Monday, November 12, 2007

Topp Tíu Sjónvarpsþættir - seinni hluti

West Wing

Þessir eru svona pínu acquired taste. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að langflestir horfa á West Wing og hugsa að þeir gætu alveg eins verið að horfa á fréttirnar og nenni ekki að pæla í þessari stjórnmálavitleysu. Fyrir þannig lið bætir heldur ekki úr skák að þættirnir eru ekkert að slaka á því að vera sniðugir þannig að manni líður oft eins og allir karakterarnir séu milljón sinnum sniðugri en maður sjálfur. En þetta eru líka allt ástæður fyrir því að ég elska þessa þætti. Sérstaklega eru fyrstu seríurnar fyndnar, sniðugar og gefa manni skemmtilega innsýn í bandarískt stjórnmálalíf og hefur þessum þáttum oft verið lýst með „það sem hefði gerst ef demókrati hefði unnið forsetakosningarnar 2000“. Þannig hafa þættirnir þótt standa sig vel í að lýsa hvernig demókratar hefðu tekið á þeim vandamálum sem risið hafa upp í valdatíð George W. Bush Jr. Þættirnir luku göngu sinni með 7. seríu í fyrra þar sem Jed Bartlett(Martin Sheen) lauk setu sinni á forsetastóli og fjallaði serían um kosningabaráttu forsetaefnanna tveggja, leiknum af Jimmy Smits og Alan Alda. Leikaraliðið í þessum þáttum stóð sig virkilega vel og má þar sérstaklega nefna Rob Lowe, Richard Schiff, Bradley Witford, John Spencer, Allison Janney og áðurnefndan Sheen. Skipt var um rithöfundalið eftir fyrstu seríurnar og má greina mun á fílinginum í þáttunum eftir skiptin en þó er um að ræða virkilega skemmtilega þætti allt í gegn. Eina serían sem ég horfði á í heild var 7. serían og er hún ein og sér alveg nógu góð til að komast á þennan lista. Margar skemmtilegar pælingar eru í gangi í henni og má þar sérstaklega nefna einn þátt sem settur er upp eins og kappræður og var tekinn upp sem slíkar, þ.e. Jimmy Smits og Alan Alda undirbjuggu sig og fóru síðan út í sal í kappræður sín á milli og verður að segjast að þeir stóðu sig báðir helvíti vel. Ein frumlegasta og skemmtilegasta pæling sem ég hef séð í þessum þáttum. Virkilega gott stöff.

Dexter

Ég fjallaði stuttlega um þennan í færslu um daginn og ég nenni eiginlega ekki að tvítaka mig þannig að hér er bara linkur á hana: Hin grein!

Battlestar Galactica

Þegar ég var pínulítill horfði ég alltaf með bræðrum mínum á Star Trek, fyrst um sinn á Deep Space 9 og seinna á Voyager. Ég hef líka alla tíð verið mikill Star Wars gæji og því hefur Sci Fi með tímanum skipað sér í sæti sem ein af mínum uppáhalds stefnum í bíómyndum og bókum. Þegar ég byrjaði að horfa á Battlestar Galactica bjóst ég alveg eins við að sjá eitthvað áþekkt Babylon 5 en svo reyndist sannarlega ekki vera. Hér er ekkert glans eða glingur eins og í Star Trek, hérna erum við með lógískt framhald af áldósunum sem við köllum geimskip í dag. Allt er skítugt, gritty og umfram allt töff.
Þættirnir hefjast á því að okkur er sagt að mennirnir, búsettir á nokkrum plánetum sem eru kallaðar “The Colonies”, bjuggu til vélmenni til að létta sér verkin og kölluðu þau Cylons. Þegar þau urðu þreytt á að þjóna mönnunum gerðu þau uppreisn og byggðu sér nýtt heimili eftir stutt stríð við mennina. Fyrsti þátturinn fjallar síðan um það þegar vélmennin snúa aftur og gersamlega owna mennina, rústa f
lotanum og plánetunum öllum og ekkert er eftir nema pínulítill flóttamannafloti með eitt stríðsskip í broddi fylkingar, Battlestar Galactica. Þættirnir fjalla síðan um flótta mannanna frá vélmennunum og eitthvað miklu stærra líka eins og góðir Sci Fi þættir gera svo vel.
Þættirnir eru frábærlega leiknir, eitthvað sem maður á ekki
að venjast í Sci Fi og er það kærkomin tilbreyting frá beinstífum leiktöktum Star Trek: Voyager. Fyrstan skal minnast á Edward James Olmos, sem leikur Admiral Adama yfirmann flotans. Þessi maður er með rispuðustu viskírödd sem ég hef nokkru sinni heyrt og er ekki annað hægt en að falla á kné fyrir svona últrasvölum gæja. Aðrir sem standa sig vel eru Jamie Bamber, Katee Sackhoff og Mary McDonnell en allir leikararnir falla vel að hlutverkum sínum svo nánast ómögulegt er að kvarta yfir nokkru á þeim bænum.
Það besta við þessa þætti eru samt tæknibrellurnar. Þrátt fyrir að vera enginn Gollum þá eru brellurnar svo miklu, miklu betri en í öðrum Sci Fi þáttum að það er eiginlega bara fyndið. Þrátt fyrir að seinni seríur hafi augljóslega fengið meira fjármagn en sú fyrsta þá er ekki mikið að taka eftir sem gerir þættina eitthvað asnalega.
Eina sem gæti pirrað er að sum geimskipaskot eru endurnýtt í fyrstu seríunni en það er ekkert sem drepur mann og verður allavega aldrei jafn glatað og í Babylon 5. Manni líður alltaf vel þegar maður horfir á geimbardaga og allt er frekar epískt og kúl.
Sagan er síðan punkturinn yfir i-ið. Hún er ótrúlega skemmtileg og viðamikil og henni er ýtt áfram af virkilega góðum handritshöfundum sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þetta eru kallar sem þekkja gott Sci Fi. Allt í allt eru þetta frábærir þættir. Snilldar Sci Fi, góð saga og vel leikið í þokkabót.

Into The West

Ég var í ákveðinni þurrð á sjónvarps- efni þegar ég datt í þessa mini-seríu. Þetta var í sumar og eins og menn taka eftir verða góðir þættir mjög af skornum skammti á þeim árstíma. Það mætti líka alveg færa rök fyrir því að ég hefði átt að eyða meiri tíma úti við heldur en að húka inni og horfa á sjónvarpið, en hverjum er ekki DMS um svoleiðis komment? Ég hafði heyrt margt gott um þessa þætti og þar sem þetta er mini-sería framleidd af Steven Spielberg um yfirtöku hvíta mannsins á hinu villta vestri hafði ég mikinn áhuga á að tékka á þessu. Spielberg framleiddi einmitt líka Band of Brothers og allt benti því til frábærrar seríu. Að segja að ég hafi ekki orðið fyrir vonbrygðum myndi ekki lýsa upplifuninni fyllilega með nokkru móti. Þessir þættir hreinlega ownuðu mig. Það er engin betri leið til að lýsa því.
Þættirnir fjalla um tvær ættir, eina ætt hvítra landflutningamanna að nafni Wheeler og aðra ætt Indíána, á tímum landkönnunar vestursins í Bandaríkjunum frá 1825 til aldamótanna 1900. Serían er 6 þættir og er hver þáttur 1 og hálfur klukkutími að lengd þannig að það er farið yfir mikið efni. Hver þáttur er því nánast bíómynd út af fyrir sig og segja þeir flestir ágætlega sjálfbæra sögu þó það sé að sjálfsögðu nauðsyn að horfa á þetta allt. Eins og allt sjónvarpsefnið á þessum lista eru þættirnir frábærlega leiknir. Fyrsti þátturinn fjallar um Jacob Wheeler, leikinn af Matthew Settle og stendur hann sig hreint frábærlega. Jacob ákveður að halda af stað í ævintýr eftir áralöng leiðindi við v
agnhjólagerð með föður sínum og bræðrum. Hann heldur af stað í vesturátt og tekur þátt í leiðangri alla leið til Californiu. Inn í hans sögu tvinnast margir mismunandi karakterar, hver betur leikinn en sá síðasti. Gary Busey, Skeet Ulrich, Will Patton og Josh Brolin eru nokkur af þeim nöfnum sem nefna má úr fyrsta þættinum einum saman. Auk þeirra sjást seinna menn á borð við Lance Henriksen, Beau Bridges, Tom Berenger og Sean Astin.
Sögunni er skipt frekar jafnt milli ættanna tveggja og tvinnast sögur þeirra saman á víð og dreif. Indíánarnir eru allir feiknavel leiknir eins og aðrir í þáttunum og má þar sérstaklega nefna Michael Spears, sem leikur höfðingjasoninn Dog Star.

Þættirnir eru vel skrifaðir, allir karakterar djúpir og vel skilgreindir án þess að verið sé að fara í forsögu þeirra eða eitthvað slíkt. Sagan er skemmtileg, fróðleg og umfram allt virkilega góð. Það hefur ekki komið fyrir mig áður nema í Six Feet Under að ég finni svona til með karakterum. Svo virðist sem til sé fagfólk í Hollywood sem sér bara um sjónvarp og verður ekkert frægt. Leikstjórar og handritshöfundar sem gera allt fagmannlega og vel en eru samt engar stjörnur, bara lið sem er gott í vinnunni sinni. Þannig þekki ég engan leikstjóra eða höfund hér en allt er virkilega vel úr garði gert og að sjálfsögðu vilja framleiðendurnir ekki vera að eyða fullt af pening í svona metnaðarfullar seríur án þess að gera það almennilega.
Eitt sem ég vil sérstaklega minnast á í viðbót er tónlistin í þessum þáttum en hún er ógeðslega góð. Það gerist örsjaldan með þætti eða bíómyndir að allir þættir framleiðslunnar koma saman og verða að einhverju meira en bara summu allra partanna. Það er það sem gerist hér þegar tónlistin fer á flug. Þættirnir verða að einhverju meira en bara frábæru sjónvarpsefni og festa sig í sessi sem ótrúleg upplifun. Geoff Zanelli gerði allavega fokking vel í tónlistinni hérna.
Þessir þættir eru frábærir. Ég hefði getað skrifað ennþá lengur um alla leikarana sem koma fram(Keith Carradine, Rachael Leigh Cook, Wes Studi) en það myndi taka miklu meira en nokkur hundruð orð. Frábær söguheimild, skemmtilegt sjónvarpsefni. Ég get ekki beðið um meira.

No comments: