Tuesday, November 27, 2007

American Gangster

Það er rosalega gaman stundum að fara í bíó á mynd sem maður hlakkar virkilega mikið til að sjá. Aftur á móti getur það skemmt fyrir ef myndin stenst ekki væntingar. Þannig er líka virkilega skemmtilegt að fara í bíó á mynd sem maður býst við litlu sem engu af en labba út virkilega sáttur. Ég lenti í vægu tilfelli af fyrrnefndu upplifuninni um daginn þegar ég fór á þá víðfrægu mynd American Gangster.
American Gangster fjallar um dópkónginn Frank Lucas frá Harlem, sem tekur við glæpaveldi af gömlum vini sínum, „Bumpy“, en þarf að finna nýjar leiðir til að boosta áhrif sín og veldi. Hann ákveður að fara að ráðum kapítalismans og kaupa beint frá framleiðanda í stað þess að nota milliliði og skellir sér í ferð til víetnam árið 1969 í þeim tilgangi að koma sér upp viðskiptum við sigraðan, víetnamskan hershöfðingja.
Á sama tíma er lögreglumaðurinn Richie Roberts í lögfræðinámi í New Jersey samhliða lögreglustörfum. Richie gengur hreinu og beinu braut réttlætisins, þiggur ekki mútur og vinnur sitt starf sem best hann getur.
Þessi mynd er byggð á sönnum atburðum og því finnst mér ennþá skemmtilegra að horfa á hana, sérstaklega hluta Franks, vegan þess að raunverulegir ævintýramenn sem þessir virka miklu betur á mig en upplognir. Ég bjóst við miklu af myndinni enda gerð af Ridley Scott og með ekki ómerkari menn en Russel Crowe og Denzel Washington í aðalhlutverkum. Ég hef nokkur smávægileg umkvörtunarefni en ekki svo stórvægileg að þau dragi myndina neitt niður í meðalmennsku, hún er mjög góð en mér finnst hún hefði getað verið ennþá betri. Eins og er er myndin frekar löng, heilar 157 mínútur. Mér fannst saga Frank Lucas það miklu skemmtilegri en saga lögreglumannsins Richie að það hefði mátt skipta myndinni upp á aðeins ójafnari hátt. Það var hreinlega ekki neitt það skemmtilegt að fylgjast með Richie í réttarsal að biðla til konunnar sinnar um sameiginlegt forræði, það einfaldlega skipti litlu máli fyrir persónuna og skildi ekkert eftir sig. Frank aftur á móti er algjör snillingur og á skilinn allan þann tíma sem hann fær á skjánum og meira til. Ferðin til Víetnam, allur tíminn í Harlem, paranoian, þetta er allt algjör snilld oghefði mátt dominera myndina aðeins meira. Þannig finnst mér að það hefði mátt stytta myndina aðeins með því að klippa burt þetta "custody trial" dæmi, það gerði allavega ekkert fyrir mig. Auk þessa hef ég sama umkvörtunarefni og Jón varðandi ástralann Crowe. Common, hvar er hreimurinn? Ef Leo DiCaprio og Daniel Day Lewis geta þetta af hverju ekki óskarsverðlaunadýrið Russel Crowe? Hérna er klippa úr myndinni, algjört snilldaratriði, Denzel með meistaratakta.
Þrátt fyrir þetta er margt sem Scott gerir rétt í myndinni, miklu meira en það sem gert er aðeins vitlaust. Hasaratriðin eru frábær og virkilega spennandi, saga Lucas er vel sögð og tilfinningaþrungin og allt er frábærlega leikið. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að taka eftir því hvernig mikilvæg plot points og hlutir voru kynntir til sögunnar. Ég nefni sem dæmi píanóið, sem er kynnt með heilli senu fyrir sjálft sig og notað á mjög effektívan hátt seinna í myndinni. Hitt er svo auðvitað fataráðgjöfin, sem er algjör snilld.
Allt í allt var þetta frábær mynd, 4/5, en hefði að mínu mati getað dottið í 4,5/5 með aðeins meiri áherslu á Lucas. Engu að síður ein af bestu myndum ársins 2007.

No comments: