Sunday, March 30, 2008

Flugvélabíó

Ég skellti feitu DMS á stúdentinn í íslensku og fór í frí til Kína í páskafríinu. Fyrir utan það hvað Kínamúrinn er kúl og kínamatur er leiðigjarn kom það mér á óvart hvað Emirates Boeing 777 vélar eru með töff skemmtikerfi. Þannig er hægt að velja úr u.þ.b. 100 bíómyndum og leika sér með þær einsog í TV Boxi og þetta nýtti ég mér óspart í flugunum mínum frá London til Dubai og þaðan áfram til Beijing, bæði flugin verandi yfir 7 tíma löng.

Boiler Room
Þessi mynd var gefin út árið 2000, skrifað og leikstýrt af Ben Younger sem hans fyrsta mynd, og skartar meðal annarra þeim Giovanni Ribisi, Vin Diesel og Ron Rifkin – of Alias fame – í aðalhlutverkum. Myndin fjallar á skemmtilegan hátt um heim verðbréfamiðlara utan Wall Street. Ribisi leikur ungan gæja sem rekur spilavíti heima hjá sér og fær vinnu við að hringja í fólk á lista og reyna að húkka það í að kaupa hlutabréf sem það veit ekkert um. Hann vinnur sig upp innan fyrirtækisins en eftir því sem hann rís hærra kemst hann að ýmsu vafasömu um stjórnunarhætti yfirboðaranna. Inn í þetta tvinnast svo erfitt samband hans við föður sinn og svo auðvitað einhver svört gella til að gera allt PC. Það besta við þessa mynd fannst mér vera leikararnir og sögusviðið. Það virðist vera sem á tímabili hafi í hollywood verið að rísa nokkrir hæfileikaríkir aukaleikarar sem hurfu síðan einn og einn á tímabili. Einn þessara er hinn mikli meistari Scott Caan, sonur James Caan(Sonny úr Godfather), sem ég hef allavega ekkert tekið eftir undanfarin ár en átti hlutverk í fjölmörgum myndum sem ég sá á fyrstu árum 21. aldarinnar. Enemy of the State, Gone in 60 seconds(slæm) og American Outlaws(vond, vond, vond mynd) eru meðal þessara... eða eru þessar reyndar... fyndið hvað þessi maður situr í mér. Held það sé bara Enemy of the State, enda er hún fokking klikkuð. Þar átti einmitt ein af sínum fyrstu skrefum annar mikill meistari sem datt í stærri hlutverkapakka seinna, meistari Jack Black. Hann átti einmitt besta aukahlutverk allra tíma í Waterworld á sínum tíma. Læt spekúlanta um að finna hann þar en ég get með sanni sagt að hans innkoma í þá mynd hafi gert upplifunina við það áhorf mun betri en ella, enda sökkar myndin alveg frekar fokking mikið.
Vin Diesel veður uppi af miklum móð
Allavega, Boiler Room er alveg mjög skemmtileg mynd en það felst aðallega í því hvað mér finnst spákaupmennska með verðlaus hlutabréf fyndin pæling. Svo er líka gaman að horfa á þessa leiakra í sínum fyrstu stóru skrefum, Vin Diesel og Giovanni Ribisi eru náttúrulega með meiri meisturum og léku saman í Saving Private Ryan bara tveimur árum áður. 3/5

Before The Devil Knows You’re Dead
Þessi var í bíó hérna á Fróni fyrir ekki svo löngu síðan og virtist alveg ætla að fljúga útfrá leikaraliðinu og pósternum. Þessi mynd sökkaði aftur á móti alveg frekar mikið verð ég að segja. Hún byrjar á því að einhver gæji rænir litla skartgripabúð við opnun en lendir í því að gamla kellingin sem er að vinna þar skítur hann í spað og hann hana í leiðinni og þegar hann hrinur út um gluggann sér vitorðsmaður hans það og keyrir í burtu. Við fáum svo að vita með flashbökkum og flashforwördum hvernig þessi atburður passar inn í sögu ákveðinnar fjölskyldu. Philip Seymour Hoffman og Ethan Hawke leika sumsé bræður sem ákveða að ræna skartgripabúð foreldra sinna til að eignast smá pening sjálfir og þeir vita að búðin er tryggð þannig að mamma þeirra og pabbi tapa engu heldur. Þetta flækist að sjálfsögðu einsog byrjun myndarinnar gefur til kynna. Það sem plagar myndina aðallega er hversu leiðinleg sagan er. Mér var alveg frekar mikið DMS um alla karakterana og myndin byggist að öllu leyti á þeim. Philip Seymour Hoffman er frábær leikari en ég þoldi samt ekki karakterinn hans, hann var svo mikið freak eitthvað. Ethan Hawke var síðan bara fokking lúser og ég þoli svoleiðis gæja ekki hver sem leikur þá. Albert Finney var eiginlega eini karakterinn sem ég hafði einhverja samúð með og vildi að tækist það sem hann ætlaði sér. Myndin byggist eiginlega bara upp á atriðum og mér fannst þau ekki passa nægilega vel saman til að ég geti tekið nokkuð mark á heildarmyndinni. Allavega, svona á heildina litið er þetta vel leikin mynd um karaktera sem mér var alveg sama um að gera hluti sem manni ætti ekki að vera sama um. 2/5

The Darjeeling Limited
Þessi fannst mér hreinlega ekkert sérstaklega skemmtileg. Þetta er svona mynd sem ætti að vera frábær en var það bara ekki. Hún var samt alls ekki lost cause. Ég diggaði chemistryið á milli bræðranna, þá sérstaklega Adrien Brody og Owen Wilson. Sagan sem slík fannst mér samt ekkert sérstaklega áhugaverð. Það voru samt element sem ég var að digga í botn, einsog þegar bræðurnir bjarga indversku strákunum og fara svo í jarðarförina og inn í það tvinnast flashback til jarðarfarar pabba þeirra. Í heildina fannst mér samt einsog öll góðu elementin hefðu getað komið saman í betri heildarmynd. Já, satt best að segja kem ég ekki beint auga á hvað vantaði í þessa mynd. Hjartað var á réttum stað, karakterarnir voru skemmtilegir, leikararnir góðir... það var eiginlega bara þegar sagan fór að snúast um mömmu þeirra sem ég missti áhugann. Mér fannst það einfaldlega hvorki skemmtilegt né áleitið á nokkurn hátt. Ég hef eiginlega fátt annað að segja um myndina svona á þessum yfirborðskenndu nótum. Hún er frábærlega tekin og ég hafði mikið gaman af að fylgjast með skotunum og tónlistin fannst mér líka skemmtileg. Hún er fagmannlega og vel unnin á allan hátt og það er augljóst að Wes Anderson er góður leikstjóri. Ég hef ekki séð Royal Tenenbaums og það er víst dauðasynd samkvæmt því sem ég hef heyrt og ég hlakka til að sjá virkilega frábæra mynd frá Anderson þar sem hann fullkomnar sýn sína. Þessi mynd nær allavega bara að krafsa í yfirborðið á snilldinni sem hann virðist hafa að geyma. 2/5

Bourne Ultimatum

Halló halló halló. Í fyrstu útgáfu af þessari færslu steingleymdi ég að nefna þessa elsku hérna, sem var einmitt fyrsta myndin sem ég horfði á í þessum blessuðu flugum. Þessi sver sig í ætt við Supremacy og Identity og er bara andskoti góð, jafnvel sú besta af þeim öllum. Klippingin er rosalega hröð og flott og hljóðið er það sömuleiðis. Í raun er öll tæknivinnsla til stakrar fyrirmyndar og ekkert að slíku að finna. Ég verð þó að segja að eftir að hafa séð helvítis myndin get ég staðfest það sem ég sagði í færslunni minni hér fyrir nokkru að þessi átti ekki skilið að hirða óskarana af No Country For Old Men, hún kemst ekki einu sinni nálægt þeirri mynd í þessum þremur kategóríum, hljóði, hljóðvinnslu og klippingu. Þótt allt sé flott og vel gert í þessari að þá held ég að það hafi blindað akademíuna dálítið hvað allt gerist hratt og hversu mikil vinna hefur farið í að klippa alla þessa vitleysu saman á meðan að þessar subtle klippingar í NCFOM eru ekki jafn áberandi en þeim mun betri og gera þeim mun meira fyrir myndina í heild til að byggja upp spennu og dramatík. Ég er að vissu leyti sammála SP þegar hann sagði að þegar myndir nota svona hraðar klippingar allt í gegn að þá sé erfiðara að finna einhverjar aðferðir til að sýna hvernig climaxin eru meira spennandi en restin af myndinni. Þetta hefur þó ekki áhrif í Ultimatum því þar er öll myndin eitt spennuclimax þannig að það fór ekkert í taugarnar á mér.
Hraðinn á þessum klippingum er náttúrulega gersamlega út í hött
Þessi mynd er frábærlega leikin og er alveg hreint ofboðslega skemmtileg hvað varðar sögu og hasaratriði. Myndin tekur upp þráðinn þar sem við sögðum skilið við Jason Bourne í lok Supremacy og keyrir hasarinn í botn strax á fyrstu mínútunum. Hún heldur áfram samsærissögunni um þennan mikla meistara og hver hann er í raun og veru. Það sem gerir þessar myndir svo skemmtilegar, fyrir utan frábæra tæknivinnu og hasar, er hversu ógeðslega svalur Matt Damon er. Hann er bara kóngurinn, hvort sem hann er retard í Team America eða verkamaður í Good Will Hunting. Anyway, þessi mynd er meistaraverk á sinn flogaveikis inducing hátt og ég held ég skelli bara á hana 4/5

Ég horfði síðan líka á No Country For Old Men í annað skiptið og varð ástfanginn af henni upp á nýtt og horfði á ¾ af Juno upp á nýtt. Ég get sagt það að eftir að hafa lesið gagnrýnina á hana eftir að ég sá hana fyrst fer það virkilega í taugarnar á mér meðan ég horfði á hana í annað skiptið að það sé engin tónlist í henni sem tengist áhugamálum Juno á nokkurn hátt. Sérstaklega fer setningin “Nothing compares to the raw power of the Stooges” rosalega í mig því ég hef aldrei heyrt í fokking Stooges og myndin er ekekrt að hjálpa mér að skilja hvað sé svona frábært við þá. Þetta eyðilegggur eiginlega semi myndina sérstaklega með seinni áhorf í huga og ég held ég muni aldrei hafa áhuga á að sjá þessa mynd aftur, hvað þá tala sérstaklega fallega um hana héðan í frá. Þetta er alveg rosalega pirrandi galli á myndinni.
Fyrir utan þessar myndir sem ég horfði á í heild sinni datt ég inn í nokkrar myndir og sá yfir öxlina á öðru fólki hvað það var að horfa á. Ég get því sagt til um það með mikilli vissu að Alvin and the Chipmunks suckar mjög líklega, The List(með svarta gæjanum úr Drew Carey Show) sökkar alveg frekar mikið og Enchanted er algjört drasl. Annars datt ég líka inn í fyrsta þáttinn í fyrstu seríu af Rome og hann var alveg jafn geðveikur og þegar ég sá hann fyrst. Geggjaðir þættir, tékkið á þeim.
Ég get þó að minnsta kosti mælt með entertainment systeminu í Boeing 777, það er alveg klikkað. Skemmtarinn í Airbus vélunum hjá Emirates er aftur á móti mun frumstæðari og í raun hundleiðinlegur ef maður hefur prufað hitt. Þetta ownar þó allt saman steinaldarvélar Icelandair sem eru vægast sagt hundleiðinlegur fararskjóti. Go Arabar!

1 comment:

Siggi Palli said...

Gríðarmikil færsla. Hjartanlega sammála með Darjeeling Limited.

Iggy Pop & the Stooges eru massífir. Ég held þú hljótir samt að hafa heyrt a.m.k. eitt lag með þeim, því ég held ég fari rétt með það að Iggy Pop hafi gert "Lust for Life" (sem var í Trainspotting) með The Stooges.

10 stig.