Tuesday, November 27, 2007

American Gangster

Það er rosalega gaman stundum að fara í bíó á mynd sem maður hlakkar virkilega mikið til að sjá. Aftur á móti getur það skemmt fyrir ef myndin stenst ekki væntingar. Þannig er líka virkilega skemmtilegt að fara í bíó á mynd sem maður býst við litlu sem engu af en labba út virkilega sáttur. Ég lenti í vægu tilfelli af fyrrnefndu upplifuninni um daginn þegar ég fór á þá víðfrægu mynd American Gangster.
American Gangster fjallar um dópkónginn Frank Lucas frá Harlem, sem tekur við glæpaveldi af gömlum vini sínum, „Bumpy“, en þarf að finna nýjar leiðir til að boosta áhrif sín og veldi. Hann ákveður að fara að ráðum kapítalismans og kaupa beint frá framleiðanda í stað þess að nota milliliði og skellir sér í ferð til víetnam árið 1969 í þeim tilgangi að koma sér upp viðskiptum við sigraðan, víetnamskan hershöfðingja.
Á sama tíma er lögreglumaðurinn Richie Roberts í lögfræðinámi í New Jersey samhliða lögreglustörfum. Richie gengur hreinu og beinu braut réttlætisins, þiggur ekki mútur og vinnur sitt starf sem best hann getur.
Þessi mynd er byggð á sönnum atburðum og því finnst mér ennþá skemmtilegra að horfa á hana, sérstaklega hluta Franks, vegan þess að raunverulegir ævintýramenn sem þessir virka miklu betur á mig en upplognir. Ég bjóst við miklu af myndinni enda gerð af Ridley Scott og með ekki ómerkari menn en Russel Crowe og Denzel Washington í aðalhlutverkum. Ég hef nokkur smávægileg umkvörtunarefni en ekki svo stórvægileg að þau dragi myndina neitt niður í meðalmennsku, hún er mjög góð en mér finnst hún hefði getað verið ennþá betri. Eins og er er myndin frekar löng, heilar 157 mínútur. Mér fannst saga Frank Lucas það miklu skemmtilegri en saga lögreglumannsins Richie að það hefði mátt skipta myndinni upp á aðeins ójafnari hátt. Það var hreinlega ekki neitt það skemmtilegt að fylgjast með Richie í réttarsal að biðla til konunnar sinnar um sameiginlegt forræði, það einfaldlega skipti litlu máli fyrir persónuna og skildi ekkert eftir sig. Frank aftur á móti er algjör snillingur og á skilinn allan þann tíma sem hann fær á skjánum og meira til. Ferðin til Víetnam, allur tíminn í Harlem, paranoian, þetta er allt algjör snilld oghefði mátt dominera myndina aðeins meira. Þannig finnst mér að það hefði mátt stytta myndina aðeins með því að klippa burt þetta "custody trial" dæmi, það gerði allavega ekkert fyrir mig. Auk þessa hef ég sama umkvörtunarefni og Jón varðandi ástralann Crowe. Common, hvar er hreimurinn? Ef Leo DiCaprio og Daniel Day Lewis geta þetta af hverju ekki óskarsverðlaunadýrið Russel Crowe? Hérna er klippa úr myndinni, algjört snilldaratriði, Denzel með meistaratakta.
Þrátt fyrir þetta er margt sem Scott gerir rétt í myndinni, miklu meira en það sem gert er aðeins vitlaust. Hasaratriðin eru frábær og virkilega spennandi, saga Lucas er vel sögð og tilfinningaþrungin og allt er frábærlega leikið. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að taka eftir því hvernig mikilvæg plot points og hlutir voru kynntir til sögunnar. Ég nefni sem dæmi píanóið, sem er kynnt með heilli senu fyrir sjálft sig og notað á mjög effektívan hátt seinna í myndinni. Hitt er svo auðvitað fataráðgjöfin, sem er algjör snilld.
Allt í allt var þetta frábær mynd, 4/5, en hefði að mínu mati getað dottið í 4,5/5 með aðeins meiri áherslu á Lucas. Engu að síður ein af bestu myndum ársins 2007.

Sunday, November 25, 2007

Litið um öxl

Fyrri önnin liðin er. Ég ákvað svona í tilefni af seinustu skyldufærslunni að líta aðeins yfir haustið og pæla smá í því hvað ég hef grætt á þessu námskeiði. Þessi blessaði kvikmyndalæsislisti gaf mér skýr markmið um að horfa á bíómyndir og vegna þess að 6. bekkur er svo miklu skemmtilegri en bekkirnir á undan hef ég slæpst enn meir en áður og tapað mér í ólöglega niðurhöluðu sjónvarpsefni sem aldrei fyrr. Mig langar fyrst að kommenta pínu á listann og detta svo í aðrar pælingar á eftir.
Þegar við fengum þennan lista yfir 102 kvikmyndir, sem nauðsynlegt væri að hafa séð ef maður ætlaði sér að lesa eitthvað um gerð eða sögu kvikmynda, var að sjálfsögðu mitt fyrsta verk að tékka hversu margar ég hefði séð. Mér til mikillar armæðu reyndust þær aðeins vera 25, sem verða að teljast vonbrygði eftir að hafa horft yfir mig á bíómyndir alla mína hunds og kattar tíð. Það lá því beint við að drullast til að horfa á eitthvað af þessu enda margar áhugaverðar myndir að finna á þessu blaði. Ég byrjaði nú bloggið ansi kröftuglega í september og var það m.a. vegna þess hversu rækilega ég hellti mér yfir þessar myndir. Crying Game, Easy Rider, Apocalypse Now og Blade Runner eru til að mynda allt myndir sem mig hefur lengi langað að sjá en hef bara aldrei drullast til að skella í μtorrent. Þessar myndir voru þó ekki allar sú snilld sem ég bjóst við. Do The Right Thing(Spike Lee) reyndist minna “gangsta” en ég hafði vonast til og Blue Velvet(David Lynch) datt í gömlu Lynch sýruna þrátt fyrir að vera mest straight-forward af öllum þeim myndum sem ég hef séð eftir hann. 2001: A Space Odyssey var skemmtilegri en ég hélt en samt rosa langdregin og 8 ½ ... skulum ekki einu sinni minnast á hana. En þrátt fyrir þessi afföll hefur það verið mjög skemmtilegt að horfa á fleiri af þessum “must-see” myndum, sem alltaf er talað um, og það er alltaf gaman að útvíkka kvikmyndafræðilegan sjóndeildarhring sinn. Þannig er talningin núna komin upp í 43 af 102, hækkun um heil 17,6%, og mun líklega batna enn frekar í jólafríinu. Sumar af þeim myndum sem ég á enn eftir en hlakka mikið til að hrynja í eru Modern Times(Charlie Chaplin), The Maltese Falcon(John Huston), The Treasure of the Sierra Madre(John Huston), og The Night of the Hunter(Charles Laughton).
Þetta námskeið og veturinn í heild sinni hefur breitt því hvernig ég horfi á bíómyndir að miklu leiti en þó ekki öllu. Ég get enn farið í bíó og tjillað yfir poppkorns blockbuster án þess að byrja strax að gagnrýna óstöðuga myndavél eða galla í hljóðrás. Það er samt gaman öðru hvoru að hrynja í harða gagnrýnandann, sérstaklega þegar maður horfir á mynd í annað sinn, t.d. einhvern gamlan vin(t.d. Shawshank Redemption) og sjá hvernig ný sýn gefur manni nýja upplifun af myndinni.
Svo ég detti nú inn á sjónvarpsþættina svona rétt í lokin, þó það sé fullkomlega óþarft þar sem ég hef kaffært eigin síðu í tveimur svívirðilega löngum færslum um sjónvarpsþætti nú þegar, þá hef ég misst mig þar meira en áður. Auk þess að detta í gömlu vinina(Dexter, Battlestar, Heroes, Prison Break, South Park) hef ég einnig kíkt á nýtt stöff og því til sannmælis er ég með fyrstu seríuna af West Wing í torrentinum akkúrat núna og bý mig undir skemmtilegt jólafrí(eða lærdómslausa næstu viku). Þættir einsog nýjustu Family Guy hafa komið sterkir inn í flóruna auk Californication, þótt þeir séu reyndar í hættu vegna svívirðilegrar lögsóknar Red Hot Chili Peppers á hendur þeim. Þannig heldur hringrás góðs sjónvarpsefnis áfram, Battlestar mun klárast með næstu seríu, Six Feet Under, Sopranos og West Wing hættir fyrir nokkru, og í staðinn koma Heroes, Californication og Brotherhood.
Allt í allt hefur þetta klárlega verið skemmtilegasta námskeið míns lærdómsferils og ég get ekki annað en hlakkað til næstu annar. Hver veit nema ég skelli einhverju feitu inn í jólafríinu ef mér leiðist heiftarlega í aðgerðarleysinu. Samt ekki...
"Two Thumbs Up!"

Saturday, November 24, 2007

Vertigo

Það er orðið frekar langt síðan ég horfði á “The Birth of a Nation” en í sama vídjó sessioni horfði ég á myndina “Vertigo”, eftir Alfred Hitchcock. Þessari mynd hefur verið lýst sem miklu meistaraverki í gegnum tíðina og þegar valið stóð á milli hennar og “North by Northwest” ákváðum við Ari að skella okkur bara í djúpu laugina. Myndin fjallar um Scottie, einkaspæjara í San Francisco, sem verður fyrir því óláni að sjá mann falla fram af húsþaki og situr uppi með heiftarlega lofthræðslu. Hann er fenginn af gömlum kunningja til að rannsaka ferðir eiginkonu hans, sem virðist andsetin af gamalli sál, og bjarga henni frá þeim örlögum að fremja sjálfsmorð eins og manneskjan sem andsitur hana. Hlutirnir taka að flækjast eftir því sem líða tekur á myndina og Scottie þarf að sitja á sér að falla ekki fyrir konunni sjálfur. Næsta efnisgrein inniheldur alvarlega plot spoilera þannig að þið sem viljið horfa á myndina seinna skuluð hoppa yfir.

Endirinn á þessari mynd er alveg ofboðslega skrítinn við fyrstu sýn. Þau standa þarna tvö og langar augljóslega bæði til að komast niður úr klukkuturninum en síðan hrynur Judy niður þegar einhver nunna læðist út úr myrkrinu. Ég er á því að þessi sena hafi verið ógeðslega flott og það var virkilega creepy að sjá nunnuna labba þarna einsog út úr engu. Aftur á móti skildi ég engan veginn hvað Judy var að gera að detta aftur fyrir sig á svona stund. Gat hún ekki haldið sér standandi og komið sér aðeins frá brúninni? Ég tékkaði á netinu eftir á hvað menn segðu um endann og þar komu menn með þá pælingu að nunnan hefði staðið fyrir allt sem Judy hræddist og þess vegna hafi henni orðið svona bylt við. Ég skil samt ekki alveg hvernig það breytir skilningi manns á endanum til hins betra. Hins vegar er annað áhugaverðara sem ég fór að pæla í frá sjónarhorni Scottie. Hann langaði svo mikið að koma í veg fyrir dauða hennar að hann endurtók sömu mistök og áður og þar með lenti Judy í hættu, sem dróg hana til dauða. Þannig finnst mér endirinn virka betur þegar litið er á hann út frá sálarlífi Scottie heldur en ástæðum þess að Judy dettur aftur fyrir sig.

Myndin er vissulega góð en þegar hún kláraðist þurfti ég að tékka á Ara hvort þetta hefði örugglega verið rétt mynd því hún sat ekki beint eftir sem meistaraverk af hálfu Hitchcock. Þegar ég var búinn að pæla í henni í nokkra daga fór hún síðan að snúast aðeins við í hausnum á mér og núna finnst mér hún bara mjög góð. Þegar ég lít á hana útfrá öðru sem ég hef séð eftir Hitchcock, einsog Psycho eða Birds, finnst mér hún ekki standa neitt ofar en þær, frekar neðar ef eitthvað er. Þannig mætti kannski segja að hún hafi gengið aðeins verr í mig vegna þess að ég bjóst við of miklu, en það hefur sjálfsagt alveg jafn mikið að gera með það hversu góð Psycho er og að þessari sé hampað sem meistaraverki.

Svo ég nefni nú aðeins leikarana þá standa þeir sig allir prýðisvel en þá sérstaklega Jimmy Stewart. Þessi maður er bara meistari, engin önnur leið til að lýsa honum. Mr. Smith Goes To Washington”, “The Man Who Shot Liberty Valance” og þessi sýna svo ekki verður um villst að hann er frábær og fjölhæfur leikari og ég hlakka mikið til að horfa á aðrar þekktar myndir með honum, t.d. “It’s A Wonderful Life” og “Anatomy of a Murder”. Kim Novak, sem leikur Madeleine Elster, er líka mjög góð þótt maður kannist ekki jafn vel við nafnið og mörg önnur sem komið hafa að gerð Hitchcock mynda.
Hvað myndatöku og annað tæknilegt varðar er myndin mjög lík öðrum myndum Hitchcock og er allt vel úr garði gert í þeim efnum og ekkert sem kemur manni sérstaklega á óvart. Hitchcock er góður í að velja flott skot sem draga mann samt ekki út úr myndinni og tekst að búa til mjög heildstæðan pakka hvað það varðar.
Á endanum er þetta mjög góð mynd en mér finnst hún samt ekki jafn frábær og bestu myndir Hitchcocks. 3,5/5

Monday, November 12, 2007

Topp Tíu Sjónvarpsþættir - seinni hluti

West Wing

Þessir eru svona pínu acquired taste. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að langflestir horfa á West Wing og hugsa að þeir gætu alveg eins verið að horfa á fréttirnar og nenni ekki að pæla í þessari stjórnmálavitleysu. Fyrir þannig lið bætir heldur ekki úr skák að þættirnir eru ekkert að slaka á því að vera sniðugir þannig að manni líður oft eins og allir karakterarnir séu milljón sinnum sniðugri en maður sjálfur. En þetta eru líka allt ástæður fyrir því að ég elska þessa þætti. Sérstaklega eru fyrstu seríurnar fyndnar, sniðugar og gefa manni skemmtilega innsýn í bandarískt stjórnmálalíf og hefur þessum þáttum oft verið lýst með „það sem hefði gerst ef demókrati hefði unnið forsetakosningarnar 2000“. Þannig hafa þættirnir þótt standa sig vel í að lýsa hvernig demókratar hefðu tekið á þeim vandamálum sem risið hafa upp í valdatíð George W. Bush Jr. Þættirnir luku göngu sinni með 7. seríu í fyrra þar sem Jed Bartlett(Martin Sheen) lauk setu sinni á forsetastóli og fjallaði serían um kosningabaráttu forsetaefnanna tveggja, leiknum af Jimmy Smits og Alan Alda. Leikaraliðið í þessum þáttum stóð sig virkilega vel og má þar sérstaklega nefna Rob Lowe, Richard Schiff, Bradley Witford, John Spencer, Allison Janney og áðurnefndan Sheen. Skipt var um rithöfundalið eftir fyrstu seríurnar og má greina mun á fílinginum í þáttunum eftir skiptin en þó er um að ræða virkilega skemmtilega þætti allt í gegn. Eina serían sem ég horfði á í heild var 7. serían og er hún ein og sér alveg nógu góð til að komast á þennan lista. Margar skemmtilegar pælingar eru í gangi í henni og má þar sérstaklega nefna einn þátt sem settur er upp eins og kappræður og var tekinn upp sem slíkar, þ.e. Jimmy Smits og Alan Alda undirbjuggu sig og fóru síðan út í sal í kappræður sín á milli og verður að segjast að þeir stóðu sig báðir helvíti vel. Ein frumlegasta og skemmtilegasta pæling sem ég hef séð í þessum þáttum. Virkilega gott stöff.

Dexter

Ég fjallaði stuttlega um þennan í færslu um daginn og ég nenni eiginlega ekki að tvítaka mig þannig að hér er bara linkur á hana: Hin grein!

Battlestar Galactica

Þegar ég var pínulítill horfði ég alltaf með bræðrum mínum á Star Trek, fyrst um sinn á Deep Space 9 og seinna á Voyager. Ég hef líka alla tíð verið mikill Star Wars gæji og því hefur Sci Fi með tímanum skipað sér í sæti sem ein af mínum uppáhalds stefnum í bíómyndum og bókum. Þegar ég byrjaði að horfa á Battlestar Galactica bjóst ég alveg eins við að sjá eitthvað áþekkt Babylon 5 en svo reyndist sannarlega ekki vera. Hér er ekkert glans eða glingur eins og í Star Trek, hérna erum við með lógískt framhald af áldósunum sem við köllum geimskip í dag. Allt er skítugt, gritty og umfram allt töff.
Þættirnir hefjast á því að okkur er sagt að mennirnir, búsettir á nokkrum plánetum sem eru kallaðar “The Colonies”, bjuggu til vélmenni til að létta sér verkin og kölluðu þau Cylons. Þegar þau urðu þreytt á að þjóna mönnunum gerðu þau uppreisn og byggðu sér nýtt heimili eftir stutt stríð við mennina. Fyrsti þátturinn fjallar síðan um það þegar vélmennin snúa aftur og gersamlega owna mennina, rústa f
lotanum og plánetunum öllum og ekkert er eftir nema pínulítill flóttamannafloti með eitt stríðsskip í broddi fylkingar, Battlestar Galactica. Þættirnir fjalla síðan um flótta mannanna frá vélmennunum og eitthvað miklu stærra líka eins og góðir Sci Fi þættir gera svo vel.
Þættirnir eru frábærlega leiknir, eitthvað sem maður á ekki
að venjast í Sci Fi og er það kærkomin tilbreyting frá beinstífum leiktöktum Star Trek: Voyager. Fyrstan skal minnast á Edward James Olmos, sem leikur Admiral Adama yfirmann flotans. Þessi maður er með rispuðustu viskírödd sem ég hef nokkru sinni heyrt og er ekki annað hægt en að falla á kné fyrir svona últrasvölum gæja. Aðrir sem standa sig vel eru Jamie Bamber, Katee Sackhoff og Mary McDonnell en allir leikararnir falla vel að hlutverkum sínum svo nánast ómögulegt er að kvarta yfir nokkru á þeim bænum.
Það besta við þessa þætti eru samt tæknibrellurnar. Þrátt fyrir að vera enginn Gollum þá eru brellurnar svo miklu, miklu betri en í öðrum Sci Fi þáttum að það er eiginlega bara fyndið. Þrátt fyrir að seinni seríur hafi augljóslega fengið meira fjármagn en sú fyrsta þá er ekki mikið að taka eftir sem gerir þættina eitthvað asnalega.
Eina sem gæti pirrað er að sum geimskipaskot eru endurnýtt í fyrstu seríunni en það er ekkert sem drepur mann og verður allavega aldrei jafn glatað og í Babylon 5. Manni líður alltaf vel þegar maður horfir á geimbardaga og allt er frekar epískt og kúl.
Sagan er síðan punkturinn yfir i-ið. Hún er ótrúlega skemmtileg og viðamikil og henni er ýtt áfram af virkilega góðum handritshöfundum sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þetta eru kallar sem þekkja gott Sci Fi. Allt í allt eru þetta frábærir þættir. Snilldar Sci Fi, góð saga og vel leikið í þokkabót.

