með samkynhneigð sonar síns, enda kemur hann með það sem mögulega ástæðu fyrir þessu ömurlega verkefni sem honum hefur verið fólgið. Þá komum við að vendipunktinum og ástæðu þess að Siggi Palli hefur dregið hópinn niður fyrir Pajdak og félaga í einkunn; "
En af hverju í ósköpunum að nota annað umhverfishljóð í skotunum af pokanum -þótt það sé gert viljandi þá virkar það samt viðvaningslega á mig." Ástæðan er sú að við vildum gera þögnina ennþá meira þrúgandi og okkur fannst það virka helvíti vel. Auðvitað var erfitt að greina milli díalógs og þagnar á sýningunni, þar sem sýningarstjórinn hafði því sem næst slökkt á hljóðinu, en það er ástæðan fyrir þessu. Þú getur að mínu mati ekki sagt að þetta sé viðvaningslegt af einni og aðeins einni ástæðu: Við löguðum allt hljóð alls staðar annar staðar í myndinni einsog mögulegt var(auðvitað var hljóðið okkar ekki jafn gott og hjá Svabba Ká, en hvað getur maður gert?), og gefum þér hér með góða og gilda ástæðu fyrir því af hverju þetta var svona. Þú getur vel sagt að þér finnist þetta asnalegt, en þetta var ekki viðvaningslegt. Við reyndum að gera eitthvað af viti og lögðum okkur fram við það með ógeðslega mikilli vinnu og ég ætla ekki að sitja undir svona kjaftæðisgagnrýni einsog þessari. Segðu að myndin hafi verið leiðinleg, sagan asnaleg, samtölin klisjukennd eða hvað sem þú vilt. En þessi mynd var eins fagmannelga unnin og við gátum, miðað við fyrstu stuttmynd og mér fannst okkur takast ágætlega til. Auðvitað ákvað Ari G að koma með fáránlegt cameo í samtalssenunni og hljóðið var ekki alltaf fullkomið en þannig lærir maður líka.

Mig langar því að lokum að klikka út með þessari einföldu spurningu. Ef leiðarlýsingin, sem við fengum frá þér, fól ekki í sér hvernig þú vildir að við gerðum myndina, hvernig vildiru þá eiginlega hafa hana? Í sambandi við þetta vil ég benda á það ósamræmi sem er í einkunnagjöf milli þessarar stuttmyndar og hinnar sem við gerðum fyrir áramót. Þar fengu Svabbi Ká og co. lægstu einkunn af hópunum fyrir að vera með minnst af sögu í myndinni sinni. Þetta finnst mér furðulegt þar sem þeir fá núna bestu einkunn fyrir nákvæmlega það sama og þeir gerðu fyrir áramót, þ.e. litla sem enga sögu með engu pay-off og engum útskýringum á aðstæðum karaktera, hvötum þeirra, baksögu eða raunverulegum endi. Í staðinn kemur stíll og nógu helvíti mikið af honum, auk góðrar kameruvinnu og frábærrar tæknivinnu í alla staði. Sumir myndu kalla þessa mynd, ásamt aukverkefni strákanna, tilgerðarlega og ófrumlega. Það mætti kannski líka segaj um okkar. Ég veit það ekki, ég er bara að segja. Mig langar líka að fá að vita af hverju það skipti engu máli hvaða handriti við skiluðum þér um daginn ef einkunnin af handritinu fellur inn í einkunnina fyrri stuttmyndina en það var alveg óþarft að gera myndina eftir handritinu sem við skiluðum inn. Ég vil vinsamlegast fá svar við þessu því ég hefði ekkert haft á móti því að sleppa við að eyða nokkrum kvöldum löng fyrir stuttmyndagerðina í handritaskrif ef við hefðum alveg eins getað samið díalóginn á staðnum.

Clickin' out for the last time...

Ingólfur Halldórsson

P.S. Þótt ég sé ósáttur við þessa einkunnagjöf þá þýðir það ekki að námskeiðið í heild sinni hafi liðið neitt fyrir það. Í rauninni finnst mér einkunnagjöfin fyrir verkefni hafa verið það sem fór mest fyrir ofan garð og neðan í námskeiðinu en kennslan, efnið og í raun námskeiðið í heild hafa verið einstaklega skemmtileg og fræðandi. Ég vil ekki ljúka vetrinum með einhverjum leiðindum og set þetta þess vegna hérna með, ef tilfinningahiti færslunnar særir blygðunarkennd einhvers. En ég er samt pirraður.

5 comments:

Emil said...

Þú kannt að vera dónalegur Bóbó.

Bóbó said...

Það var ekki planið. Sorry.

Siggi Palli said...

Ég skil vel pirringinn og röksemdafærslan er ágæt, þótt þú hefðir mátt halda aðeins aftur af tilfinningahitanum.
Einkunnagjöfin fyrir þessar stuttmyndir er allt annað en einföld, og kannski fór ég einum of hratt í hana í þetta skiptið. Ég lenti e.t.v. í þeirri gildru að tína til vankantana og lækka fyrir þá frekar en að einbeita mér að því sem vel tókst til.

Í fyrsta lagi vísa ég í kommentið mitt hjá Jóni, það svarar einverjum þessara spurninga.
Í öðru lagi misskilurðu orðalag mitt (sem var kannski heldur óvarfærið). Þegar ég segi að hljóðvinnslan í bílasenunni hafi virkað viðvaningslega á mig, þá er ég ekki að saka ykkur um viðvaningshátt, heldur einfaldlega að lýsa mínum fyrstu viðbrögðum við þessari senu, sem voru þau að ég hélt að eitthvað hlyti að hafa klúðrast.
Mér þykir leitt ef ég hef lækkað um of í hljóðinu, en sökum ónógrar hljóðeinangrunar þá eru svona sýningar línudans milli þess að hafa hljóðið nógu hátt til þess að við njótum þess, en jafnframt það lágt að örverpin í T-stofunni missi sig ekki alveg. Eftir á að hyggja hefði ég kannski átt að leyfa þeim að þjást.
Punkturinn varðandi reaction-skotin af líkinu er góður, og er hér með tekinn til greina.
Varðandi handritið þá skrifuðu Emil og félagar mjög gott og skemmtilegt handrit, þó þeir hafi raunar ekki á endanum gert stuttmyndina eftir því. Kannski hefði ég átt að refsa þeim fyrir það, en miðað við að handrit og stuttmynd áttu upphaflega að vera aðskildar einkunnir, þá finnst mér það engin sérstök nauðsyn.
Varðandi það sem þú kallar "leiðarlýsinguna", þá er ég nokkuð viss um að ég hafi ekki kynnt glæruna sem þú vísar í sem leiðbeingar heldur sem punkta sem hafa mætti til hliðsjónar ef menn stranda í handritaskrifunum.
Það breytir samt ekki því að ég gerði víst einhverja kröfu um uppbyggingu handrits á sínum tíma (sem ég var síðan búinn að gleyma). Það auk röksemdafærslu þinnar sýnir myndina í aðeins betra ljósi.
Kannski voruð þið samt einum of trúir handritinu bæði í tökum og (sérílagi) í klippingu. Handritið gaf vissulega fyrirheit um þennan vanda og ég sé eftir því að hafa ekki gert athugasemd við það hversu mikil áhersla var á díalóginn í því, en ég held ég hafi vonað að það myndi lagast í tökum.
Þá tek ég eftir því að þið Jón gefið báðir sterklega í skyn að einhverjar hinna myndanna gera sig sekar um tæknibrellur og twist sem eru kannski ekki þau frumlegustu. En má ekki segja á móti að upphafssenan hjá ykkur beri vott af stílbragði sem Tarantino gerði frægt í Pulp Fiction og sem þúsundir tilvonandi handritshöfunda hafa látið glepjast af síðan?
Miðað við forsendur og fyrirmæli (sem ég tók ekki nógu mikið mark á í fyrirgjöfinni) þá er einkunnin og umsögnin e.t.v. ekki alveg réttlát. Samt fannst mér 0:15 ánægjulegri áhorfs en Syndir feðranna. Mér fannst hún virka betur sem stuttmynd. Hefur það ekkert að segja?
Einkunnin verður endurskoðuð.

Bóbó said...

Það hefur vissulega fullt að segja og auðvitað fundum við ekki upp hjólið frekar en aðrir í þessu námskeiði.

Jón said...

Þetta er nú bara farið út í einhvern sandkassaleik. Ég er hættur að tjá mig um málið fyrst við erum komnir niður á þetta level.