Saturday, September 15, 2007

Topp Tíu - framhald

Jæja, þá er fimmta sætið á listanum komið á hreint og ég er orðinn frekar ánægður með listann sem slíkan. Þetta er samt ekki á neinn hátt endanlegur listi, held ég. Hann á ábyggilega eftir að breytast mikið í framtíðinni, but for what it's worth:

5. Gold Rush

Þessa mynd var ég svo lánsamur að sjá á einni af ferðum mínum í Sinfóníubíó og ég held að þetta sé jafnvel skemmtilegasta bíómynd sem ég hef séð. Karakterarnir eru frábærir eins og venjan er í Chaplin myndum, lífsreyndi einfarinn heldur sínu striki og gott betur. Ég hef séð áður The Circus, The Great Dictator og The Adventurer af myndum Chaplins og þótt þær séu allar stórskemmtilegar reynist Gold Rush sú allra frábærasta. Það er ekki margt sem þessum manni datt ekki í hug að gera og sköpunargáfan og ánægjan sem hann hefur af kvikmyndagerðinni skín í gegn í öllum myndum hans, hversu þungt sem efnið kann að vera.

6. American Beauty

Það er ofboðslega fátt sem ekki hefur verið sagt um þessi mynd áður. Handritið og sagan í heild auk frábærra tilburða leikaranna gera þetta að bestu karakter stúdíu sem ég hef séð. Kevin Spacey er sérstaklega frábær í aðalhlutverkinu. Tónlistin er líka mjög góð.

7. Apt Pupil

Sumir kunna að reka upp stór augu við þessa mynd enda kannski ekki eins þekkt og aðrar á þessum lista. Eftir að ég heyrði að Bryan Singer ætti að leikstýra fyrstu X-men myndinni lagðist ég í það að horfa á fyrri myndir hans, þar á meðal þessa og Usual Suspects. Ég er mjög áhugasamur um allt sem tengist seinni heimsstyrjöldinni og nasistum sérstaklega og get þess vegna upp að vissu marki tengt mig við huga aðalpersónunnar(þó ég gangi kannski ekki alveg jafn langt). Leikurinn hjá Ethan Hawke og Ian McKellen er frábær og sagan öll er mjög óhugnanleg en á sama tíma rosalega áhugaverð. Þetta er mynd sem ég mæli eindregið með að allir sjái, hvort sem þeir hafa áhuga á nasistum eða ekki.

8. Citizen Kane

Fyrir utan það að vera framsæknasta kvikmynd síns tíma hvað varðar kvikmyndatöku og hljóð er þessi fyrsta kvikmynd Orson Welles einnig frábær bíómynd um líf og daga fjölmiðlarisa í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar. Það að Welles hafi verið 25 ára þegar hann gerði hana bætir einnig miklu við sjarmann að mínu viti. Leikurinn og handritið eru í toppformi hér en það magnaðasta af öllu finnast mér vera förðunarbrellurnar á Kane sjálfum. Welles var breytt úr frekar þykkum 25 ára gæja í hrumt gamalmenni án þess að maður efist nokkurn tíma um sannleika myndarinnar. Ég hef kannski ekki séð mjög margar myndir frá tímabilinu en þessi er algjör snilld og skilduáhorf fyrir hvern sem hefur minnsta áhuga á sögu kvikmyndalistarinnar og góðum klassískum myndum.

9. The Unforgiven

Ég hef séð ófáann vestrann í minni tíð, myndir á borð við "The Man Who Shot Liberty Valance" með John Wayne eða spagettívestra Leone, en engin þeirra kemst í hálfkvisti við þetta meistaraverk Clint Eastwood. Hver sem lesið hefur sér eitthvað til um gamla vestrið sér um leið að það var ekki mjög viðkunnanlegur staður og því tekst Clint að koma fullkomlega til skila. Hér er ekkert svart og hvítt, enginn vondur eða góður heldur allir á gráu svæði, eins og vill sjálfsagt verða þegar menn búa við eilíf morð án dóms og laga áratugum saman. William Munny er maður með mjög vafasama fortíð að baki, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ætlar sér að græða smá pening á hausaveiðum eftir að hafa lagst í helgan stein frá manndrápum nokkrum árum áður. Grimmur raunveruleiki vestursins leikur í höndum Eastwoods og ekki er hægt annað en dást að samtölunum, kvikmyndatökunni, karakterunum og síðast en alls ekki síst ofbeldinu, sem ekki verður þurrð á. Ein flottasta mynd sem ég hef séð, útlitslega séð.

10. Lord Of The Rings

Þessar myndir verða að vera inni á hvaða lista sem mér dettur í hug að búa til um góðar bíómyndir. Fyrir utan að vera meistaraverk hvað varðar allt frá söguaðlögun til tónlistar eru þessar myndir það stór hluti af pop kúltúr minnar samtíðar að þær eru samgrónar kvikmyndasmekk mínum að miklu ef ekki öllu leyti. Leikurinn er frábær, handritið frábært, myndatakan, tæknibrellurnar, hljóðið, förðunin, hreinlega allt sem gerir bíómynd að bíómynd tekst frábærlega hér. Ég væri hreinlega kolbilaður ef þessi næði ekki inn á lista.

Jæja, þá er það búið og ég vona að þessi listi komi einhverjum af ykkur að gagni næst þegar haldið er út á leigu.

No comments: