Sunday, November 4, 2007

Texas Chainsaw Massacre(1974)


Undanfarin ár hefur hrollvekjunni verið sökkt á bólakaf í hafsjó lélegrar kvikmyndagerðar með endalausum endurgerðum af misgóðum hryllingsmyndum liðinna áratuga og flóðs af unglinga "bregðutryllum". Það er því ákveðna hugarró að finna í þeirri staðreynd að eitt sinn gerðu menn góðar hryllingsmyndir og, öðru hvoru, gerðu þeir frábæra bíómynd í leiðinni. Tobe Hooper tókst þetta með hinni ótrúlega ódýru "Texas Chainsaw Massacre" sem tekin var upp í sumarfríi á áttunda áratugnum og notast við hóp óreyndra leikara til að halda kostnaði í lágmarki. Þannig var íslenskum háskólanemanda í Bandaríkjunum, Gunnari Hansen, boðið hlutverk keðjusagarmorðingjans, eins alræmdasta viðbjóðs kvikmyndasögunnar.

Það hafa flestir lent í því að sjá hryllingsmynd sem raunverulega hræddi úr þeim líftóruna, eða þeir héldu það allavega. Þetta hélt ég um Event Horizon en í raun gæti þeirri upplifun verið líkt við þátt af Bubbi Byggir í samanburði við TCM. Upplifunin að horfa á þessa mynd breytti mér. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst Tobe Hooper að búa til mynd úr nánast engum fjármunum sem er ekki einungis betri mynd en allt fokdýra ruslið frá Hollywood þessa dagana heldur væri hreinlega ómögulegt að búa til eins hráa og ótruflaða kvikmyndalega sýn með þeirri dobíu af peningum sem ausið er í slíkar myndir nú til dags.

Myndin fjallar, eins og svo margar aðrar hryllingsmyndir, um hóp krakka á road-trippi um suðurríki bandaríkjanna sem beygja inn að gömlum sveitabæ og lenda í tómu rugli. Þrátt fyrir lítið budget tekst þessari mynd að líta rosalega vel út. Hún er vissulega mjög hrá og það sést vel. Til dæmis um hið rosalega lága budget þá er atriði í myndinni þar sem stelpa er skorin á fingurgómnum og það var gert í alvörunni vegna þess að gerviblóðið á hnífnum virkaði ekki. Það eru á endanum kvikmyndatakan, tónlistin og hljóðið sem gera þessa mynd svona rosalega pro og góða. Hljóðin í myndinni smjúga inn í merg og bein og samspil þess við tónlsit og mynd eru með því besta sem ég hef séð. Myndefnið er svo að sjálfsögðu frábært líka og eru allar sviðsetningar rosalega flottar og þrungnar því frábæra og rosalega andrúmslofti sem umlykur myndina. Ég verð sérstaklega að minnast á eitt atriði, eftir að Leatherface drepur í fyrsta sinn og lokar síðan hurðinni. Þessi sviðsetning er alveg rosaleg. Ekki einungis er atriðið frábærlega sviðsett og áhrifamikið heldur verður Hooper að henda í mann því rosalegasta af öllu í lok atriðisins, stálhurð í þessu gamla og ljóta timburhúsi. Stálhurð? Eftir þetta átakanlega atriði er maður gersamlega varnarlaus gegn brögðum leikstjórans og þessi rosalegi contrast sem myndast milli stáls og viðar eru næstum því til að spegla contrastinn milli fyrri og seinni hluta myndarinnar, sem er þarna að ganga í garð. Það sem áður var bara roadtrip er nú orðið að skelfingu.

Leikurinn er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Krakkarnir sjálfir kunna að vera steríótýpur en þeir gera sitt ágætlega en það er í illmennum myndarinnar sem myndin fer raunverulega á flug. Leðurfés sjálfur fær eitt rosalegt atriði fyrir sjálfan sig þar sem Gunnar Hansen stendur sig mjög vel og hin illmenni myndarinnar eru jafnvel ennþá ógeðslegri, enda raunverulegri í samanburði við Leddarann. Vil ég þá sérstaklega nefna kvöldmataratriðið, sem er fyrir löngu orðið að költ klassík út af fyrir sig, og atriðin tvö í bílunum, þá sérstaklega það sem inniheldur spýtu. Einn rosalegasti leikur sem ég hef séð og magnaðasta atriði sömuleiðis.

Þessi mynd er alveg hreint ótrúleg. Þegar maður heldur að spennunni sé að létta grípur myndin mann aftur og læsir mann aftur oní sætið. Þessi mynd er hreinlega langbesta hryllingsmynd sem ég hef nokkurn tíma séð og það er hrein synd að ég hafi séð svona margar góðar bíómyndir því annars færi hún beint inn á topp tíu listann hér til hliðar. Sæti 11 er allavega klárlega merkt henni. Henni tókst að gera það sem engri mynd áður og sjálfsagt engri mynd héðan í frá mun nokkurn tíma takast. Henni tókst að fá mig til að hræðast raunverulega og af fullri alvöru og ég átti virkilega erfitt með að sofna á eftir. 5/5

No comments: