Friday, February 8, 2008

The Hudsucker Proxy

Ef Coen bræður eru eitthvað, þá er það frumlegir. Frá Blood Simple til O, Brother Where Art Thou?, frá Fargo til Big Lebowski, þá virðast engin takmörk hamla frumleikanum í myndunum þeirra. Ferilskráin lýsir líka rosalegri fjölbreytni í hugmyndaflugi. Raising Arizona er hress gamanmynd um glataða white trash barnaræningja. Miller’s Crossing er gamaldags gangster mynd um mann sem lendir á milli í gengjastríði. Blood Simple er nútíma film noir. Þrátt fyrir að himinn og haf séu milli sögusviðanna í þessum mjög svo mismunandi myndum tekst þeim Joel og Ethan þó alltaf að halda sínum eigin persónulega stíl og geta af sér frábærar myndir á færibandi. Ég hef undanfarið staðið í áhorfi á gömlu myndunum þeirra áður en ég fer á No Country For Old Men, sem verður vonandi bráðlega. The Hudsucker Proxy er sú seinasta af þessum myndum og hún stendur sannarlega undir væntingum og bætir enn einni rósinni í hnappagatið hjá bræðrunum.
Myndin fjallar í stuttu máli um Norville Barnes, aula nýútskrifaðan úr viðskiptaháskóla með stórar hugmyndir fyrir framtíðina. Vegna þess að hann hefur enga reynslu lendir hann í starfi í póstherbergi stórfyrirtækisins Hudsucker Industries. Þar sem forstjóri fyrirtækisins er nýstokkinn út um glugga á 44. hæð... æ ég nenni ekki að fara nánar í þetta. Söguþráðurinn er virkilega skemmtilegur en hann er samt ekki ástæðan fyrir því að ég hreifst svo af myndinni. Stíll Cohen bræðra og handritið sjá fullkomlega um að grípa mann þéttingsfast og sleppa aldrei takinu í gegnum allar 111 mínútur myndarinnar. Þeir sem hafa horft á eitthvað af fyrri verkum bræðranna þekkja stílinn vel þótt hann gangi kannski aðeins lengra í farsanum hér en í hinum. Nokkur atriði eru sérstaklega minnisstæð hvað þetta varðar, þegar bláa bréfið fer í gegnum póstherbergið, montagið af Norville þegar hann tekur við, atriðin með Amy og Smitty á blaðaskrifstofunni. Samtölin í myndinni ganga svo hratt að maður nær næstum ekki að fylgjast með á köflum en það hefur samt ekki vond áhrif. Þvert á móti verður maður enn áhugasamari að hlusta á hvert einasta orð. Best af öllu er svo hversu ógeðslega fyndin þessi mynd er, burtséð frá gæðum samtalanna sem slíkra. Algjör snilld.
Þessi gæji er ekki sáttur
Þetta myndi að sjálfsögðu ekki ganga upp ef leikararnir væru ekki ógeðslega góðir og valdir að hlutverkum sínum. Hver einasti leikari fannst mér passa fullkomlega inn í myndina. Jennifer Jason Leigh fannst mér sérstaklega góð og kom mér þónokkuð á óvart. Hafði bara séð hana í Fast Times At Ridgemont High og The Machinist fyrir þetta og hún leit svosem ekkert út fyrir að vera sjúk þar. En það var hún svo sannarlega hér. Hún leikur þetta frekar over the top og það passar virkilega vel inn í myndina og inn í karakterinn. Þótt meistarar einsog Tim Robbins og Bruce Campbell séu að leika á móti henni heldur hún fullkomlega í við þá og skilar sínu frábærlega. Aðrir gamlir og góðir eru t.d. Paul Newman og John Mahoney(sem sumir kunna að kannast við sem pabba Frasier).
Eitt sem ég fíla sérstaklega við stíl bræðranna er að þeir skuli nota sömu leikarana oft og jafnvel í hverri einustu mynd. Þrátt fyrir að um lítil hlutverk sé að ræða gefur þetta myndunum ákveðið cult yfirbragð sem ég fíla ógeðslega vel. Steve Buscemi kemur fyrir í pínulitlu hlutverki hér sem eigandi hippabars og á líka pínulítið hlutverk í Barton Fink. John Goodman(Barton Fink, Big Lebowski, Raising Arizona, O, Brother Where Art Thou?) kemur fyrir í þessari sem sjónvarpsþulur og sést ekki einu sinni í mynd. Aðrir fastagestir eru fyrrnefndur Mahoney, Michael Lerner og John Turturro.
Stíllinn birtist síðan líka í hönnuninni á myndinni og skotunum. Skrifstofa Mussburger er gott dæmi um þetta, risastór og ílöng og ekkert inn í henni nema verðbréfariti og vatnskælir. Lúkkið á myndinni kemur því líka sterkt inn í gæðin og á frekar stóran þátt í skemmtuninni.
Allt í allt er þessi mynd geðveik. Fyndin, hress, hröð, skemmtileg, flott, vel leikin og troðfull af stíl og ekkert treður öðru um tær. Jafnvel besta mynd bræðranna, pre-Fargo. 4/5

Amy Archer: I used to think you were a swell guy. Well, to be honest, I thought you were an imbecile. But then I figured out you WERE a swell guy... A little slow, maybe, but a swell guy. Well, maybe you're not so slow, but you're not so swell either. And it looks like you're an imbecile after all!

2 comments:

Siggi Palli said...

Gaman að sjá að þér líkar hún. Þetta er hiklaust ein af mínum uppáhalds Coen myndum, og ég hef aldrei skilið af hverju hún floppaði á sínum tíma. Bara yndislega ýkt í alla staði.

Hvað Jennifer Jason Leigh varðar þá finnst mér hún alveg geysilega góð leikkona, og hún var meira að segja lengi meðal minna uppáhalds leikkvenna. Hún hefur samt ekki haft gæfu til að leika í mjög mörgum góðum myndum, en ef þig langar til þess að sjá hana í gír þá eru myndir frá svipuðu tímabili og Hudsucker besti kosturinn: Single White Female, Short Cuts, Rush og Kansas City.

Siggi Palli said...

7 stig.