Saturday, November 24, 2007

Vertigo

Það er orðið frekar langt síðan ég horfði á “The Birth of a Nation” en í sama vídjó sessioni horfði ég á myndina “Vertigo”, eftir Alfred Hitchcock. Þessari mynd hefur verið lýst sem miklu meistaraverki í gegnum tíðina og þegar valið stóð á milli hennar og “North by Northwest” ákváðum við Ari að skella okkur bara í djúpu laugina. Myndin fjallar um Scottie, einkaspæjara í San Francisco, sem verður fyrir því óláni að sjá mann falla fram af húsþaki og situr uppi með heiftarlega lofthræðslu. Hann er fenginn af gömlum kunningja til að rannsaka ferðir eiginkonu hans, sem virðist andsetin af gamalli sál, og bjarga henni frá þeim örlögum að fremja sjálfsmorð eins og manneskjan sem andsitur hana. Hlutirnir taka að flækjast eftir því sem líða tekur á myndina og Scottie þarf að sitja á sér að falla ekki fyrir konunni sjálfur. Næsta efnisgrein inniheldur alvarlega plot spoilera þannig að þið sem viljið horfa á myndina seinna skuluð hoppa yfir.

Endirinn á þessari mynd er alveg ofboðslega skrítinn við fyrstu sýn. Þau standa þarna tvö og langar augljóslega bæði til að komast niður úr klukkuturninum en síðan hrynur Judy niður þegar einhver nunna læðist út úr myrkrinu. Ég er á því að þessi sena hafi verið ógeðslega flott og það var virkilega creepy að sjá nunnuna labba þarna einsog út úr engu. Aftur á móti skildi ég engan veginn hvað Judy var að gera að detta aftur fyrir sig á svona stund. Gat hún ekki haldið sér standandi og komið sér aðeins frá brúninni? Ég tékkaði á netinu eftir á hvað menn segðu um endann og þar komu menn með þá pælingu að nunnan hefði staðið fyrir allt sem Judy hræddist og þess vegna hafi henni orðið svona bylt við. Ég skil samt ekki alveg hvernig það breytir skilningi manns á endanum til hins betra. Hins vegar er annað áhugaverðara sem ég fór að pæla í frá sjónarhorni Scottie. Hann langaði svo mikið að koma í veg fyrir dauða hennar að hann endurtók sömu mistök og áður og þar með lenti Judy í hættu, sem dróg hana til dauða. Þannig finnst mér endirinn virka betur þegar litið er á hann út frá sálarlífi Scottie heldur en ástæðum þess að Judy dettur aftur fyrir sig.

Myndin er vissulega góð en þegar hún kláraðist þurfti ég að tékka á Ara hvort þetta hefði örugglega verið rétt mynd því hún sat ekki beint eftir sem meistaraverk af hálfu Hitchcock. Þegar ég var búinn að pæla í henni í nokkra daga fór hún síðan að snúast aðeins við í hausnum á mér og núna finnst mér hún bara mjög góð. Þegar ég lít á hana útfrá öðru sem ég hef séð eftir Hitchcock, einsog Psycho eða Birds, finnst mér hún ekki standa neitt ofar en þær, frekar neðar ef eitthvað er. Þannig mætti kannski segja að hún hafi gengið aðeins verr í mig vegna þess að ég bjóst við of miklu, en það hefur sjálfsagt alveg jafn mikið að gera með það hversu góð Psycho er og að þessari sé hampað sem meistaraverki.

Svo ég nefni nú aðeins leikarana þá standa þeir sig allir prýðisvel en þá sérstaklega Jimmy Stewart. Þessi maður er bara meistari, engin önnur leið til að lýsa honum. Mr. Smith Goes To Washington”, “The Man Who Shot Liberty Valance” og þessi sýna svo ekki verður um villst að hann er frábær og fjölhæfur leikari og ég hlakka mikið til að horfa á aðrar þekktar myndir með honum, t.d. “It’s A Wonderful Life” og “Anatomy of a Murder”. Kim Novak, sem leikur Madeleine Elster, er líka mjög góð þótt maður kannist ekki jafn vel við nafnið og mörg önnur sem komið hafa að gerð Hitchcock mynda.
Hvað myndatöku og annað tæknilegt varðar er myndin mjög lík öðrum myndum Hitchcock og er allt vel úr garði gert í þeim efnum og ekkert sem kemur manni sérstaklega á óvart. Hitchcock er góður í að velja flott skot sem draga mann samt ekki út úr myndinni og tekst að búa til mjög heildstæðan pakka hvað það varðar.
Á endanum er þetta mjög góð mynd en mér finnst hún samt ekki jafn frábær og bestu myndir Hitchcocks. 3,5/5

1 comment:

Siggi Palli said...

Það er eins og með þessa mynd og svo mörg "meistaraverkin", eins og þú hefur örugglega rekið þig á og munt reka þig á eftir því sem þú horfir á fleiri myndir á 102-mynda listanum: Þessar myndir eru oft taldar meistaraverk út af einhverjum ákveðnum listrænum/verklegum þáttum eins og myndatöku eða út af 2-3 rosalegum byltingarkenndum senum, þær eru ekkert endilega alveg frábært bíó alla leið í gegn.
Ef mig misminnir ekki þá er þessi mynd fyrst og fremst fræg fyrir tvennt: pungasálfræðina sem fræðimennirnir geta beitt á samband aðalpersónanna (t.d. þegar Scottie klæðir dömuna upp alveg eins og sína fyrrverandi), og svo myndatökuna, sérstaklega skotið þegar hann horfir niður stigaganginn, sem var talsvert erfitt í framkvæmd.
Ef við tökum 102-mynda listann sem dæmi, þá er það ekki listi yfir 102 bestu myndir allra tíma, heldur yfir 102 myndir sem hafa fengið gríðarlega mikla fræðilega umfjöllun í gegnum tíðina. Fræðimenn sem skrifa út frá sálgreiningu (sérstaklega út frá Freud og Lacan) geta alveg misst sig yfir Vertigo, og greint myndina niður í hörgul. Vafalítið hlær Hitchcock í gröf sinni að þessum mönnum, enda notast hann fyrst og fremst við sálfræðina sem plot-strategíu, eitthvað sem fær söguna til þess að fljóta áfram en sem hefur enga merkingu umfram það (það sem hann myndi kalla "MacGuffin").
Að lokum verð ég að játa að mér finnst þessi talsvert betri en The Birds, mér finnst brellurnar þar hafa elst mjög illa, og mér finnst aðalleikonan (Tippi Hedrin) algjör hörmung. En það er bara ég.