Into The West

Ég var í ákveðinni þurrð á sjónvarps- efni þegar ég datt í þessa mini-seríu. Þetta var í sumar og eins og menn taka eftir verða góðir þættir mjög af skornum skammti á þeim árstíma. Það mætti líka alveg færa rök fyrir því að ég hefði átt að eyða meiri tíma úti við heldur en að húka inni og horfa á sjónvarpið, en hverjum er ekki DMS um svoleiðis komment? Ég hafði heyrt margt gott um þessa þætti og þar sem þetta er mini-sería framleidd af Steven Spielberg um yfirtöku hvíta mannsins á hinu villta vestri hafði ég mikinn áhuga á að tékka á þessu. Spielberg framleiddi einmitt líka Band of Brothers og allt benti því til frábærrar seríu. Að segja að ég hafi ekki orðið fyrir vonbrygðum myndi ekki lýsa upplifuninni fyllilega með nokkru móti. Þessir þættir hreinlega ownuðu mig. Það er engin betri leið til að lýsa því.
Þættirnir fjalla um tvær ættir, eina ætt hvítra landflutningamanna að nafni Wheeler og aðra ætt Indíána, á tímum landkönnunar vestursins í Bandaríkjunum frá 1825 til aldamótanna 1900. Serían er 6 þættir og er hver þáttur 1 og hálfur klukkutími að lengd þannig að það er farið yfir mikið efni. Hver þáttur er því nánast bíómynd út af fyrir sig og segja þeir flestir ágætlega sjálfbæra sögu þó það sé að sjálfsögðu nauðsyn að horfa á þetta allt. Eins og allt sjónvarpsefnið á þessum lista eru þættirnir frábærlega leiknir. Fyrsti þátturinn fjallar um Jacob Wheeler, leikinn af Matthew Settle og stendur hann sig hreint frábærlega. Jacob ákveður að halda af stað í ævintýr eftir áralöng leiðindi við v
agnhjólagerð með föður sínum og bræðrum. Hann heldur af stað í vesturátt og tekur þátt í leiðangri alla leið til Californiu. Inn í hans sögu tvinnast margir mismunandi karakterar, hver betur leikinn en sá síðasti. Gary Busey, Skeet Ulrich, Will Patton og Josh Brolin eru nokkur af þeim nöfnum sem nefna má úr fyrsta þættinum einum saman. Auk þeirra sjást seinna menn á borð við Lance Henriksen, Beau Bridges, Tom Berenger og Sean Astin.
Sögunni er skipt frekar jafnt milli ættanna tveggja og tvinnast sögur þeirra saman á víð og dreif. Indíánarnir eru allir feiknavel leiknir eins og aðrir í þáttunum og má þar sérstaklega nefna Michael Spears, sem leikur höfðingjasoninn Dog Star.

Þættirnir eru vel skrifaðir, allir karakterar djúpir og vel skilgreindir án þess að verið sé að fara í forsögu þeirra eða eitthvað slíkt. Sagan er skemmtileg, fróðleg og umfram allt virkilega góð. Það hefur ekki komið fyrir mig áður nema í Six Feet Under að ég finni svona til með karakterum. Svo virðist sem til sé fagfólk í Hollywood sem sér bara um sjónvarp og verður ekkert frægt. Leikstjórar og handritshöfundar sem gera allt fagmannlega og vel en eru samt engar stjörnur, bara lið sem er gott í vinnunni sinni. Þannig þekki ég engan leikstjóra eða höfund hér en allt er virkilega vel úr garði gert og að sjálfsögðu vilja framleiðendurnir ekki vera að eyða fullt af pening í svona metnaðarfullar seríur án þess að gera það almennilega.
Eitt sem ég vil sérstaklega minnast á í viðbót er tónlistin í þessum þáttum en hún er ógeðslega góð. Það gerist örsjaldan með þætti eða bíómyndir að allir þættir framleiðslunnar koma saman og verða að einhverju meira en bara summu allra partanna. Það er það sem gerist hér þegar tónlistin fer á flug. Þættirnir verða að einhverju meira en bara frábæru sjónvarpsefni og festa sig í sessi sem ótrúleg upplifun. Geoff Zanelli gerði allavega fokking vel í tónlistinni hérna.
Þessir þættir eru frábærir. Ég hefði getað skrifað ennþá lengur um alla leikarana sem koma fram(Keith Carradine, Rachael Leigh Cook, Wes Studi) en það myndi taka miklu meira en nokkur hundruð orð. Frábær söguheimild, skemmtilegt sjónvarpsefni. Ég get ekki beðið um meira.

Saturday, November 10, 2007

Terrence Malick

Nú um daginn skellti ég mér í að horfa á nokkrar af myndunum á 102 mynda listanum sem við fengum í upphafi árs. Ein af þeim var Days of Heaven eftir Terrence Malick og í framhaldinu horfði ég einnig á The New World eftir hann, sem mig hafði reyndar lengi langað að sjá. Þetta verður því smá færsla um þær myndir sem ég hef séð eftir Malick og pælingar á eftir.


Days of Heaven

Days of Heaven fjallar um par, Bill(Richard Gere) og Abby(Brooke Adams), sem lifa á flakki um Bandaríkin með lítilli stelpu sem heitir Linda. Þau þykjast vera systkini af einhverjum ástæðum. Þegar þeim gefst tækifæri á að vinna eina árstíð á bómullarakri taka þau þeirri vinnu fagnandi. Það endar aftur á móti með því að eigandi plantekrunnar(Sam Shepard) verður ástfanginn af Abby og býður þeim öllum að búa á býlinu lengur eftir að uppskeran er búin. Þetta flækist síðan allt eins og hlutir eiga það til að flækjast í bíómyndum.

