Saturday, November 10, 2007

Terrence Malick

Nú um daginn skellti ég mér í að horfa á nokkrar af myndunum á 102 mynda listanum sem við fengum í upphafi árs. Ein af þeim var Days of Heaven eftir Terrence Malick og í framhaldinu horfði ég einnig á The New World eftir hann, sem mig hafði reyndar lengi langað að sjá. Þetta verður því smá færsla um þær myndir sem ég hef séð eftir Malick og pælingar á eftir.


Days of Heaven

Days of Heaven fjallar um par, Bill(Richard Gere) og Abby(Brooke Adams), sem lifa á flakki um Bandaríkin með lítilli stelpu sem heitir Linda. Þau þykjast vera systkini af einhverjum ástæðum. Þegar þeim gefst tækifæri á að vinna eina árstíð á bómullarakri taka þau þeirri vinnu fagnandi. Það endar aftur á móti með því að eigandi plantekrunnar(Sam Shepard) verður ástfanginn af Abby og býður þeim öllum að búa á býlinu lengur eftir að uppskeran er búin. Þetta flækist síðan allt eins og hlutir eiga það til að flækjast í bíómyndum.

Myndin er bæði skrifuð og henni leikstýrt af Malick. Þótt það sé erfitt að koma auga á hvað það sé þá er eitthvað skrítið við hana, bæði söguframvindu og karakterpælingar. Augljósar ástæður liggja fyrir því að Bill og Abby vilji halda út eins lengi og mögulegt er á býlinu til að þurfa ekki að lifa lengur á vergangi en þrátt fyrir það eru frekar súrar pælingar í gangi með hversu langt þau eru tilbúin að ganga í lygum sínum. Allt point myndarinnar tapast síðan á leiðinni til mín og ég á frekar erfitt með að skilja endinn. Myndin er alls ekki léleg, hún er mjög flott tekin og ágætlega skrifuð og leikin, en það situr ennþá í mér hversu endasleppt hún er. En kannski var það frekar pointið með myndinni, að gefa manni innsýn í líf fólks á kreppuárunum í Bandaríkjunum og skilja síðan við það á miðri leið, frekar heldur en að gefa okkur einvherja glamúrsögu með fullkomnum endi. Myndin er einnig skrifuð eftir bók þannig að skuldinni á sögunni ætti ekki að skella á Malick einan. Allt í allt, raunsönn mynd með góðum leikurum og ágætis sögu, en vantar pínu upp á sem upplifun. 3,5/5


The Thin Red Line

Hér kemur mynd sem ég get með sanni sagt að ég hafi virkilega reynt að líka vel við. Hún kom út sama ár og hin frábæra Saving Private Ryan og var ákveðinn hópur fólks sem fylkti sér á bakvið þessa, sem þá betri af þeim tveim. Ég horfði á myndina í fyrsta skipti árið sem hún kom út en komst ekki nema inn í miðja mynd því mér fannst hún svo leiðinleg. Tókst síðan að horfa á hana í heild sinni fyrir 4 árum síðan og þrátt fyrir að hafa ekki beilað í það skiptið var hún engu skemmtilegri en í fyrra skiptið.

Myndin fjallar um nokkra hermenn í Bandaríska hernum í seinni heimsstyrjöldinni og segir frá bardögum í Kyrrahafinu. Aðalhlutverkið er í höndum Jim Caviezel en auk hans kemur fram í myndinni heill haugur af frægum leikurum í misstórum og misgóðum hlutverkum. Woody Harrelson, John Travolta, Nick Nolte, John Cusack, Adrien Brody, George Clooney, Thomas Jane, Jared Leto, Elias Koteas, Sean Penn, John C. Reilly og Nick Stahl fara allir með hlutverk, sum pínulítil, og er það eiginlega óleikur hjá myndinni að vera með þennan stjörnufans á sínum snærum. Þessi mynd fjallar mun meira um hörmungar stríðsins og hugarheim hermannanna og mér finnst oft einsog slíkum karakter stúdíum takist betur upp þegar óþekktir leikarar eru notaðir, eða að minnsta kosti í meirihluta. Síðan er aðalgalli myndarinnar hversu leiðinleg hún er. Það er allt í lagi að búa til stríðsmynd sem fjallar meira um hvað stríð er glatað heldur en hversu mikið af sprengingum geta orðið á hálftíma en myndin verður samt að vera að einhverju leiti skemmtileg eða áhugaverð. Platoon er þannig miklu betri mynd og skemmtilegri en We Were Soldiers eða Windtalkers en það er líka vegna þess að sálræn pína er brotin upp með hressleika og smá action. Sálræna pínan verður leiðinleg til lengdar. Auk þess eru stríðsatriðin ekki einu sinni spennandi. Þau skipa svo veigalítinn sess og dramatíkin er í þvílíku lágmarki að ekkert skiptir mann nokkru máli. T.d. var mér alveg sama þegar Woody Harrelson, sem leikur í tveimur atriðum í myndinni, sprengir af sér rassgatið með eigin handsprengju.

