Sunday, March 9, 2008

Dauðinn - leim eða kúl?

Ég ætla bara að byrja á að aðvara þá sem ekki hafa séð en langar samt að sjá Lost, Six Feet Under, Dexter, Battlestar Galactica og fleiri kúl þætti að ég mun líklegast spoila einhverju úr flestum þessum seríum í þessari færslu. Ég ætla samt að aðvara um spoilera þar sem þeir koma þannig að einhver geti nú lesið þessa færslu án þess að vera geðsjúklingur einsog ég þannig að þið skuluð líta á feitletraðar setningar sem baneitraðar. Þar mun ég samt gera grein fyrir á undan hvaða seríu ég er að spoila þannig að þótt ég nefni allt of mörg dæmi þar að þá er það bara til þess að allir geti fundið eitthvað sem þeir hafa séð og lesið smá af færslunni. Ég nenni samt ekki að segja til þegar ég spoila einhverju einsog BH90210 eða ER þannig að þið hafið það í huga. You have been warned.
Ég fór að pæla í því, eftir að ég horfði á þátt í fyrradag, hverjar pælingarnar geta verið á bakvið það hjá sjónvarpsþáttastjórnendum að drepa stóra karaktera. Hvort sem það er til að hækka áhorfendatölur(sbr. auglýsingaherferðin í aðdraganda þess að einhver auli dó í Beverly Hills 90210 eða þegar Mitch Buchanan átti að deyja í Baywatch), koma með orsök til að ýta sögu þáttanna eða persónusköpun áfram eða bara fyrir pure shock value, þá hefur það alltaf áhrif á mann þegar karakter sem maður hefur þekkt lengi og fundist skemmtilegur(eða glataður) drepst semi upp úr þurru. Við skulum kíkja aðeins á nokkur mismunandi dauðsföll skemmtilegra(og glataðra) karaktera og sjá hvernig þau höfðu áhrif á seríuna í heild sinni.
Fyrst langar mig til að nefna þáttinn í annarri seríu af Beverly Hills þegar Scott, einhver semi retard vinur David Silver, skýtur sig í andlitið í kúrekapartýi. Markaðsherferðin á undan hafði verið gersamlega fáránleg og ekki ósvipuð þeim skelfilegu pælingum sem hafa alltaf umlukið útgáfu Harry Potter bókanna þegar J.K. Rowling ákveður að segja að einhver muni deyja eða að Dumbledore sé hommi eða eitthvað viðlíka glatað. Auglýsingarnar fyrir seríuna byggðust allar á “One of the gang... WILL DIE!” pælingunni og þess vegna voru það alvarleg vonbrigði fyrir alla sem á horfðu þegar einhver hliðarkarakter sem allir hötuðu rúnkaðist til að skjóta sig í hausinn af slysni. Unglingsstelpurnar sem horfðu á þættina urðu fúlar yfir því að einhver mikilvægari hafði ekki dáið og allir aðrir hugsuðu „Hverjum er ekki DMS?“. Þetta myndband hérna fyrir neðan lýsir líka fullkomlega hversu ótrúlega DMS öllum hinum karakterunum var um dauða þessa aula.Sjáið hvernig David Silver er gersamlega á vonarvöl í nokkrar mínútur og kemur svo út úr DJ-herberginu og hlær að þessu öllu saman með vinum sínum.
Þessi dauðdagi er dæmi um aumt markaðstrix sem hafði engin áhrif á þættina til langs tíma litið, og ekki einu sinni skamms tíma. Djöfull eru þetta samt frábærir þættir. Þess má til gamans geta að Brian Austen Green(David Silver) var að koma með svona semi comeback um daginn í þáttunum Terminator: The Sarah Connor Chronicles og stendur sig bara merkilega vel miðað við aldur og fyrri störf. Við þennan hóp mætti síðan bæta South Park þættinum þegar Kenny deyr og kemur ekki aftur í heila seríu. Þetta var reyndar ekkert markaðstrix hjá Trey Parker og Matt Stone en þátturinn er algjör snilld þar sem það virkar svo rosalega absúrd á áhorfandann að strákarnir séu að syrgja Kenny þegar hann drepst hvort sem er í hverjum einasta þætti. Þannig var dauðsfall Kenny ekki lengur brandari heldur orðið háalvarlegt og þar af leiðandi ennþá fyndnara. Strákunum var síðan orðið alveg sama um dauða Kenny í lok þáttarins og minnast ekki á hann nema í einum þætti þangað til hann snýr aftur í jólaþætti 6. seríu einsog ekkert sé sjálfsagðara.
Næst koma svo dauðdagar persóna vegna þess að leikarinn ákveður að hætta að leika í þáttunum. Svoleiðis pælingar eru algengar í sápum einsog Beverly Hills eða Ally McBeal þar sem leikarar þurfa að fastna sig í starfi áratugum saman og þegar þeir nenna ekki meiru þarf annað hvort að drepa þá eða senda í burtu(Þegar Dax deyr í Deep Space Nine; Þegar Sam Seaborn fer í þingframboð í West Wing). Hvernig svona pælingar ganga upp í sögu þáttanna fer algjörlega eftir höfundunum því það er alveg hægt að gefa persónu viðeigandi endastöð í seríunni án þess að það sé sérstaklega cheesy eða asnalegt. Brotthvarf Shannen Doherty úr 90210 er dæmi um mjög cheesy brotthvarf. Brenda ákveður að fara til London til að læra að leika(einsog hún hafi ekki getað gert það í Bandaríkjunum) og lofar Dylan að hún muni snúa aftur. Þetta var í lok 4. seríu og þrátt fyrir að þátturinn hafi á endanum náð upp í 10 seríur þá drullaðist Brenda aldrei heim frá London. Þetta var að sögn vegna þess að Doherty var svo mikil tík að enginn nennti að vinna með henni.
Að lokum langar mig að minnast á þessi dauðsföll sem virkilega hafa eitthvað að gera með þættina sjálfa og stefnubreytingar í söguþræði. Hér koma þeir spoilerar sem einhverju skipta, so tread lightly. Hér minnist ég sérstaklega atviks í 5. seríu ER þegar Lucy Knight, sem hóf göngu sína í þáttunum í byrjun seríunnar, er myrt af sjúklingi í miðju jólaboðinu og Carter er stunginn í bakið líka. Þessi atburður hafði mikil áhrif, sérstaklega á 6. seríuna sem endaði á að vera frekar miðuð að Dr. Carter og hvernig hann höndlar atburðinn. Hann verður háður verkjalyfjum eftir sjúkraleguna, meira útaf samviskubiti yfir að hafa lifað af heldur en raunverulegum sársauka, og þarf á endanum að takast á við djöfla sína þegar sami sjúklingur kemur inn á sjúkrahúsið seinna og Carter veit ekki hvort hann getur, eða vill, hjálpa honum. Hann er svo á endanum lagður inn á meðferðarheimili í lok seríunnar. (DEADWOOD) Hér minnist ég helst þegar Wild Bill og Mr. Elsworth deyja. Dauði Wild Bill er auðvitað atburður sem heldur Charlie Utter og Jane í Deadwood til að byrja með og hefur þar með gríðarleg áhrif á seríuna í heild sinni. Dauði Mr. Elsworth var síðan bæði shock value og mikilvægur dauðdagi. Ég trúði nánast ekki eigin augum þegar hann dó og langaði mest til að fara að grenja sjálfur því hann var svo góður gæji og var nýbúinn að eiga gott spjall við hundinn sinn rétt áður. Þetta hafði svo áhrif á samskiptin milli Hearst og hinna karakteranna fram í lok seríunnar.
(JERICHO) Ég ætlaði ekki að trúa því í lok seinasta þáttar af Jericho þegar Bonnie var drepin og það kom líka einsog þruma úr heiðskýru lofti. Samt var það frábærlega gert og sat í mér lengi á eftir, alveg einsog endirinn á fyrstu seríunni þegar pabbi Jake deyr. Þarna eru á ferðinni meistara handritshöfundar sem kunna að fara með dauðsföll.
(DEXTER) Að lokum vil ég svo minnast á endann á fyrstu seríunni af Dexter þegar Rudy deyr enda er það eitt magnaðasta atriði sem ég hef séð í sjónvarpsþætti. Það hafði ekki bara áhrif á söguna sem slíka heldur breytti karakternum Dexter um ókomna tíð. Klikkað atriði, góður dauðdagi, frábær þáttur.
(SIX FEET UNDER) Öll dauðsföll í SFU koma inn í þennan flokk, fyrir utan auðvitað sum af dauðsföllunum í byrjun þátta. Nate, Lisa, Nathaniel og jafnvel Mr. Chenoweth að litlu leyti, öll skipta þau risavöxnu máli fyrir söguna í heild og líf persónanna allra.
Inn í svona mikilvæg dauðsföll koma síðan líka þegar karakterar deyja án þess að það í sjálfu sér skipti neinu rosalegu máli en það hefur samt áhrif á hvernig áhorfandinn lítur persónurnar. (LOST)Hérna kæmi inn atvikið í annarri seríu af Lost þegar Michael drepur Ana Lucia og Libby. Þetta hefur rosalega skammvinn áhrif á Jack og Hurley, sem tengdust þeim hvað mest, en áhorfendurnir líta Michael allt öðrum augum eftirá. Eina atriðið sem skipti einhverju máli í 2. seríu.
(BATTLESTAR GALACTICA) Annað svipað væri þegar refsingaráðið á Galactica drepur Jammer án þess að gera sér grein fyrir því hvernig hann hjálpaði fólki á New Caprica. Þá horfir maður allt öðrum augum á þetta fólk, sem sér allt annað hvort svart eða hvítt og getur ekki dæmt um hið gráa að nokkru leiti.
Þá er það komið, shock value, persónusköpun, söguorsök, markaðstrix, fyndið grín, dauðar karaktera í sjónvarpsþáttum geta komið af mörgum mismunandi ástæðum og ollið mörgum mismunandi viðbrögðum. Ég er aftur á móti býsna viss um að ef þú skrifar það ekki nógu vel þá er persónudauði ekkert annað en copout til að vekja umtal um þáttinn þinn. Allavega eru það bara bestu þættir sem tekst að gera svona nokkuð það vel að það stiji í manni eftirá.

