Tölvugerðar myndir hafa verið að færa sig upp á skaftið undanfarin ár. Ég man um árið þegar Final Fantasy: The Spirits Within kom út og ég las grein þar sem gerðir voru að því skórnir að í náinni framtíð myndu tölvugerðir leikarar taka við og engrar mannlegrar reynslu yrði lengur þörf. Þetta hefur reyndar ekki alveg ræst en á meðan menn halda áfram að reyna er alltaf von. Robert Zemeckis hefur haldið fána þessarar kvikmyndatækni á lofti í sínum seinustu tveimur myndum og gengið alveg ágætlega. Þó er það virkilega magnað hversu stórt stökk tæknin tekur milli mynda, þrátt fyrir að The Polar Express hafi kannski ekki átt að vera jafnraunveruleg og þessi þá sést vel hversu mikill munurinn er. Hún var í svipuðum klassa og áðurnefnd Final Fantasy en Beowulf skapar sér nýjan og miklu hærri stall. Beowulf lítur einfaldlega ógeðslega vel út. Fyrir utan frábæra listræna stjórnun er tölvuteiknunin svo góð að maður hrynur beint inn í myndina frá fyrstu sekúndu. Vissulega hafði 3-D eitthvað með það að gera, raunar mjög mikið því ég hef hreinlega aldrei verið jafn dáleiddur af mynd einsog þessari. Þetta er eitthvað sem menn verða að upplifa í bíó, það er svo einfalt. Ég sleppti því að fara á Spy Kids 3-D á sínum tíma og ég held það hafi verið rétt ákvörðun, því í rauninni er þetta akkúrat myndin til að afmeyja mann fyrir þessari tækni. Stundum er það meira að segja óþægilegt þegar hlutir koma fljúgandi í áttina að manni og maður lokar augunum en fattar svo aftur að maður er í bíó og andar léttar í smá stund þangað til það gerist aftur. Þvílíkt sjónarspil.
Burtséð frá öllu þessu húllumhæi hefði Zemeckis alveg eins getað skitið á sig í sögunni og strúktúr myndarinnar en það er alls ekki tilfellið hér. Þessi mynd væri snilld jafnvel þótt hún væri gerð upp á gamla mátann. Sagan sjálf er rosaleg og epísk. Hún fjallar um Bjólf(Ray Winstone), hetju frá Gautlandi sem kemur til Danmerkur til að drepa skrímsli að nafni Grendel. Með honum í för eru nokkrir harðir naglar, þeirra á meðal hörkutólið Vígleifur(Brendan Gleeson), og fá þeir lof um mikla umbun frá Hróðgeiri konungi(Anthony Hopkins) ef vel tekst til. Í kjölfarið fylgja morð og harka einsog ég hef aldrei áður séð. Hasarinn er slíkur að á stundum er maður við það að míga í sig. Bjólfur sjálfur er mikið glæsimenni og hetja og hefur mest gaman af að hlusta á sjálfan sig segja sögur af eigin afrekum. Það besta við þessa mynd er í raun hversu góðir karakterarnir eru, maður kann að meta þá alla sem einn og maður skilur ákvarðanir hvers fyrir sig. Sagan er frábærlega sögð og það er augljóst að Zemeckis hefur ekki bara auga fyrir flottum skotum og töff skrímslum. Handritið er virkilega gott enda skrifað af þeim mikla meistara Neil Gaiman, höfundi Sandman myndasagnanna goðsagnakenndu. Tónlistin er líka geðveik, sem og hljóðið. Ég hefði ekki getað lifað mig jafnvel inn í myndina ef ekki hefði verið fyrir geggjað hljóð og ógeðslega flotta tónlist, alveg á LOTR mælikvarðanum. Allt passar saman, öll hljóð og allar listrænar ákvarðanir eru byggðar á einhverju undirliggjandi konsepti, sem skilar sér fullkomlega af hvíta tjaldinu inn í huga áhorfandans. Ég hef ekki einu sinni minnst á Angelinu Jolie eða John Malkovich, svo mikið er ég að tapa mér yfir þessari mynd. Angelina er samt sjúklega heit og John Malkovich er geggjaður leikari, sem og allir hinir. Hopkins er frábær að venju og Winstone er geggjaður í titilhlutverkinu. Ekki halda að leiktaktarnir komist ekki til skila í gegnum tölvuteiknunina, þeir gera það og allir eru jafn geggjaðir og þeir væru venjulega.
Eftir að hafa sagt þetta allt finnst mér einsog ég hafi ekki gert þessari mynd nærri eins góð skil og ég vildi. Hún hafði virkileg áhrif á mig, hún var hreinlega geðsjúk. Tölvuteiknunin er geðveik, leikurinn er geðveikur, handritið og sagan, myndatakan og hljóðið, tónlistin og epíkin, spennan og hasarinn, djöfuls snilld! Þessi mynd er svo spennandi að ég gat ekki hreyft mig, mér leið illa í hálsinum eftirá því ég var svo spenntur.
Svona á bíó að vera, manni á að líða einsog maður hafi aldrei séð bíómynd áður, falla aftur í barndóm og tapa sér í skemmtuninni. Það er það sem þessi mynd gerir. Hún sveipar kvikmyndina nýrri hulu, nýrri dulúð og færir manni töfra bíóferðanna beint í hjartastað. Svona á bíó að vera. “They DO make them like this anymore!”
4,5/5
2 comments:
djöfull maður ... hefði langað með ykkur! Hefðir átt að segja mér að Neil Gaiman hafði skrifað handritið!! Þá hefði ég fokkin betlað pening og komið með ykkur. Var einmitt svo hræddur um að myndin væri töff en hrútleiðinleg..
en jæja .. ég hef þó allavega eitthvað til að hlakka til eftir próf!
Það er greinilegt að maður verður að fara á þessa, þó ekki sé nema til þess að prófa, og maður verður að ná henni í bíó. Ef maður hefði bara tíma...
Post a Comment