Thursday, September 6, 2007

Transformers

Það er rosalega mikið í tísku í Hollywood þessi misserin að eyðileggja fyrir fólki ungdómshetjur þess. Þar á ég t.d. við myndir á borð við Fantastic Four og Daredevil, svo ekki sé minnst á gamlan hrylling á borð við He-Man með þeim mæta manni, Dolph Lundgren, í aðalhlutverki. Það er því alveg hreint frábær tilfinning þegar maður fer á bíómynd sem gerir sitt besta til að gera gömlu átrúnaðargoðunum hátt undir höfði. Transformers er ein af þessum myndum. Henni er leikstýrt af Michael Bay, manninum sem færði okkur bæði snilld á borð við The Rock og Armageddon og einnig skelfinguna Bad Boys. Fyrirfram var ég frekar skeptískur á að leggja jafn hjartfólgna minningu og Transformers í hendur jafn mistæks leikstjóra, en hafði þó trú á kallinum til að ná því besta úr efninu og viti menn, honum tókst það svo sannarlega.

Myndin fjallar, í stuttu máli, um risastór vélmenni að slást. Inn í þessa flóknu fléttu flækjast svo tveir krakkar, Sam(Shia LaBeouf) og Mikaela(Megan Fox). Shia LaBeouf er í raun það sem kom mér mest á óvart við þessa mynd. Hann hefur þegar leikið stór hlutverk í nokkrum áhugaverðum myndum, þar á meðal I, Robot, og virðist vera að koma sér vel fyrir, sem einn af heitustu ungu leikurunum í Hollywood. Leikur hans hér fær toppeinkun hjá mér, sérstaklega hvað grínið varðar. En hvað svo með myndina? Aldrei hefði ég búist við því að sjá Transformers mynd með góðum leikurum, hvað þá almennilegu handriti, sem kemur heim og saman á endanum. Því blessaða fólki, sem gerði þessa mynd að veruleika, tókst þó að gera þetta auk þess að sýna mér hversu rosaleg slagsmál milli tugtonna vélmenna geta orðið í miðri stórborg. Ég get vel viðurkennt þá staðreynd að ég ber sterkar taugar til viðfangsefnisins en það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að Transformers er alveg hreint hörkugóð hasarmynd. Þótt greina megi klysjur í handritinu skiptir það hreinlega engu máli. Þessi mynd minnti mig að mörgu leyti á endurkomu John McClane hér fyrr í sumar, þar sem gamla, góða hasarmyndin átti endurnýjun lífdaga auk þess að reiða fram nóg af góðum húmor í kaupbæti.

Nú, á tímum endalausra Saw mynda, þegar ekkert virðist víst í bíóheiminum, annað en óskert vanvirðing lélegra leikstjóra við aðdáendur sína, eru virkilega góðar poppkornsmyndir mikilvægari en nokkru sinni. Ég veit ég tala fyrir hönd margra þegar ég biðst þess lengstra orða að Hollywood fari enn á ný að framleiða góðar spennumyndir og hætti þessari ömurlegu pælingu með vondar hryllingsmyndir, því ég kýs góðan Optimus Prime eða John McClane fram yfir krabbameinssjúkan Jigsaw hvaða dag sem er.

41/2 /5

No comments: