Friday, September 7, 2007

Topp Tíu

Þessi blessaði topp tíu listi. Ég hef alltaf átt ofboðslega erfitt með að setja saman svona lista því það eru einfaldlega allt of margar myndir sem eiga heima á honum. Það sést vel á mínum að það kvelur mig ótrúlega að afneita myndum af listanum og síðan ég gerði hann upphaflega hefur hann breyst mikið.

Röðin skiptir engu(kannski pínu) máli:

American Psycho
Fyrir það eitt að vera myndin sem kynnti mig fyrir Christian Bale á þessi mynd skilið sæti á þessum lista. Það sem heillar mig mest við þessa mynd eru, augljóslega, leikurinn, þá sérstaklega Bale sem Bateman, karakterinn Bateman og soundtrackið. Christian Bale er uppáhalds leikarinn minn. Hann er leikari af gömlu gerðinni, maður sem leggur á sig raunverulega kvöl og pínu fyrir hlutverkið. Hann er, eins og einungis bestu menn geta státað af, alltaf góður þótt myndin sé vond. Hann er frábær í Batman, frábær í Machinist, frábær í Harsh Times og listinn heldur áfram.
Patrick Bateman er karakter sem ég elska. Hann er svo gersamlega falskur gaur að svo virðist sem allt sem hann gerir sé öfugt við persónuleiak hans. Besta dæmið er um miðbik myndar þegar Willem Dafoe spyr hann hvort hann fíli Hughie Lewis and the News, band sem Patrick var að enda við að útskýra að væri ein besta sveit 9. áratugarins, og Patrick segir þá vera of svarta fyrir sinn smekk.
Það verður ekki minnst á þessa mynd án þess að tala um soundtrackið, sem er án allra ýkja besta soundtrack sem ég hef heyrt í bíómynd. Katherine In The Waves, Hughie Lewis and the News, Phil Collins, Robert Palmer, öll lögin í myndinni gera sitt til að bæta við '90s uppamenninguna sem myndin lýsir svo einstaklega vel. Þess vegna er þessi mynd númer 1.

Shawshank Redemption

Mér finnst það eiginlega óþarfi að lýsa því hvað mér þykir frábært við þessa mynd. Allir eiga að hafa séð þessa mynd og ef þú sérð ekki hvað mér finnst svona frábært við hana áttu ekki eftir að vera sammála neinu sem ég segji hérna. Andrúmsloftið, samtölin, handritið, leikurinn og aðallega hin frábæra tilfinning sem ég finn til við hvert áhorf gera þessa mynd að einni af mínum allra uppáhalds myndum. Ef þú hefur ekki séð þessa, áttu mikið eftir.

Aliens

Meistaraverk á allan hátt. Þar sem fyrsta Alien myndin, eftir meistara Ridley Scott, var hryllingsmynd sem nýtti sér til fulls innilokunarkennd geimskipsins og víðáttufælni geimsins er Aliens, eftir Jim Cameron, mun meiri spennumynd. Handritið, set-upið, leikurinn, karakterarnir, brellurnar, spennan og síðast en alls ekki síst hljóðið, sem fær mig til að missa vatn í hvert skipti, gera þessa mynd ekki einungis að bestu mynd James Cameron, sem sendi einnig frá sér meistaraverk á borð við Terminator og Terminator 2, Titanic, The Abyss og True Lies, heldur að bestu hasarmynd allra tíma. "One-Line"erarnir eru í toppformi hérna, til að mynda hin tíma lausa setning "They mostly come out at night... mostly". Leikararnir, Sygourney Weaver, Michael Biehn og Bill Paxton sérstaklega, gera þessa mynd svo að þeirri snilld sem hún er. Þó Ripley karakternum hafi verið nauðgað allharkalega í þeim skelfilegu myndum Alien 3 og Alien: Resurrection er hún enn fersk og trúverðug hér og fjölskyldueiningin, sem við endum með, er ein sú yndislegasta sem ég hef séð.

Requiem For A Dream

Ég vil byrja á að segja eitt. Ef þú hefur ekki séð þessa mynd nú þegar skaltu drullast út á leigu núna og horfa á þessa mynd áður en þú lest nokkuð um hana. Hún er skylduáhorf, fyrir alla.
Að því sögðu vil ég segja að þessi mynd er í raun í sérflokki á þessum lista því ég hef einungis séð hana einu sinni og held ég muni aldrei vilja sjá hana aftur, svo rosaleg er hún. Þrátt fyrir frábæran leik hjá öllum sem að myndinni koma, þá sérstaklega Ellen Burstyn, er það andrúmsloftið hér sem fer gersamlega með mig. Það er næstum að ég tárist núna þegar ég fer að hugsa til baka hversu rosaleg þessi mynd er. Myndatakan er í sérflokki, sem og soundtrackið, sem hittir á allar réttu tilfinningataugarnar á réttum stundum. Það er ekki oft sem ég kala leikstjóra snilling eftir að hafa einungis séð eina af myndunum hans en Darren Aronofsky á þann titil svo sannarlega skilinn. Enginn, alls enginn, má án þess vera að hafa séð þessa mynd.

Ég er ekki alveg viss með næsta sæti á listanum, ég klára þessa umfjöllun þegar ég er kominn með 5. sætið á hreint.

No comments: