Tuesday, December 4, 2007

Gamlar fréttir... og nýjar uppljóstranir

Dexter. Spoiler, spoiler og aftur spoiler. Consider yourselves warned. Ég veit það vel að það er ekkert nýtt að Dexter séu bestu sjónvarpsþættir í gangi í dag. Aftur á móti fann ég mig knúinn til að kommenta á undanfarna þætti í 2. seríu, nefnilega þann 8., 9. og 10. Það sem gerir Dexter að svo góðum þáttum er hversu hröð söguframvindan getur orðið án þess að handritið missi nokkurn tíma sjónar á markmiðum hvers þáttar fyrir sig. Hver þáttur hefur sína dramatísku þungamiðju og þrátt fyrir að stærra plott seríunnar sé alltaf í aðalhlutverki þá er virkilega gaman að sjá þegar þessi litlu plott koma í forgrunninn og hversu vel er hægt að skrifa stærri söguna í kringum þau. Frábært dæmi væri nýjasti þátturinn, sá 10., þar sem hröð söguframvinda þeirra tveggja þátta sem á undan komu hægir aðeins á sér til að gefa okkur virkilega mikilvægt og áhugavert subplot úr fortíð Dexters. Þessi þáttur gaf okkur í raun meiri innsýn í karakter Dexters en nokkur annar. Auk þess að sjá viðbrögð Dexters við þeim fréttum að Harry hafi í raun framið sjálfsmorð fáum við, að mínu mati, magnaðasta atriði þáttanna í heild sinni þegar Doakes verður vitni að hinni rosalega kerfisbundnu og óhugnanlegu morðathöfn Dexters. Að sjá þennan karakter, sem maður hefur tekið í sátt með tímanum á allan hátt, frá sjónarhóli Doakes er virkilega skemmtilegt og efni í langar samræður. Auk þess að vera þessi hnittni og skemmtilega óhugnanlegi maður, sem við höfum kynnst í þessum tveimur seríum, er Dexter virkilega truflaður gaur. Hversu kúl sem það virðist í fyrstu að hann myrði fólk, sem kemst framhjá kerfinu, þá er hann samt fjöldamorðingi og allkaldrifjaður miðað við kollega sína. Angistin í orðum Doakes þegar hann reynir að hafa vit fyrir Dexter áður en hann drepur dópsalann í lok þáttarins er vitnisburður um það hversu ólíkir þeir tveir eru í raun og veru. Þrátt fyrir að hafa sömu skoðun á glæpamönnum höndlar Doakes hreinlega ekki hryllinginn sem Dexter er og getur ekki annað en sest á grúfu út í horni og haldið fyrir eyrun meðan vélsögin suðar í bakgrunninum.
Við höfum fengið að sjá í þessari seríu að sú staðhæfing Dexters að hann sé tilfinningalaus á engan veginn rétt á sér. Hann fann til þegar hann drap bróður sinn, hann elskar systur sína, Ritu og börnin hennar og hvað sem hann segir sjálfum sér þá hefur hann óneitanlega ákveðna ánægju af því að drepa vonda kalla. Auk þess er þessi ákveðna þráhyggja með blóð og verðlaunagripirnir sem Dexter geymir í litla kassanum. Tilfinningaleysi er þannig í ein af lygunum sem Dexter felur sig á bakvið til að sjá ekki sjálfur það sem aðrir sjá í morðum hans. Hversu kaldrifjaður sem hann gerist felur hann sig alltaf á bakvið tilfinningaleysi og áfall í æsku.
Þrátt fyrir þetta á hann sér ákveðna málsvörn. Í stað þess að hjálpa aumingja drengnum ákvað Harry að gera úr honum drápstól, sem samfélagið hefði not fyrir þegar dómskerfið virkaði ekki. Þetta er í sjálfu sér góð og metnaðarfull pæling en meira að segja Harry sjálfur höndlaði ekki raunveruleika þess sem hann bjó til og gat ekki lifað með sjálfum sér eftir það. Versta er að hann sagði Dexter ekki frá því. Þótt hann hafi gefið honum ákveðnar reglur og boðskap til að lifa eftir er augljóst hversu vanhugsuð pæling þetta var hjá kallinum. Dexter er ekkert annað en fjöldamorðingi, hvort sem hann drepur glæpamenn eða ekki og ég verð að viðurkenna að það er ástæðan fyrir því að ég elska hann. Ég fæ ákveðið "kick" út úr því að sjá hann drepa þessa gæja og það tengist því lítið sem ekkert að þetta séu morðingjar og dópsalar.
Þrátt fyrir allt er okkar maður samt ekki samviskulaus, sem er augljóst í pælingunni í 10. þætti um að fangelsun hans myndi fara enn verr með þá sem hann elskar en hann sjálfan. Hann hættir að hugsa um sjálfan sig og sitt lífsverkefni og pælir aðeins í afleiðingum þess að leyndarmálið kæmist út. Deb og Rita myndu báðar tapa öllu því trausti sem þær geta borið til annarra, enda báðar lent í tjóni áður varðandi traust á röngum gæjum og krakkarnir myndu lenda í skelfilegu áfalli yfir því að eina föðurímynd þeirra, sem eitthvað vit var í, myndi vera aflífaður fyrir fjöldamorð. Allt í allt yrðu það sorgleg endalok fyrir þennan krossfara fjöldamorðsins.

3 comments:

Jón said...

Ég áttaði mig ekki á því hversu ógeðslega sjúk þessi athöfn er fyrr en Dokes var kominn inn í jöfnuna og hann fokkast upp. Ég átta mig samt ekki á því hvernig að hann ætlar að klína þessu á Dokes, hann verður auðvitað að sleppa honum úr búrinu til að löggan kaupi þetta...

Bóbó said...

Þetta er fokk erfið jafna sem okkar maður er að leysa hérna. Ég hef samt fulla trú á að hann sjóði saman eitthvað sjúkt plan.

Siggi Palli said...

Flott færsla um brjálæðislega góða þætti.