Þrátt fyrir að ég hafi kvartað hérna áðan yfir of mörgum stjörnum í hlutverkum í þessari mynd þýðir það samt ekki að hún sé illa leikin. Raunar er hún mjög vel leikin en það breytir því ekki að það er frekar skrítið að þekkja hvert einasta andlit hermannanna áður en þeir sjást í fyrsta skipti. Eins og Days of Heaven er þessi bæði skrifuð og leikstýrð af Malick og gerir hann það svosem ágætlega, þ.e. samtöl eru góð og texti yfirleitt frekar góður en eins og ég sagði þá mætti alveg splæsa smá skemmtilegu aksjón inn á milli. Myndatakan er samt mjög falleg og virðist það vera hans stærsti kostur sem leikstjóri að stjórna þeim þætti mjög vel, eða ráða til sín góða myndatökumenn. Á endanum er þessi mynd samt of leiðinleg til að ég geti ranverulega mælt með henni. Falleg en leiðinleg, 2/5

The New World

Þessa mynd hafði ég hlakkað mikið til að sjá en komst samt ekki á hana í bíó. Inn í tilhlökkunina spilaði mikið að Christian Bale leikur í henni en hann er án vafa uppáhalds leikarinn minn í dag ásamt Leo DiCaprio. Myndin fjallar um það sama og Pocahontas, evrópubúar mæta til Virginíu á tímum landvinninganna og setja upp nýlendu, hitta indjánana og chilla með þeim. Það er síðan ekki fyrr en evrópubúarnir lenda í kröppum dansi með vistir að þeir ákveða að senda leiðangur inn í land til að versla við indjánana. Þá lendir okkar maður John Smith(Colin Farrell) í því að verða fangi indjánanna og verður með tímanum ástfanginn af stelpu sem heitir Pocahontas(Q’Orianka Kilcher). Klassískt.

Þessi mynd er sjálfsagt sú besta af þessum þremur og er það aðallega vegna þess hversu góð ástarsagan milli Smith og Pocahontas er og hversu vel þau leika saman, Farrell og Kilcher. Farrell sýnir sérstaklega á sér nýjar hliðar og stendur sig virkilega vel í hlutverki hins veraldarþreytta sjómanns og hristir af sér það sliðruorð sem af honum hefur gengið. Reyndar hef ég alltaf haft gaman af honum, hann stóð sig vel í Minority Report og var alls ekki versta pælingin í Alexander. Síðan þegar Bale kemur inn seinna í myndinni stendur hann sig einnig vel eins og reyndar allir leikararnir í myndinni. Bale er náttúrulega frábær leikari og þarf því í rauninni ekki að fjölyrða neitt um hans snilligáfu, manninn sem gerði Batman aftur svalan eftir Schumacher ævintýrið ber að virða. Myndin hefur yfir mörgum góðum leikurum að ráða en það hefur þó ekki áhrif á upplifunina eins og í Thin Red Line. Bale og Farrel sjá um aðalhlutverkin en þeim til samlætis eru kempur eins og Christopher Plummer og David Thewlis og standa þeir sig vel líka. Myndin er að venju skrifuð af Malick og er þetta hans besta verk af þeim sem ég hef séð að öllu leiti. Sagan flæðir ágætlega og samtölin eru góð og eðlileg og myndatakan er stórkostleg í meira lagi. Fegurð landsins fær vel að njóta sín en þó ekki á kostnað upplifunar, eins og Baltasar Kormákur gerði sig sekan um í Mýrinni. Leikstjórnin sjálf er síðan ágæt, þótt Malick hafi reyndar í öllum myndum sínum gott lag á að ná því besta út úr leikurum. Sú besta af þessum þremur. 3,75/5

Malick er af mörgum talinn með bestu leikstjórum samtímans og það er ábyggilega hægt að færa rök fyrir því. En ef ég ætti að líta á skemmtanagildi myndanna verð ég að segja að hann er ekki beittasti hnífurinn í skúfunni. Hann á auðvelt með að láta myndir flæða og getur státað af glæsilegri myndatöku í öllum myndum sínum en það eitt og sér er stundum ekki nóg. Thin Red Line er vissulega sú slakasta af þessum myndum en það er áhyggjuefni fyrir leikstjóra þegar maður missir sjónar á sögunni og tapar sér bara í sálrænum leiðindum. Þrátt fyrir það eru hinar tvær mjög fínar myndir og standa alveg upp úr meðalmennskunni. Ég er því ekki sammála því að Malick sé einn besti leikstjóri samtímans, en ég get vel tekið undir það að hann kann að búa til góðar bíómyndir og virkilega fallegar senur. Ágætis leikstjóri. 3,5/5

No comments: