Thursday, September 27, 2007

Sjónvarpsveturinn 2007-2008

Nú er október rétt handan við hornið og um þetta leiti ár hvert hefjast sjónvarpsseríur að nýju eftir sumardvalann. Mig langaði nú bara til að skella inn áliti mínu á opnunarþáttum nokkurra skemmtilegra þáttaraða og ráða í hvað gæti verið þess virði að fylgjast með yfir vetrarmánuðina.

Prison Break

Þetta er þáttur sem ég var mjög skeptískur með eftir lok 2. seríu. Fyrsta serían náði að reiða fram einhverja skemmtilegustu og mest spennandi þáttaröð seinni ára, þegar Michael og Linc börðust við að sleppa úr Fox River fangelsinu. Önnur serían sýndi okkur tvo bræður á flótta ásamt drjólunum sem sluppu út með þeim. Þessi sería náði ekki að heltaka mig á sama hátt og sú fyrri. Þrátt fyrir skemmtilega karaktera tapaði serían dampi og missti dálítið sjónar á lokamarkmiðinu. Við enda seríunnar höfðum við bræðurnar tvo á Panama, Michael ákærðan fyrir morð og sitjandi í Sona fangelsinu þar sem verðirnir koma ekki nálægt veggjunum, og Linc sitjandi í reiðileysi án þess að vita neitt hvað er í gangi. Þá kemur spurningin, getur þáttaröð eins og Prison Break tekist að finna upp hjólið í þriðja skiptið í jafn mörgum seríum eða lendir hún í þeim vandræðum sem Lost glímdi við í 2. seríu, að hafa ekkert merkilegt að segja?
Til allrar hamingju virðist þeim félögum ætla að takast að halda manni spenntum eftir allt saman. Ný ráðgáta er leidd fram, við fáum að vita af hverju Michael hefur verið komið fyrir á þessum sorastað og Lincoln fær nokkrar sendiferðir. Aðalskemmtun þáttarins er fangelsið sjálft, mun harðneskjulegra en Fox River og elementið að hafa enga verði innan veggjanna heldur einungis harðsvíraða fanga gefur seríunni nýjan lit. Hér er enginn fangelsisstjóri eins og Pope í fyrstu seríunni heldur einungis stór svartur gæji, sem lúkkar frekar vafasamur. Án þess að gefa of mikið upp um plottið í fyrsta þættinum vil ég bara segja að hann lofar góðu fyrir seríuna og ef Scofield og félögum tekst að halda rétt á spilunum gætum við verið að horfa fram á frábæra seríu af Pris.


Heroes

Fyrsta sería Heroes endaði með skelli. Eftir að hafa beðið heila seríu eftir bombu bardaga milli Peter Petrelli og Sylar fengum við ömurlegt "brawl" sem gaf okkur ekki einu sinni smjörþefinn af því sem þessir menn geta raunverulega gert. Það var því með litla von í hjarta sem ég horfði á þennan fyrsta þátt annarrar seríu og ég get ekki sagt að ótti minn hafi verið bægður burt, þó ekki hafi þetta verið alslæmt. Vissulega tekst höfundum þáttanna að koma með nýja skemmtilega pælingu inn í plottið og það lítur út fyrir að sagan gæti orðið ágæt, en af hverju er mér þá alveg sama? Þessir karakterar hreinlega dóu fyrir mér í lokabardaga fyrstu seríu. eini karakterinn sem mér er ekki hjartanlega sama um er Claire, veit ekki hvort það er bara vegna þess að ég fíla menntaskólapælinguna, sem hún er að detta í, svona vel. Ef þú getur komist yfir þessa annmarka geturðu sjálfsagt skemmt þér ágætlega yfir þessari seríu og ég mun sjálfsagt halda áfram nokkra þætti í viðbót, en ég verð að segja að ég er ekki yfir mig spenntur.

Californication

Nei, ekki Red Hot Chili Peppers heldur David Duchovny. Þessi sería er reyndar ekki að byrja núna, hún hefur verið í gangi í rúman mánuð núna og eru komnir 7 þættir í loftið. Þessi sería fjallar um rithöfund, Hank Moody, sem hefur ekki tekist að skrifa orð í allt of langan tíma, er hættur með kærustu sinni til langs tíma, sem reynist einnig vera barnsmóðir hans, og eyðir dögum sínum í að pikka upp hverja fallegu konuna af annarri til að fylla upp í tómarúmið í lífi sínu. Hank er rosalega kaldhæðinn og skemmtilega leiðinlegur og klúr. David Duchovny á þessa seríu, hún væri ekki hálfdrættingur á við sjálfa sig ef einhver annar léki aðalhlutverkið. Duchovny gersamlega neglir þennan karakter og þrátt fyrir að maður hefði kannski ekki gaman af að þekkja þennan mann er frábært að eyða með honum hálftíma í viku. Ástæðan fyrir því að þessi sería virkar er sú að húmorinn er góður, blandaður temmilegu drama og dobíu af skemmtilegum karakterum, þá sérstaklega Moody sjálfum og umboðsmanninum hans, leiknum af Evan Handler sem sumir kannast kannski við úr Sex and the City.
Snilldar sería, gott snakk.

Dexter

Hér er þáttur sem ég gersamlega get ekki hamið mig yfir. Fyrsta serían var snilld, pure and simple, ogþar með telst leikurinn, sagan, myndatakan og hreinlega allt saman. Karakterinn Dexter Morgan er einn sá skemmtilegasti í sjónvarpinu um þessar mundir og ekkert gæti fengið mig til að skipta um skoðun á því.
Fyrsti þátturinn í 2. seríu veldur ekki vonbrygðum. Þrátt fyrir snilldarsögu fyrri seríunnar tekst höfundunum að búa til aðra ótrúlega skemmtilega pælingu fyrir þessa seríu og verður virkilega gaman að sjá hvernig hún þróast. Leikararnir eru enn í toppformi, sérstaklega Michael C. Hall í aðalhlutverkinu. Hvort sem hann leikur ástsjúkan jarðarfarastjóra í Six Feet Under eða tilfinningalausan raðmorðingja hér tapar hann aldrei trúverðugleika og missir ekki úr nótu. Ég er sjálfur rosalega ofnæmur fyrir spoilerum og gef því sem minnst uppi en segji þó að ég get ekki ímyndað mér nokkra stöðu þar sem þessi sería verður nokkuð annað en geðveikt klikkuð.

2 comments:

Björn Brynjúlfur said...

Ég kíkti á Californication eftir að sjá þessa færslu, er alveg sammála þér, þessir þættir eru fyrst og síðast herra Duchovny að spaðast. Hann er samt mjög góður í því, ég held að ég kíki á þetta eitthvað áfram.

Bóbó said...

Serían verður bara skemmtilegri finnst mér. Eftir því sem maður kynnist kallinum betri líkar manni betur og betur við hann. Þó serían geti orðið pínulítið og sniðug þá kann ég bara vel við það. Það er ein aðalástæðan fyrir því að ég fíla West Wing, allir miklu sniðugri en ég.