3 comments:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 6 stig.

Ég get ekki sagt að ég muni í fljótu bragði eftir einhverjum dauðdaga í sjónvarpsþætti sem virkilega kom mér í uppnám. Ég var meira að segja búinn að gleyma dauðdaga Elsworth í Deadwood...

Varðandi dauðdagana í Lost, þá finnst mér dauðdagarnir þar oft vera til þess að búa til einhverja tálmynd um framgang sögunnar, þ.e. okkur finnst sagan fara áfram þegar einhver deyr, en hún gerir það svo sannarlega ekki í 2. seríu.

Maður veit eiginlega ekki af hverju maður horfir á Lost lengur. Fyrri helmingur af 1. seríu var góður, síðan þá hafa kannski komið 7-8 góðir þættir og svona 40 þættir sem virðast hafa það eitt að markmiði að tefja framgang sögunnar.
4. sería er litlu skárri. Þátturinn þar sem Desmond flakkar í tíma var kúl. Restin ekki.

Ingólfur said...

Ég er einmitt að fýla 4. seríu alveg frekar vel og lokin á 3. seríu líka. Þar gerist þó að minnsta kosti eitthvað kúl, einsog þátturinn um Desmond, annað en í 2. seríu þar sem gerðist bókstaflega ekki neitt. Sú sería er einmitt, án alls gríns, leiðinlegasta sjónvarp sem ég hef séð, þ.e. sem ég hef raunverulega horft á. Ég tel ekki með þessa stöku George Lopez þætti sem ég hef dottið inn í.

Siggi Palli said...

Endurskoðuð stigagjöf. 8 stig.