Saturday, February 9, 2008

What’s the most you’ve ever lost on a coin toss?

Þegar óskarsverðlauna hátíðin nálgast má maður vera alveg viss um að bestu myndirnar koma út rétt áður. Í ár hefur Ísland verið sérstaklega aftarlega á merinni í þessum efnum, þ.e. þrjár af þeim fimm myndum sem tilnefndar eru til verðlaunanna voru ekki komnar hingað fyrir febrúarbyrjun. Þetta getur verið örlítið pirrandi, þar sem mann langar oft til að leyfa þessum bestu myndum að sitja í sér í nokkra daga og þá er ekki alveg nógu nett að fara á tvær svoleiðis sömu helgina ef til þess kemur. En burtséð frá þessu þá er líka mjög nett að geta farið nokkrum sinnum í röð í bíó og séð frábærar myndir í hvert sinn. Í gær fór ég á þá fyrstu í mínu óskarskapphlaupi, No Country For Old Men.
Ég vil byrja á að minnast á bíóferðina í gær sem slíka áður en ég dembi mér út í myndina. Það er ekkert betra en að fara í bíó þegar það er slagveður úti því þá nennir enginn í bíó. Þetta er því í fyrsta sinn sem ég hef farið í bíó á frumsýningarhelgi risastórrar myndar og ekki þurft að súpa hveljur yfir glötuðu úllunum, sem geta ekki haldið kjafti. Þetta var fyrsta snilld kvöldsins og jafnvel að maður skelli með mynd á sama snilldarkalíber og þessi upplifun. Önnur snilld kvöldsins kom svo í formi myndarinnar. Ég er búinn að velta henni fyrir mér núna síðan ég kom út úr salnum klukkan tíu í gærkvöldi og ég held hún muni sitja í mér í dálitla stund enn. Þessi mynd er hreint og klárt meistaraverk. Ég minntist á það í færslunni hérna á undan um Hudsucker Proxy að ég kynni rosalega vel að meta hollustu Coen bræðra við leikara í smáhlutverkum. Þannig var það sem kom mér mest á óvart við myndina að hér er engan að finna af gömlu góðu Coen leikurunum. Enginn Goodman, enginn Buscemi og enginn Turturro. Þetta var þó alls ekki til þess að gera myndina verri. Þvert á móti þá fannst mér það passa fullkomlega við alvarlegan tón myndarinnar að sleppa af sér gömlu kækjunum og gera mynd, sem tengist þeirra fyrri á eins lítinn hátt og mögulegt er.
Ég hef engan áhuga á að rekja sögu myndarinnar hérna og þið viljið heldur ekki heyra hana. Ef þið hafið einhvern minnsta áhuga á henni skuluð þið drulla ykkur út í bíó núna og koma síðan aftur og skella upp eigin gagnrýni. Ég ætla að reyna að halda söguspoilerum í lágamarki en ég mun minnast aðeins á persónurnar þannig að ef þið viljið alls ekki vita neitt um myndina áður en þið farið(sem ég mæli heilshugar með) þá þurfið þið að passa ykkur. Mig langar þó að segja að sagan er mjög góð. Það er ótrúlegt hvað bræðrunum tekst að taka einfalda sögu ofbeldishneigðar og græðgi og gera úr henni eitthvað miklu öflugra en maður hefur nokkru sinni fyrr séð. Ég er samt ekki viss um að allir aðdáendur fyrri Coen mynda muni kunna að meta þessa. Þetta er ekki grínmynd einsog Hudsucker og O, Brother og þetta er ekki fyndin spennumynd ala Fargo. Þetta er hægfara og mjög blóðug karaktermynd og geðveik sem slík.
Þetta er það svalasta sem ég hef séð
Einsog með allar vel skrifaðar karakterstúdíur eru það leikararnir sem eiga lokaorðið um hvort myndin virkar eða ekki. Óþarft er að segja að þessi virkar fullkomlega. Það hefur ekki farið framhjá neinum lofið í kringum frammistöðu Javier Bardem og ég get alveg fullvissað menn um að hæpið á fullkomlega rétt á sér. Hann er ógeðslega góður. Honum tekst að búa til einhvern óhugnanlegasta karakter allra tíma á mjög sannfærandi hátt, þ.e. það er aldrei þvingað, alltaf náttúrulegt og fullkomlega eðlilegt og svoleiðis tekst ekki nema allra bestu leikurum. En hann er alls ekki sá eini sem skilar frábærri frammistöðu hér. Josh Brolin skilar sínum manni virkilega vel frá sér og gerir gamlan og góðan karakter enn betri með góðri frammistöðu. Það var aftur á móti Tommy Lee Jones sem ownaði þessa mynd að mínu mati. Þetta er vafalaust það besta sem ég hef séð til hans og ég myndi giska á að þetta væri hans besta frammistaða hingað til. Hann leikur lífsþreytta lögreglustjórann Ed Tom frábærlega og býr til algjörlega klassískan karakter úr honum. Ed Tom er alveg að því kominn að setjast í helgan stein og hefur í raun ákveðið að hann skilji ekki glæpina lengur og langi ekki til að taka ákvörðunina um að taka þátt í þessum nýja og ofbeldisfulla heimi. Mig langar til að horfa á myndina strax aftur bara til að sjá atriðin með honum. Hann er reyndar tilnefndur til óskarsverðlauna í ár fyrir aðra mynd þannig að kannski er hann enn að bæta sig. Woody Harrelson kemur svo sterkur inn um miðbik myndarinnar og skilar hörku performans. Hvað sem öðru líður þá er þetta best leikna mynd sem ég hef séð í langan tíma.
Þótt Bardem fái allt fjölmiðlafárið á sig fyrir sína frammistöðu þá gefur betri mynd að líta á óskarstilnefningar myndarinnar. Klipping, handrit, leikstjórn, myndataka, hljóð, hljóðvinnsla og besta mynd. Það eru ekki nema örfáar myndir sem ná að éta svona upp tilnefningarnar og þessi er ein af þeim sem á það fyllilega skilið. Allt í þessari mynd er geggjað. Klippingin magnar upp spennuna þangað til að hún er nánast óbærileg. Hljóðið er magnað, maður finnur fyrir öllu sem er að gerast bara í gegnum hljóðið. Myndatakan er frábær, ekki of arty, ekki of straight-forward, heldur þessi fullkomni meðalvegur sem gerir venjulegar tökur kúl og arty tökur magnaðar. Myndin á að gerast 1980 og þótt maður taki kannski ekki eins vel eftir því við áhorfið, einfaldlega út af því hvernig maður lítur á suðurríkin og finnst einsog ekkert hafi breyst þar í 100 ár, þá passar allt lúkkið fullkomlega við staðfærsluna.