Myndin er bæði skrifuð og henni leikstýrt af Malick. Þótt það sé erfitt að koma auga á hvað það sé þá er eitthvað skrítið við hana, bæði söguframvindu og karakterpælingar. Augljósar ástæður liggja fyrir því að Bill og Abby vilji halda út eins lengi og mögulegt er á býlinu til að þurfa ekki að lifa lengur á vergangi en þrátt fyrir það eru frekar súrar pælingar í gangi með hversu langt þau eru tilbúin að ganga í lygum sínum. Allt point myndarinnar tapast síðan á leiðinni til mín og ég á frekar erfitt með að skilja endinn. Myndin er alls ekki léleg, hún er mjög flott tekin og ágætlega skrifuð og leikin, en það situr ennþá í mér hversu endasleppt hún er. En kannski var það frekar pointið með myndinni, að gefa manni innsýn í líf fólks á kreppuárunum í Bandaríkjunum og skilja síðan við það á miðri leið, frekar heldur en að gefa okkur einvherja glamúrsögu með fullkomnum endi. Myndin er einnig skrifuð eftir bók þannig að skuldinni á sögunni ætti ekki að skella á Malick einan. Allt í allt, raunsönn mynd með góðum leikurum og ágætis sögu, en vantar pínu upp á sem upplifun. 3,5/5


The Thin Red Line

Hér kemur mynd sem ég get með sanni sagt að ég hafi virkilega reynt að líka vel við. Hún kom út sama ár og hin frábæra Saving Private Ryan og var ákveðinn hópur fólks sem fylkti sér á bakvið þessa, sem þá betri af þeim tveim. Ég horfði á myndina í fyrsta skipti árið sem hún kom út en komst ekki nema inn í miðja mynd því mér fannst hún svo leiðinleg. Tókst síðan að horfa á hana í heild sinni fyrir 4 árum síðan og þrátt fyrir að hafa ekki beilað í það skiptið var hún engu skemmtilegri en í fyrra skiptið.

Myndin fjallar um nokkra hermenn í Bandaríska hernum í seinni heimsstyrjöldinni og segir frá bardögum í Kyrrahafinu. Aðalhlutverkið er í höndum Jim Caviezel en auk hans kemur fram í myndinni heill haugur af frægum leikurum í misstórum og misgóðum hlutverkum. Woody Harrelson, John Travolta, Nick Nolte, John Cusack, Adrien Brody, George Clooney, Thomas Jane, Jared Leto, Elias Koteas, Sean Penn, John C. Reilly og Nick Stahl fara allir með hlutverk, sum pínulítil, og er það eiginlega óleikur hjá myndinni að vera með þennan stjörnufans á sínum snærum. Þessi mynd fjallar mun meira um hörmungar stríðsins og hugarheim hermannanna og mér finnst oft einsog slíkum karakter stúdíum takist betur upp þegar óþekktir leikarar eru notaðir, eða að minnsta kosti í meirihluta. Síðan er aðalgalli myndarinnar hversu leiðinleg hún er. Það er allt í lagi að búa til stríðsmynd sem fjallar meira um hvað stríð er glatað heldur en hversu mikið af sprengingum geta orðið á hálftíma en myndin verður samt að vera að einhverju leiti skemmtileg eða áhugaverð. Platoon er þannig miklu betri mynd og skemmtilegri en We Were Soldiers eða Windtalkers en það er líka vegna þess að sálræn pína er brotin upp með hressleika og smá action. Sálræna pínan verður leiðinleg til lengdar. Auk þess eru stríðsatriðin ekki einu sinni spennandi. Þau skipa svo veigalítinn sess og dramatíkin er í þvílíku lágmarki að ekkert skiptir mann nokkru máli. T.d. var mér alveg sama þegar Woody Harrelson, sem leikur í tveimur atriðum í myndinni, sprengir af sér rassgatið með eigin handsprengju.

Þrátt fyrir að ég hafi kvartað hérna áðan yfir of mörgum stjörnum í hlutverkum í þessari mynd þýðir það samt ekki að hún sé illa leikin. Raunar er hún mjög vel leikin en það breytir því ekki að það er frekar skrítið að þekkja hvert einasta andlit hermannanna áður en þeir sjást í fyrsta skipti. Eins og Days of Heaven er þessi bæði skrifuð og leikstýrð af Malick og gerir hann það svosem ágætlega, þ.e. samtöl eru góð og texti yfirleitt frekar góður en eins og ég sagði þá mætti alveg splæsa smá skemmtilegu aksjón inn á milli. Myndatakan er samt mjög falleg og virðist það vera hans stærsti kostur sem leikstjóri að stjórna þeim þætti mjög vel, eða ráða til sín góða myndatökumenn. Á endanum er þessi mynd samt of leiðinleg til að ég geti ranverulega mælt með henni. Falleg en leiðinleg, 2/5

The New World

Þessa mynd hafði ég hlakkað mikið til að sjá en komst samt ekki á hana í bíó. Inn í tilhlökkunina spilaði mikið að Christian Bale leikur í henni en hann er án vafa uppáhalds leikarinn minn í dag ásamt Leo DiCaprio. Myndin fjallar um það sama og Pocahontas, evrópubúar mæta til Virginíu á tímum landvinninganna og setja upp nýlendu, hitta indjánana og chilla með þeim. Það er síðan ekki fyrr en evrópubúarnir lenda í kröppum dansi með vistir að þeir ákveða að senda leiðangur inn í land til að versla við indjánana. Þá lendir okkar maður John Smith(Colin Farrell) í því að verða fangi indjánanna og verður með tímanum ástfanginn af stelpu sem heitir Pocahontas(Q’Orianka Kilcher). Klassískt.

