Tuesday, September 18, 2007
Easy Rider
Fyrst ég er nú einu sinni byrjaður að vinna mig til baka í kvikmyndasögunni með Do The Right Thing(póstur að neðan) hefur þetta flætt frekar eðlilega eftir það. Næst á dagskrá var Easy Rider(1969) eftir Dennis Hopper, sem með frábærum leik sínum færði okkur meðal annars snilldarkaraktera eins og vonda gæjann í Waterworld og geðveika blaðamanninn í Apocalypse Now auk þess að gera Bowser ódauðlegan í Super Mario Bros.(1993). Ég hélt fyrirfram að þetta væri einhver mótorhjóla og ofbeldismynd með Jack Nicholson en brá heldur betur í brún þegar myndin byrjaði. Þessi mynd fjallar um hippa á dópi á leiðinni til New Orleans með fullt af pening. Á leiðinni gera þeir hippalega hluti eins og að heimsækja kommúnu og reykja gras. Í rauninni olli þetta mér ekki beinum vonbrygðum en ég var það hissa að fyrsti hálftíminn fór svolítið fyrir ofan garð og neðan. Síðan reyndist það líka vera Peter Fonda en ekki Jack Nicholson sem var í aðalhlutverki(Jack gamli kemur seinna í aukahlutverki, frábær að vanda).
Það eru nokkrar skemmtilegar pælingar í gangi í þessari mynd, aðallega hversu Bandaríkjamenn í Suðurríkjunum eru lokaðir fyrir öðruvísi fólki og hreinlega geðveikir á köflum(umburðarlyndi ábótavant) og hversu hakkaðir hippar eru(frjálslyndi verður steikt á endanum). Þó ég sé ekki viss hvort leikstjórinn ætlaði sér að sýna fram á það seinna tekst honum það allavega í seinni tíð því ég get ekki ímyndað mér margt steiktara en lið sem hættir í háskóla til að búa útí eyðimörk og rækta þar hrísgrjón og gras. Umburðarlyndi suðurríkjamanna hefur svosem komið fyrir í mörgum myndum, bæði fyrir og eftir þessa þannig að það kemur mér fátt á óvart í þeim efnum. Engu að síður er pælingin til staðar að þótt Peter Fonda keyri um á mótorhjóli alþöktu bandarísak fánanum tekur fólk ekki vel í hann einungis því hann er með sítt hár. Grunnhyggni kanans og fólks allstaðar liggur mjög á Hopper að því er virðist.
Myndatakan í myndinni er frekar straight-forward og tíðindalítil, það er ekki fyrr en við komum í sýruvímurnar sem hlutirnir fara að gerast. Þessi atriði hafa sjálfsagt þótt rosaleg á sínum tíma en eftir að hafa séð Fear And Loathing In Las Vegas of oft til að halda tölu gerðu þau ekkert fyrir mig. Endirinn er síðan kapítuli út af fyrir sig, vil ekki fara neitt nánar út í hann.
Þessi mynd hefur elst illa að mínu mati. Allar pælingarnar sem í gangi eru hafa verið gerðar betur eftirá, en á sínum tíma, í miðri hippabyltingunni, hefur hún sjálfsagt verið rosaleg og staðfesting á því valdi sem ungt fólk hefur í samfélaginu. Fín mynd fyrir sögu sakir. 2 1/2 /5
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment