Friday, January 4, 2008

Hið eiginlega Jólaról

Ég lagði í þónokkrar bíómyndir í fríinu og ætla að skella inn umsögnum um nokkrar þeirra hérna í þessari og næstu færslu. Að þessu sinni eru það myndirnar "The Big Red One", "I Am Legend" og "Black Snake Moan" sem eru til umræðu. Endilega leggið orð í umræðuna ef þið hafið séð þessar og hafið einhverja skoðun.

The Big Red One
Þessi dansar dálítið á línunni milli gamaldags snilldar og úrelts steingervings. Leikurinn er skemmtilega retró og góður fyrir utan eitt atriði sem ég kem að hér á eftir. Sagan er síðan mjög skemmtileg og flott. Myndin fjallar sumsé um liðsforingja(Lee Marvin) í bandaríska hernum í seinni heimsstyrjöldinni, sem leiðir hóp hermanna í gegnum nokkrar af stærstu orrustum stríðsins, þeirra á meðal baráttuna um N-Afríku, Sýrakúsuinnrásina, landgönguna á Omaha strönd og aðeins í viðbót. Það er ekkert nema gott að segja um framsetningu sögunnar og handritið er virkilega gott. Vandamál myndarinnar er aftur á móti aðallega fólgið í sögumanni myndarinnar. Sá er leikinn af eina lélega leikara myndarinnar, Robert Carradine, en hann lék besta vin Anthony Edwards í Revenge of the Nerds myndunum. Hvernig nokkrum manni tókst að velja þennan aula í svo veigamikið hlutverk í mynd fæ ég ekki skilið. Þetta er enn ótrúlegra í ljósi þess að allir hinir leikararnir eru virkilega góðir og hæfa hlutverkum sínum vel. Þótti mér þá langskemmtilegast að sjá Mark Hamill í einu aðalhlutverkanna, í eina skiptið sem ég hef séð hann í alvöru bíómynd fyrir utan Star Wars(og Jay and Silent Bob Strike Back) og einstaka Batman teiknimynd. Hann stóð sig líka virkilega vel og ég get hreinlega ekki skilið af hverju þessi maður varð ekki stærri stjarna eftir þessa mynd og SW. Allavega. Svo ég nefni ástæðu fyrir staðhæfingunni hér í fyrstu línu umsagnarinnar þá á ég sérstaklega við atriðið þar sem hermennirnir ráðast inn í Normandy. Raunar kann að vera að þetta sé ósanngjörn gagnrýni, en þegar maður hefur séð byrjunaratriðið í Saving Private Ryan þá er þetta líkara trillu að leggjast að höfn á Súðavík, þ.e. ekkert sérstaklega spennandi. Þrátt fyrir það er þetta fínasta mynd, mæli með henni. 3/5


I Am Legend
Ég fór á þessa mynd með því hugarfari að ég myndi sjá feita skrímslamynd með Will Smith og jafnvel eitt eða tvö atriði af kappanum að worka bicepinn. Kommon, það er bara fokking töff þegar Will Smith byrjar að flexa. Myndin kom mér því virkilega á óvart með djúpri karakterstúdíu og frábærum, ef mér leyfist að segja, leiksigri frá Smith. Ég hef alltaf fílað Smith, allt frá því hann lagði rappið oní skúffu og lék í Men In Black. Reyndar hef ég líka hlustað ótal oft á bæði Big Willy Style og Willenium, en það er efni í allt aðra færslu og sjálfsagt á allt öðru bloggi.
Þessi mynd fjallar í stuttu máli um plágu sem ríður yfir heiminn. Eini maðurinn sem telur sig eiga nokkurn möguleika á að finna lækningu, Robert Neville, verður eftir í New York, Ground Zero, til að halda áfram rannsóknum sínum. Þannig fáum við að fylgjast með þessum merka manni þremur árum eftir að allir aðrir beiluðu á borginni og hefst hann þar við með því að veiða í matinn á daginn og verja sig fyrir árásum hinna sýktu á nóttunni. Myndinni er leikstýrt af miklu öryggi af Francis Lawrence, sem tekur hér þónokkrum framförum frá fyrstu
mynd sinni Constantine(þótt hún hafi verið frekar feit líka). Handritið er vel skrifað og þótt ég hafi ekki lesið bókina sem myndin er byggð á vil ég hrósa höfundinum fyrir að skapa jafn djúpa og raunverulega persónu og Neville er í raun og veru. Til að menn geti unnið leiksigur verða þeir að hafa úr almennilegu efni að moða og það hafði Will Smith svo sannarlega hér.
Ég ráðlegg öllum sem nokkurn áhuga gætu haft á þessari mynd að tékka á henni því hún er alveg jafn góð og maður býst við og meira að segja miklu betri en það. 4/5

Black Snake Moan
Tilfinningin að maður hafi séð allt sem einhver leikari hefur fram að færa hefur í för með sér ákveðin vonbrygði. Mér finnst t.d. Morgan Freeman vera frábær leikari og geggjaður í öllu sem hann gerir en ég sé aldrei neinn mun á leiknum hjá honum, nema ef vera skildi frábær suðurríkjahreimurinn og ellitaktarnir í Driving Miss Daisy. Þannig er þetta líka með Samuel L. Jackson, manninn sem bjó til gersamlega ódauðlega persónu í Pulp Fiction og hefur eftir það fallið æ ofan í æ í gamla góða Sam Jackson leikstílinn, þá sérstaklega um daginn í hinni frábæru Snakes On A Plane(þar sem hann lék í rauninni bara sjálfan sig). En alveg eins og það er leiðinlegt að búast við því sama æ ofan í æ þá er alltaf jafn skemmtilegt ef rútínan er brotin upp og leikarinn býður manni eitthvað nýtt. Þetta gerir Jackson svo sannarlega í þessari frábæru mynd Craig Brewer, sem gerði garðinn frægann um árið með Hustle & Flow(sem ég hef því miður ekki séð).
Ég vil helst fjalla sem minnst um söguþráð myndarinnar því ég veit að það hefði eyðilagt pínu fyrir myndinni ef ég hefði vitað hann fyrirfram. Þetta er drama með frábærum leikurum og mér fannst hún drullugóð. Ef það er nóg fyrir þig skaltu stökkva út á leigu í fyrradag og skella þessari í tækið. Christina Ricci og Justin Timberlake fara líka með stór hlutverk í henni og eru bæði frábær, þá sérstaklega Christina, þótt það komi svosem ekkert á óvart þar sem hún er alltaf frábær.
Þessi mynd er geggjuð, Checkit. 4/5

1 comment:

Siggi Palli said...

7 stig.

Og ég sé ekki alveg hvað er svona djúpt við persónu Will Smith. Hann er ýkt hetja, bæði hermaður og vísindamaður sem
- horfði upp á konu og barn deyja (ekki beint frumlegt)
- elskar hundinn sinn (m.a. vegna þess að hann minnir hann á fjölskylduna sem hann eitt sinn átti - snökt)
- fílar Bob Marley

Kannski yfirsást mér eitthvað alveg augljóst, en mér fannst þetta frekar klisjukennd persónusköpun.