Þessi mynd er sjálfsagt sú besta af þessum þremur og er það aðallega vegna þess hversu góð ástarsagan milli Smith og Pocahontas er og hversu vel þau leika saman, Farrell og Kilcher. Farrell sýnir sérstaklega á sér nýjar hliðar og stendur sig virkilega vel í hlutverki hins veraldarþreytta sjómanns og hristir af sér það sliðruorð sem af honum hefur gengið. Reyndar hef ég alltaf haft gaman af honum, hann stóð sig vel í Minority Report og var alls ekki versta pælingin í Alexander. Síðan þegar Bale kemur inn seinna í myndinni stendur hann sig einnig vel eins og reyndar allir leikararnir í myndinni. Bale er náttúrulega frábær leikari og þarf því í rauninni ekki að fjölyrða neitt um hans snilligáfu, manninn sem gerði Batman aftur svalan eftir Schumacher ævintýrið ber að virða. Myndin hefur yfir mörgum góðum leikurum að ráða en það hefur þó ekki áhrif á upplifunina eins og í Thin Red Line. Bale og Farrel sjá um aðalhlutverkin en þeim til samlætis eru kempur eins og Christopher Plummer og David Thewlis og standa þeir sig vel líka. Myndin er að venju skrifuð af Malick og er þetta hans besta verk af þeim sem ég hef séð að öllu leiti. Sagan flæðir ágætlega og samtölin eru góð og eðlileg og myndatakan er stórkostleg í meira lagi. Fegurð landsins fær vel að njóta sín en þó ekki á kostnað upplifunar, eins og Baltasar Kormákur gerði sig sekan um í Mýrinni. Leikstjórnin sjálf er síðan ágæt, þótt Malick hafi reyndar í öllum myndum sínum gott lag á að ná því besta út úr leikurum. Sú besta af þessum þremur. 3,75/5

Malick er af mörgum talinn með bestu leikstjórum samtímans og það er ábyggilega hægt að færa rök fyrir því. En ef ég ætti að líta á skemmtanagildi myndanna verð ég að segja að hann er ekki beittasti hnífurinn í skúfunni. Hann á auðvelt með að láta myndir flæða og getur státað af glæsilegri myndatöku í öllum myndum sínum en það eitt og sér er stundum ekki nóg. Thin Red Line er vissulega sú slakasta af þessum myndum en það er áhyggjuefni fyrir leikstjóra þegar maður missir sjónar á sögunni og tapar sér bara í sálrænum leiðindum. Þrátt fyrir það eru hinar tvær mjög fínar myndir og standa alveg upp úr meðalmennskunni. Ég er því ekki sammála því að Malick sé einn besti leikstjóri samtímans, en ég get vel tekið undir það að hann kann að búa til góðar bíómyndir og virkilega fallegar senur. Ágætis leikstjóri. 3,5/5

Wednesday, November 7, 2007

Topp Tíu Sjónvarpsþættir

Mig langaði nú bara í tilefni af þessum glænýja topp tíu lista hér til hliðar að viðra ástæðurnar fyrir niðurröðun sjónvarpssería á honum eins og gert var fyrir bíómyndirnar um daginn. Endilega kommentið á þetta val og segjið ykkar skoðun á listanum, ef þið hafið einhverja. Hér koma fyrstu fimm á listanum í engri sérstakri röð, en Pushing Daisies fékk allrækilega umfjöllun um daginn og er sú færsla hér aðeins neðar. Enjoy.

Six Feet Under

Þið sem hafið séð Dexter vitið hversu viðbjóðslega vel Dexter sjálfur er leikinn af Michael C. Hall. Það var einmitt út af því sem ég fór að grennslast fyrir um hann á imdb.com og fann þá þessa seríu. Allir á síðunni sögðu að þetta væri stök snilld og þar sem þessir þættir gengu frá 2001-2005 var allt komið út á DVD þegar ég byrjaði að downloada. Heppinn ég. Þessir þættir fjalla um fjölskyldu í L.A. sem rekur útfararstofu. Þegar faðir heimilisins deyr ákveða synir hans tveir, Nate(Peter Krause), sem flúði burt að heiman eins fljótt og hann gat, og David(Michael C. Hall), sem fór sjálfur í útfararstjóraskóla til að þóknast pabba sínum, að halda áfram með bissnessinn saman. Þættirnir fjalla svo í rauninni um þessa karaktera, bræðurna tvo og mömmu þeirra(Frances Conroy), systur þeirra Claire(Lauren Ambrose) og bissnessfélaga þeirra bræðra, Ricardo Diaz(Freddy Rodriguez).
Þættirnir eru ekki einungis frábæ
rlega skrifaðir, með skemmtilegum söguþráðum og alveg hreint ótrúlega góðum samtölum, heldur eru þeir einnig frábærlega leiknir og vel gerðir á allan hátt. Karakterarnir eru svo ótrúlega trúverðugir að ef maður kemst nógu djúpt inn í þessa þætti þá hreinlega getur maður ekki hætt og leikurunum tekst öllum að gera þessum karakterum alveg hreint frábærlega góð skil.
Eins og ég hef minnst á áður í þessu bloggi mínu, í einum af fyrstu færslunum raunar, var það Alan Ball, handritshöfundur American Beauty, sem fékk hugmyndina að þáttunum og skrifaði helminginn af þeim sjálfur. Hann virðist hafa einhverja ótrúlega snilligáfu til að gera líf venjulegs fólks áhugavert og spennandi án þess að gera vandamálin nokkurn tíma cheesy eða asnaleg. Manni líður aldrei eins og það sé verið að troða inn “plot devices” til að láta eitthvað ótrúlegt gerast. Allar pælingarnar eru raunverulegar og sannfærandi.
Þegar Ball fannst eins og þættirnir hefðu komið því til skila sem hann vildi ákvað hann að klára bara dæmið eftir fimmtu seríu og endar því sagan þar. Það er ágætt fyrir fólk að vita hversu mikið það þarf að horfa á auk þes
s sem þættirnir voru virkilega góðir á meðan þeir gengu og voru ekki dregnir út til að græða pening eins og sumar sápurnar í sjónvarpinu(ER er gott dæmi). Ég vil síðan geta þess án þess að eyðileggja fyrir neinum að endirinn á þessari seríu er sjálfsagt sá mest “satisfying” sem ég hef séð og það er vel þess virði að spreða smá tíma í þessa þætti þótt ekki væri fyrir annað en lokaþáttinn. Þessi þáttasería inniheldur nokkra af bestu þáttum sem ég hef nokkurn tíma séð og er þá mikið sagt. Frábærlega leiknir, frábærlega gerðir og frábærlega skrifaðir. Einfaldlega snilld á allan hátt. Besta sjónvarpsefni allra tíma. Punktur.

South Park
“Four boys. One f**ked up town.”