Anton Chigurh: You know what date is on this coin?
Gas Station Proprietor: No.
Anton Chigurh: 1958. It's been traveling twenty-two years to get here. And now it's here. And it's either heads or tails. And you have to say. Call it.

*Spoiler*
Mig langar aðeins til að ræða endann á myndinni, þ.e. drauminn hans Ed Tom. Einsog ég lít á hann þá er þarna gamall maður sem líður einsog hann sé búinn að sinna sínu starfi og uppfylla sín örlög í lífinu. Nú þegar hann er sestur í helgan stein hefur hann ekkert meira með þennan óskiljanlega heim ofbeldis að gera en í leiðinni hefur heimurinn ekkert meira að gera með hann. Heimurinn hefur einfaldlega skilið hann og hans kynslóð eftir og þá er í raun ekkert fyrir hann að gera nema bíða eftir dauðanum, alveg einsog Ellis, sem átti kettina.

Ed Tom Bell: [talking to Ellis] I always figured when I got older, God would sorta come inta my life somehow. And he didn't. I don't blame him. If I was him I would have the same opinion of me that he does.

Þetta quote virðist lýsa því að hann sé ekki sérstaklega sáttur með sjáflan sig og kenni sjálfum sér kannski um að hafa ekki haft hemil á heiminum, einsog pabbi hans og afi þegar þeir voru lögreglustjórar. Frábær karakter.
*Spoiler búinn*

Þegar á hólminn er komið stendur upp úr
myndinni hversu góðir karakterarnir eru og hversu ógeðslega töff hún er. Allt er svalara en andskotinn og eftirá er ekki hægt að hugsa um annað en hversu ógeðslega spenntur maður var að horfa á þessa snilld. Þessi mynd fjallar um ofbeldi á okkar tímum, af hverju menn framkvæma það, hvað þeir græða á því og hvort það séu einfaldlega þeirra örlög að drepa fólk. Þetta er frábær mynd og á heima á stalli með bestu myndum bræðranna. 5/5

The Dudes
Ég held það sé alveg við hæfi að leyfa þessu myndbandi að fylgja með, ekkert sérstakt myndband, en ég nenni ekki að gera svona sjálfur þannig að það verður að duga.

3 comments:

Björn Brynjúlfur said...

Góð færsla. Ég næ samt ekki alveg tengingunni við þig að taka Bensinn í bjórdrykkju?

Bóbó said...

Þessi mynd er bara svo mikil snilld, alveg á sama snilldarstalli og bíóferðin

Siggi Palli said...

9 stig.