Tuesday, February 5, 2008

El Espinazo del diablo

Þrátt fyrir kosningasvindl Bjarka Ómarssonar horfðum við á Devil's Backbone, sem er greinilega hans uppáhalds mynd. Ég get ekki sagt að ég sé einhver sérfræðingur um Guillermo del Toro, hef bara séð Laberinto del Fauno og Hellboy, en get ekki sagt annað en að myndir mannsins séu alveg minn tebolli. (Núna er ég orðinn nett pirraður því þetta er í þriðja skipti sem ég skrifa restina af þessari færslu útaf tæknilegri vangefni Andra Gunnars. Hver stígur á fjöltengi? Allavega) Ég fíla horror, þ.e. ég fíla bíómyndir með hryllingsívafi og góðar hryllingsmyndir. Þannig missi ég ekki vatnið yfir bregðuorgíum einsog þessari en fíla þeim mun meira þegar draugasögum er splæst inn í gamla góða mynd um Spænsku borgarastyrjöldina. Og þess vegna fíla ég þessa mynd.
Spænska borgarastyrjöldin virðist vera Guillermo mjög hugleikin þar sem bæði þessi og Laberinto del Fauno fjalla um svona fantasíur í miðri styrjöldinni og í báðum tilfellum eru aðalpersónurnar börn. Það er einmitt eitt af því sem mér finnst hvað magnaðast við þessar tvær myndir del Toro, hversu vel honum fellur að leikstýra börnum. Báðar myndirnar skarta barnungum leikurum í aðalhlutverkum og tekst honum að ná fram góðri persónusköpun og raunverulegum tilfinningum frá jafn óreyndu fólki og þér og mér, reyndar 10 sinnum hæfileikameira en samt. Karakterar strákanna í þessari mynd eru virkilega góðir og ekki þessi gamli góði pirrandi krakkakarakter sem virðist lifa allt of góðu lífi í Hollywood. Myndin er reyndar vel leikin á alla kanta að mínu mati, en strákarnir fannst mér magnaðastir.
Góður leikari? Það held ég nú

Sjónræn hlið myndarinnar fannst mér líka rosalega kúl. Bæði draugarnir og almennt yfirlit myndarinnar fannst mér takast fantavel, sérstaklega brellurnar í lokin þegar strákarnir ná fram hefndum. Mjög töff. Þetta sama drungalega andrúmsloft liggur yfir Laberinto þótt það sé reyndar ennþá myrkari mynd en þessi.
Handritið og plottið sem slíkt er svo auðvitað aðalástæða þess hversu mikið ég fíla myndina. Sérstakelga fíla ég hvernig nafnið á myndinni skiptir litlu máli þegar maður horfir beint á strigann(Bjössi) en hylur með sér merkingu ef maður rýnir aðeins dýpra. Devil's backbone, börnin sem ekki áttu að lifa, sbr. strákana munaðarlausu. Byrjunin á myndinni er líka rosalega töff, þegar við sjáum hvað kemur fyrir Santi áður en við vitum hvernig það passar inn í myndina. Þegar maður sér það í fyrsta skipti virkar það bara sem "mood-setter" en eftirá virkilega töff leið til að láta mann hugsa um aðalplottið áður en við fáum að vita það. Fyrstu setningarnar sem eru svo endurteknar í lokin eru mjög töff líka. Sprengjan, "an emotion suspended in time", átti í rauninni að springa en dauðinn vofði yfir strákunum allan tímann. Bensínsprengjuatriðið hafði líka þeim mun meiri áhrif þegar maður hafði kynnst strákunum svona vel og vissi hvað þeir höfðu þurft að ganga í gegnum. Góðir leikarar => miklar tilfinningar => góð mynd.
Ég er mjög sáttur með að hafa horft á þessa mynd núna, þrátt fyrir kosningasvikin, vegna þess að í vikunni var því lýst yfir að Guillermo muni leikstýra Hobbitanum og annarri LOTR mynd sem á að gerast í aðdraganda Fellowship(Vafasamt? Pæling). Það er því löngu kominn tími á að maður detti í smá skoðun á kallinum og þessi mynd gefur virkilega góða raun. Spurning hvort Cronos sé í sama klassa.
Mjög góð klassamynd. Ekki meistaraverkið, sem Laberinto er en virkilega góð samt sem áður. 3,5/5

Bara rétt í lokin að fara yfir ferilinn:
Blade 2: 2/5 Hellboy: 3,5/5 Laberinto del Fauno: 4,5/5

4 comments:

Jón said...

hvað er í gangi með þessa færlsu?

Bóbó said...

hún er öll að koma til...

Jón said...

djöfull er Prom Night trailerinn slappur maður... annars sammála frá a-ö.

Siggi Palli said...

6 stig.