Að öllu öðru sjónvarpsefni ólöstuðu, þá er South Park þeirra Trey Parker og Matt Stone án nokkurs vafa gáfaðasta sjónvarpsefni í heimi. Þeir tveir eru hreinir snillingar í að taka deilumál í þjóðfélaginu og gera úr þeim brandara sem hitta beint í mark. Og þegar ég segji beint í mark meina ég beint í fokking mark. Síðustu ellefu ár hafa þessir meistarar tekið á öllu frá útkomu PSP leikjatölvunnar til tuskudýra ætlaðra til kynfræðslu í skólum. Það sem gerir South Park að svo fullkominni satíru á nútíma bandarískt samfélag er hversu stuttan tíma tekur fyrir Trey og Matt að gera þættina en þeir þurfa einungis nokkra daga til að gera hvern þátt eftir að þeir tóku að nýta tölvur við þáttagerðina. Ekkert er þessum mönnum óviðkomandi og alls ekkert heilagt, sem sést hvað best á bröndurunum þeirra um Steve Irwin eftir að hann dó. Ekki einungis gerðu þeir grín að honum í hrekkjavökuþætti 10. seríu heldur bombuðu þeir út tveimur miklu harðari bröndurum í næsta þætti eftir að fjölskylda Irwins kvartaði yfir þeim. Það besta við þættina er að þrátt fyrir að vera nú að ljúka við 11. seríu sína hafa þeir aldrei verið ferskari og skemmtilegri. Þróun þáttanna frá fyrstu seríu seinustu 11 ár hefur haldið þeim ferskum allan þennan tíma og að 9. seríu undanskilinni eru allar seríurnar virði einkunnarinnar 5/5. 9. serían missti pínu dampinn en eftir að hafa horft á hana sjálfir hafa þeir greinilega fattað hvað var að og lagað allt sem illa fór. Síðan má að sjálfsögðu mæla sérstaklega með South Park bíómyndinni sem kom út árið 1999 en þar fer besta grínmynd allra tíma og má segja að hún eigi heima meðal bestu South Park þáttanna. Meistarasnilld að öllu leiti. Four boys. One f**ked up town.” Svo sannarlega orð að sönnu.

Sérstaklega skal minnast á nokkra þætti:

Rainforest Schmainforest - 301

Scott Tenorman Must Die - 501

Cartmanland - 506

Christian Rock Hard - 709

Woodland Critter Christmas - 814

Og auðvitað margir, margir fleiri...

Deadwood

Þessir þættir eru mér frekar ofarlega í huga þegar ég fer á svona hugsanarölt þar sem ég hef alltaf verið mikið fyrir vestra og hugfanginn af fílingnum og mannlífinu í villta vestrinu. Þegar ég byrjaði á þessum þáttum átti ég von á einhverjum Sergio Leone eða John Wayne pælingum, töff bardögum og eilífðarspöðum að vaða uppi. Annað kemur þó á daginn því þessi þáttaröð snýst að miklu leyti um líf og daglegt amstur fólks í nýbyggðum smábæ í útnára Bandaríkjanna. Á tímum útþenslunnar í Bandaríkjunum, þegar menn sóttu hvað harðast í vesturátt til að tryggja sér landskika á hinum ókönnuðu sléttum, tóku sumir sig til og stofnuðu bæjarfélög, úr lögum við Bandaríkin sem slík, og er Deadwood eitt slíkt. Við fylgjumst með Seth Bullock(Timothy Olyphant) og Sol Star(John Hawkes) sem mæta í bæjinn með það að markmiði að hefja nýtt líf sem sölumenn áhalda til gullgraftar eftir strembin ár sem laganna verðir. Það heppnast þó ekki betur en svo að Seth endar á að skipa sjálfan sig lögreglustjóra þessa lagalausa bæjarfélags og endar þar með í vandræðasúpu sem hvergi sér fyrir endann á.
Þættirnir hafa verið hlaðnir lofi í gegnum tíðina, bæði af gagnrýnendum og aðdáendum, og ekki að ástæðulausu. Leikurinn er mjög
góður, þá sérstaklega hjá Olyphant og Ian McShane sem leikur kráareiganda og illmenni, auk þess að vera einn stofnenda bæjarins. Karakterarnir eru í meira lagi áhugaverðir og andrúmsloftið er áþreifanlegt. Ekkert var til sparað við gerð þáttanna og því hefur allt frá leikmynd til skrifta verið gert sem best úr garði. Þótt þættirnir hafi verið cancelaðir eftir 3. seríu er alveg óhætt að láta sig detta í þá því endirinn á henni þjónar ágætlega sem endir á söguna alla.

Band Of Brothers

Þegar þessir þættir voru sýndir á Stöð 2 á sínum tíma var ég hardcore DoD(Day of Defeat) spilari og þar af leiðandi gersamlega forfallinn aðdáandi seinni heimsstyrjaldarinnar. Þótt ég hafi ekki verið með áskrift að Stöð 2 horfði ég bara á þættina ruglaða og fékk þá síðan lánaða á spólu hjá frænda mínum áður en ég komst loks yfir þá á DVD fyrir rest. Þessir þættir eru vægast sagt snilld. Sagan af Easy company úr 101. fallhlífahersveit bandaríska hersins er ein sú allra magnaðasta sem sést hefur á litla skjánum. Allt frá æfingabúðum við Currahee á Bretlandseyjum til Normandy héraðs ,aðfaranótt 6. júní 1944, til nákaldra Ardenne skóganna við bæinn Bastogne fylgjumst við með þessum hermönnum í gegnum súrt og sætt, sorg og gleði og allt þar á milli. Að segja að leikurinn sé frábær væri vanmat af hæstu gráðu. Damian Lewis, Donnie Wahlberg, Ron Livingstone, Matthew Settle og margir fleiri sýna sitt allra besta og gott betur. Leikmynd, myndataka, brellur, handrit, hasar, drama og að sjálfsögðu mennirnir sem skipuðu herfylkið gefa ekkert eftir og á endanum verður til þáttaröð sem á engan sinn líka. Ákvörðunin að láta mennina sjálfa, sem komust af, hefja hvern þátt á endurminningum sínum gefur þættinum áður óþekkta dramatíska vigt og tengir mann þeim mun meira við þessa karaktera og baráttu þeirra fyrir lífi sínu. Band of Brothers er gersamlega ómissandi fyrir hvern áhugamann um seinni heimsstyrjöldina og hreinlega fyrir hvern aðdáanda góðs sjónvarpsefnis.

Rome

Þessir þættir gripu strax athyglina, enda hef ég löngum verið hálfgerður sögurúnkari og æst mig sérstaklega yfir svona fornaldar epík. Ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrygðum. Þótt epíkin hvað varðar bardaga sé kannski ekki jafn mikil og í myndum á borð við Gladiator er það aðallega hið viðbjóðslega líferni Rómverja og baktjaldamakkið í pólitíkinni sem heillar. Bardögunum er reyndar líka fyrir að fara en það er aðallega í seinni seríunni, þar sem augljóst er að þátturinn fékk aukið fjármagn til framleiðslunnar þá. Þættirnir eru frábærlega leiknir og má þá sérstaklega nefna Ray Stevenson og Kevin McKidd, í aðalhlutverkum Titus Pullo og Lucius Vorenus, tveggja hermanna í her Júlíusar Sesars í Gallíu. Menn þekkja kannski McKidd úr hlutverki hans sem Tommy hinn alnæmissjúki í Trainspotting og Stevenson hefur farið um víðan völl í bresku sjónvarpi og mun næst sjást í framhaldi Punisher myndarinnar.
Það er auðvitað ekki hægt að búast við öðru en snilld frá HBO og BBC í samstarfi, en þessar tvær sjónvarpsstöðvar eru án alls vafa þær öflugustu í gerð frábærra sjónvarpsþátta undanfarna áratugi. Þættirnir eru allir þeir glæsilegustu út frá öllum sjónrænum viðmiðum, búningar frábærir og myndataka mjög töff, en það er auðvitað mismunandi eftir þáttum. Allt í allt, algjör snilld.

Sunday, November 4, 2007

Texas Chainsaw Massacre(1974)


Undanfarin ár hefur hrollvekjunni verið sökkt á bólakaf í hafsjó lélegrar kvikmyndagerðar með endalausum endurgerðum af misgóðum hryllingsmyndum liðinna áratuga og flóðs af unglinga "bregðutryllum". Það er því ákveðna hugarró að finna í þeirri staðreynd að eitt sinn gerðu menn góðar hryllingsmyndir og, öðru hvoru, gerðu þeir frábæra bíómynd í leiðinni. Tobe Hooper tókst þetta með hinni ótrúlega ódýru "Texas Chainsaw Massacre" sem tekin var upp í sumarfríi á áttunda áratugnum og notast við hóp óreyndra leikara til að halda kostnaði í lágmarki. Þannig var íslenskum háskólanemanda í Bandaríkjunum, Gunnari Hansen, boðið hlutverk keðjusagarmorðingjans, eins alræmdasta viðbjóðs kvikmyndasögunnar.

Það hafa flestir lent í því að sjá hryllingsmynd sem raunverulega hræddi úr þeim líftóruna, eða þeir héldu það allavega. Þetta hélt ég um Event Horizon en í raun gæti þeirri upplifun verið líkt við þátt af Bubbi Byggir í samanburði við TCM. Upplifunin að horfa á þessa mynd breytti mér. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst Tobe Hooper að búa til mynd úr nánast engum fjármunum sem er ekki einungis betri mynd en allt fokdýra ruslið frá Hollywood þessa dagana heldur væri hreinlega ómögulegt að búa til eins hráa og ótruflaða kvikmyndalega sýn með þeirri dobíu af peningum sem ausið er í slíkar myndir nú til dags.

Myndin fjallar, eins og svo margar aðrar hryllingsmyndir, um hóp krakka á road-trippi um suðurríki bandaríkjanna sem beygja inn að gömlum sveitabæ og lenda í tómu rugli. Þrátt fyrir lítið budget tekst þessari mynd að líta rosalega vel út. Hún er vissulega mjög hrá og það sést vel. Til dæmis um hið rosalega lága budget þá er atriði í myndinni þar sem stelpa er skorin á fingurgómnum og það var gert í alvörunni vegna þess að gerviblóðið á hnífnum virkaði ekki. Það eru á endanum kvikmyndatakan, tónlistin og hljóðið sem gera þessa mynd svona rosalega pro og góða. Hljóðin í myndinni smjúga inn í merg og bein og samspil þess við tónlsit og mynd eru með því besta sem ég hef séð. Myndefnið er svo að sjálfsögðu frábært líka og eru allar sviðsetningar rosalega flottar og þrungnar því frábæra og rosalega andrúmslofti sem umlykur myndina. Ég verð sérstaklega að minnast á eitt atriði, eftir að Leatherface drepur í fyrsta sinn og lokar síðan hurðinni. Þessi sviðsetning er alveg rosaleg. Ekki einungis er atriðið frábærlega sviðsett og áhrifamikið heldur verður Hooper að henda í mann því rosalegasta af öllu í lok atriðisins, stálhurð í þessu gamla og ljóta timburhúsi. Stálhurð? Eftir þetta átakanlega atriði er maður gersamlega varnarlaus gegn brögðum leikstjórans og þessi rosalegi contrast sem myndast milli stáls og viðar eru næstum því til að spegla contrastinn milli fyrri og seinni hluta myndarinnar, sem er þarna að ganga í garð. Það sem áður var bara roadtrip er nú orðið að skelfingu.

Leikurinn er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Krakkarnir sjálfir kunna að vera steríótýpur en þeir gera sitt ágætlega en það er í illmennum myndarinnar sem myndin fer raunverulega á flug. Leðurfés sjálfur fær eitt rosalegt atriði fyrir sjálfan sig þar sem Gunnar Hansen stendur sig mjög vel og hin illmenni myndarinnar eru jafnvel ennþá ógeðslegri, enda raunverulegri í samanburði við Leddarann. Vil ég þá sérstaklega nefna kvöldmataratriðið, sem er fyrir löngu orðið að költ klassík út af fyrir sig, og atriðin tvö í bílunum, þá sérstaklega það sem inniheldur spýtu. Einn rosalegasti leikur sem ég hef séð og magnaðasta atriði sömuleiðis.

Þessi mynd er alveg hreint ótrúleg. Þegar maður heldur að spennunni sé að létta grípur myndin mann aftur og læsir mann aftur oní sætið. Þessi mynd er hreinlega langbesta hryllingsmynd sem ég hef nokkurn tíma séð og það er hrein synd að ég hafi séð svona margar góðar bíómyndir því annars færi hún beint inn á topp tíu listann hér til hliðar. Sæti 11 er allavega klárlega merkt henni. Henni tókst að gera það sem engri mynd áður og sjálfsagt engri mynd héðan í frá mun nokkurn tíma takast. Henni tókst að fá mig til að hræðast raunverulega og af fullri alvöru og ég átti virkilega erfitt með að sofna á eftir. 5/5