Monday, March 10, 2008

Hvað gerir eina hryllingsmynd betri en aðra?

Um daginn bar ég saman þrjár hryllings/grínmyndir frá Nýja Sjálandi, Braindead og Bad Taste eftir Peter Jackson og Black Sheep eftir Jonathan King og er hægt að nálgast þann póst hér. Þær myndir voru allar í rosalega svipuðum dúr þótt kvikmyndagerðarmennirnir tveir hafi að sjálfsögðu mismunandi handbragð. Í þetta skiptið langar mig að bera saman þrjár merkilegar hryllingsmyndir sem ég hef séð á meðan á þessu námskeiði hefur staðið. Þessar þrjár eru Texas Chainsaw Massacre eftir Tobe Hooper, sem ég skrifaði langan pistil um fyrr í vetur, Evil Dead eftir Sam Raimi og Suspiria eftir Dario Argento. Ég mun einnig fara út í hvað það er sem gerir eina hryllingsmynd betir en aðra og hvort í raun sé hægt að finna eina formúlu sem virkar fyrir hryllingsmyndir.
Þessar þrjár eru um margt ólíkar hver annarri, bæði að stíl og innihaldi. Leikstjórarnir eiga það þó allir sameiginlegt að beita auðþekkjanlegum stílbrögðum og að sjálfsögðu eiga þeir það allir sameiginlegt að vera meistarar hver á sinn hátt. Ég ætla að byrja á að dreypa aðeins á Evil Dead og Suspiria áður en ég held lengra í greiningu og samanburð.
Evil Dead var fyrsta mynd Sam Raimi í fullri lengd og var hann aðeins 19 ára þegar hann gerði hana. Hann, Bruce Campbell og Scott Spiegel kynntust í menntaskóla og höfðu allir brennandi áhuga á kvikmyndagerð og áttu sameiginlega allt sem þurfti til að búa til ágætis Super8 myndir í fyrstu. Þegar þeir ákváðu að gera þessa fyrstu mynd sína í fullri lengd þurftu þeir að byrja á að safna pening til gerðarinnar og fengu mestan pening út úr því að safna saman hópum lögfræðinga og tannlækna og sýna þeim sýnishorn og biðja um pening. Einsog vera ber með svona myndir kostaði hún ekki mikið á endanum en einmitt þess vegna finnst mér magnað hversu flott hún er þrátt fyrir allt. Myndin fjallar semsagt um fimm vini sem ferðast upp í einhvern afskekktan sumarbústað þar sem þeir finna óhugnanlega bók og hlusta á upptöku af vísindamanni sem þylur upp texta úr bókinni. Við þetta vaknar upp forn djöfull í myrkviði umhverfisins og byrjar að herja á aumingja krakkana. Því skal komið úr vegi strax að fyrir þá sem hafa séð Evil Dead 2 eða 3 þá er þessi ansi mikið öðruvísi. Ég er sjálfur mikill aðdáandi þriðju myndarinnar, Army of Darkness, sem er mikið grín og húllumhæ og önnur myndin gengur ákveðinn milliveg milli hennar og þessarar. Þessi fyrsta er aftur á móti bara andskoti hræðileg og ég get ekki sagt annað en að hún hafi hrætt mig upp úr skónum oft á tíðum.
28 Days Later hvað?
Reyndar kom fyrir á stöðum, sjálfsagt vegna þess að ég hafði séð hinar tvær áður, að ég hló dátt að vitleysunni sem þarna átti sér stað en það breytir því ekki að þetta er fokking creepy hryllingsmynd. Besta atriðið í myndinni fannst mér þó vera fyndnasta atriði hennar, en það er í byrjun myndar þegar ein stelpan í hópnum er tæld út í skóg af hinni illu óæru, sem beitir síðan trjánum til að nauðga henni og er meðfylgjandi mynd af þessu atviki. Mjög nasty, en á sama tíma alveg hreint óborganlega fyndið. Bruce Campbell sýnir stjörnuleik einsog alltaf og ég get ekki annað sagt en að þessi mynd skelli sér beint á topp tíu listann yfir bestu hryllingsmyndir sem ég hef séð. Það bætir svo auðvitað miklu við sjarmann að hann gerir myndina svona ungur og fyrir rosalega lítinn pening, kveikir jafnvel dáldið í manni.
Suspiria er síðan allt annar handleggur. Hér erum við með, að því er menn segja, bestu mynd hryllingsmeistarans Dario Argento, sem hann gerði eftir að hafa gert nokkrar myndir áður. Hún er því miklu mun áferðarfínni en Evil Dead nokkurn tíma og stíllinn ber þess merki að hann hafi verið fínpússaður vel og lengi áður en kvikmyndagerðarmaðurinn náði svona góðu valdi á listinni. Öll kvikmyndataka, hljóð, tónlist, saga og hreinlega allur andskotinn er vel útpældur og frábærlega framkvæmdur þannig að áhorfandinn fær aldrei á tilfinninguna að menn viti ekki hvað þeir séu að gera. Þar sem við horfðum á þessa í tíma um daginn vil ég ekki tíunda söguþráðinn neitt hérna en ég vil samt minnast á þau atriði sem mér fannst hvað mögnuðust. Byrjunarmorðið er auðvitað mind-blowing og hreinlega ótrúlega flott og geðveikislegt. Litirnir, tónlistin og hreinlega gjörðin eru svo rosaleg að maður trúir eiginlega ekki eigin augum og þetta gefur góðan tón fyrir framhaldið. Atriðið þar sem blindi gæjinn horfir í kringum sig og kallar út í loftið í að því er virðist margar mínútur áður en hundhelvítið rífur hann á hol er eitt flottasta atriði sem ég hef séð, nó djók. Uppbygging spennu er frábær og ég átti ekki minnstu von á því að hundhelvítið myndi láta svona. Ég var hreinlega orðlaus að þessu loknu. Seinasta atriðið er svo þegar gellan festist í öllum helvítis vírunum og getur ekki hreyft sig á meðan gæjinn finnur hana og sker hana á háls. Mér líður alltaf svo illa þegar karakterar lenda í svona helpless aðstöðu í hryllingsmyndum því égveit að þeir eiga sér engrar undankomu auðið og það verður hreinlega sársaukafullt að horfa á gelluna engjast um af hræðslu.
Hér skelli ég svo quote-i úr Texas Chainsaw Massacre færslunni til að gefa dálitla hugmynd um hvernig mér fannst hún:
Myndin fjallar, eins og svo margar aðrar hryllingsmyndir, um hóp krakka á road-trippi um suðurríki bandaríkjanna sem beygja inn að gömlum sveitabæ og lenda í tómu rugli. Þrátt fyrir lítið budget tekst þessari mynd að líta rosalega vel út. Hún er vissulega mjög hrá og það sést vel. Til dæmis um hið rosalega lága budget þá er atriði í myndinni þar sem stelpa er skorin á fingurgómnum og það var gert í alvörunni vegna þess að gerviblóðið á hnífnum virkaði ekki. Það eru á endanum kvikmyndatakan, tónlistin og hljóðið sem gera þessa mynd svona rosalega pro og góða. Hljóðin í myndinni smjúga inn í merg og bein og samspil þess við tónlsit og mynd eru með því besta sem ég hef séð. Myndefnið er svo að sjálfsögðu frábært líka og eru allar sviðsetningar rosalega flottar og þrungnar því frábæra og rosalega andrúmslofti sem umlykur myndina. Ég verð sérstaklega að minnast á eitt atriði, eftir að Leatherface drepur í fyrsta sinn og lokar síðan hurðinni. Þessi sviðsetning er alveg rosaleg. Ekki einungis er atriðið frábærlega sviðsett og áhrifamikið heldur verður Hooper að henda í mann því rosalegasta af öllu í lok atriðisins, stálhurð í þessu gamla og ljóta timburhúsi. Stálhurð? Eftir þetta átakanlega atriði er maður gersamlega varnarlaus gegn brögðum leikstjórans og þessi rosalegi contrast sem myndast milli stáls og viðar eru næstum því til að spegla contrastinn milli fyrri og seinni hluta myndarinnar, sem er þarna að ganga í garð. Það sem áður var bara roadtrip er nú orðið að skelfingu.

Einsog ég sagði í byrjun eru þessar þrjár myndir mjög ólíkar og væri í raun nær að bera saman TCM og ED og bera síðan Suspiria saman við Dawn of the Dead(1978) eða eitthvað álíka þróað meistaraverk. En fyrst ég er nú einu sinni byrjaður á þessu er um að gera að halda áfram. Mér finnst einsog þessar þrjár myndir passi allar saman inn á milli en falli hvergi allar þrjár í sama hóp. Suspiria og TCM eru báðar rosalega raunverulegar og alvarlegar á meðan að TCM og Evil Dead hafa þetta hráa element sem Suspiria er alveg laus við, enda mun fínni og fágaðri mynd. Evil Dead situr svo gersamlega ein á báti með grínið, hvort sem það er tilætlað eða ekki, því hinar tvær eru bara horror allt í gegn og stoppa aldrei að hræða úr þér líftóruna. Þótt stílbrögð hvers leikstjóra fyrir sig skíni rosalega vel í gegn í öllum þessum myndum þá finnst mér líka áhugavert hvað maður finnur vel fyrir því hvað Suspiria er evrópsk. Hinar tvær byggja mikið á fornri hefð Indy kvikmyndargerðarmanna í BNA þrátt fyrir að hvor um sig geri hlutina á sinn hátt en fílingurinn í mynd Argento er hreinlega allt öðruvísi og það tengist því ekki að hún eigi að gerast í Róm en hinar tvær gerist í sveitahéruðum suðurríkja Bandaríkjanna.
Ég horfði á stutt viðtal við Sam Raimi við gerð færslunnar, sem ég læt fylgja með hér, og fannst áhugavert þegar hann var spurður hvort honum fyndist mikilvægara að sýna meira gore eða leyfa áhorfendum að ímynda sér hvað gæti verið að gerast. Hann sagði sjálfur að hann vildi ganga milliveginn, þ.e. hann vildi sýna okkur fullt af ógeðslegu sjitti en hann gæfi fólki samt möguleikann á því að ímynda sér hvað annað gæti gerst. (Menn sem ganga hvað lengst í að sýna viðbjóð og gefa fólki engan séns á að ímynda sér neitt nema klósettskál með gubbi eru t.d. hálfvitinn Eli Roth, sem gerði þær skelfilegu myndir Cabin Fever og Hostel og hinn frábæra mock trailer Thanksgiving við Grindhouse myndirnar.) Þarna finnst mér sýnir kvikmyndagerðarmannanna skerast á frekar áberandi hátt. Argento og Raimi eru báðir mikið fyrir að sýna þegar fólk er skorið á háls eða tré nauðga stelpum, þótt Raimi gangi reyndar aðeins lengra einsog grín-umgjörðin leyfir honum, á meðan að Hooper sýnir sem minnst af ógeðinu up-close og gefur áhorfandanum þannig meiri möguleika á að ímynda sér allan hryllinginn. Hooper hjálpar síðan áhorfendum að ímynda sér viðbjóðinn með því að byggja upp mikla og þrúgandi spennu og andrúmsloft í myndinni sem gefur henni ennþá raunverulegri og áhrifameiri samsvörun.

Hér fylgir með trailerinn fyrir Texas Chainsaw Massacre og í honum sést um það bil jafn mikið blóð og gore og sést í allri myndinni, semsagt ekkert sérlega mikið
Ég get eiginlega ekki sagt að ég fíli annað betur en hitt þar sem mér finnst frábærlega skemmtilegt að horfa á mjög brútal grín-hryllingsmyndir og get vart haldið vatni yfir ákveðnum atriðum Suspiria en þrátt fyrir allt verð ég að segja að TCM er sú langbesta af þessum þremur þegar kemur að því að hrella og hræða áhorfendur upp úr skónum. Þegar ég og Kári bróðir horfðum á hana hreinlega skulfum við af hræðslu alla fokking myndina og þurftum að tala um myndina í rúman klukkutíma eftirá til að geta einu sinni reynt að fara að sofa. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að sú mynd eigi heima inni á topp 10 listanum mínum yfir bestu myndir sem ég hef séð. Hún er það góð.
Þessar þrjár myndir eru kannski ekki fullkomlega samanburðarhæfar en það er gaman að bera saman mismunandi geira hryllingsmyndanna og sjá hvað er mismunandi, hvað er betra og af hverju það er betra. Til þess erum við jú einu sinni í þessu fagi og ég get ekki annað sagt en að ég hafi skemmt mér konunglega yfir því að skrifa þessa færslu, hvað þá að horfa á þessar þrjár snilldarmyndir. Ég vil því enda þetta með því að mæla með þeim öllum þremur fyrir hvern þann sem hefur einhvern minnsta áhuga á hrellandi bíómyndum, þetta er ekki eitthvað “Ring Remake” drasl sem kemur í bíó í annarri hverri viku. Þetta er the shiznit og mun vera það um aldur og ævi.

5 comments:

Siggi Palli said...

Glæsileg færsla og bráðskemmtileg pæling.
7½ stig.

Árni Þór Árnason said...
This comment has been removed by the author.
Árni Þór Árnason said...

Það eru einhverjir helvítis fjöldamorðingjar og nauðgarar búnir að vera að senda mér sms um að kommenta á þessa færslu núna þrjá daga í röð þannig ég sé mér ekki annað fært en að gera svo.

Ég hef reyndar ekki séð neitt af þessum myndum en ég þekki hinar Evil Dead myndirnar vel þannig ég hlakka til að skoða þá fyrstu.

Er alvarlega að pæla í að skella mér á annaðhvort Suspiria eða TCM í kvöld.

Geðveik færsla!

Ingólfur said...

Eitt sem ég gleymdi í færslunni og það er að Texas Chainsaw Massacre var bönnuð í mörgum löndum og er þ.á.m. eina myndin sem hefur verið bönnuð hér á landi. Þrátt fyrir þetta hafði Hooper gert sér vonir fyrirfram um G rating en myndin komst aldrei í gegn án R vegna þess sem kallað er "implied violence and brutality" eða eitthvað álíka. Hún sýnir lítið sem ekkert, en það er hægt að ímynda sér allan andskotann. Það er alveg hreint magnað að hún hafi verið bönnuð hér fyrst Cannibal Holocaust var það ekki.

Siggi Palli said...

9½ stig.