Tuesday, September 18, 2007

The Thing


Eins og sjá má á bloggum okkar félaganna leigðum við The Thing um daginn og löngu kominn tími á mig að bomba inn færslu. The Thing er gerð af John Carpenter, þeim mikla meistara, sem færði okkur einnig Halloween og In The Mouth Of Madness meðal annarra. Þetta var í annað sinn sem ég sé myndina og hún var hreinlega betri í annað skiptið ef eitthvað er. Hún notar gamla trikkið í hryllingsmyndageiranum að planta hópi fólks útí rassgati(Suðurpólnum í þessu tilfelli) og henda í þau skrímsli. Suðurpóllinn sem staðsetning gerir myndina skemmtilegri að mínu mati því það er auðveldara að tengja við hann heldur en t.d. geimskipin í Alien eða Event Horizon auk þess sem kuldinn gefur manni alltaf átómatískan hroll.
Það sem sker þessa mynd frá mörgum öðrum klassískum hryllingsmyndum er hversu fljótt við fáum að sjá skrímslið og fáum að vita eiginleika þess. Carpenter lítur augljóslega á það þannig, sem að mínu mati er mjög áhrifaríkt, að jafnvel þótt þú þekkir eitthvað getiru samt verið skíthræddur við það. Til að menn geri nú samt ekki alveg í brækurnar er Kurt Russell mættur á svæðið sem þyrluflugmaður og gerir sitt til að drepa kvikindið. Ég verð að segja að þessi maður er í uppáhaldi hjá mér, hann á svo auðvelt með að vera svalur að hálfa væri nóg.
Björn minntist á það í sínu bloggi að honum þætti það skapa minni spennu að myndin notast mikið við föst skot og pan skot frekar en óreiðufulla kameruvinnuna sem finna má í mörgum nýrri hryllingsmyndum. Þessu verð ég að vera ósammála því það er eitthvað sem fær virkilega á mig við svona straight-forward myndatöku á einhverju jafn disturbing og þessu skrímsli. Mörg ofboðsleg atriði eiga sér stað í þessari mynd og má þá sérstaklega minnast á endurlífgunartilraunina og biluðu eldvörpuna í því samhengi. Augljóst er að Carpenter kann fullt lag á gömlu Halloween-stíls brellunum og nýtir þá kunnáttu til fullnusut hér. Aldrei finnur maður fyrir aulahrolli yfir nokkru sem hér fer fram eins og oft vill verða með myndir frá 9. áratugnum. Hann er líka mjög góður að skapa spennu, blóðatriðið verandi fáránlega spennandi. Það bætir líka virkilega skemmtilegum fídus við myndina að allir karakterarnir eru karlmenn. Það eyðir vandræðunum sem sumir leikstjórar lenda í þegar þeir henda kellingu með fyrir PC sakir en vita svo ekkert hvað á að gera við hana. Þarna höfum við 10 harða kalla að berjast við geimverur og ekkert rómantíkurbull eða vesen, bara aksjón og blóð.
Að lokum finnst mér eðlilegt að bera þessa mynd saman við In The Mouth Of Madness sem ég nefndi áðan. ITMOM er mun meira geðveikis og óhugnanlegheita mynd heldur en Thing sem styðst meira við spennuuppbyggingu og hrylling. Mér þykir það aðdáunarvert að leikstjóri skuli hafa jafn sterk tök á báðum hliðum hryllingsmyndaformsins og Carpenter hefur, enda ekki að ástæðulausu sem hann er kallaður hryllingskóngurinn.

No comments: