Saturday, September 29, 2007

Skelfileg frammistaða

Þrátt fyrir að myndirnar sem ég fór á í dag hafi allar verið skemmtilegar á sinn hátt ætla ég ekki að skrifa um þær núna heldur myndirnar sem ég fór ekki á. Núna klukkan 22:00 ætlaði ég að fara á miðnæturhryllingsmyndasýninguna þar sem live band átti að spila fræg hryllingsmyndalög á undan. Ég varð aftur á móti frá að hverfa vegna röð atvika sem hreinlega eyðilögðu alla löngun til að sjá þessar myndir. Í fyrsta lagi byrjaði draslið ekki fyrr en 20 mínútum of seint, það er fyrirgefanlegt. Það sem er aftur á móti ekki fyrirgefanlegt er sú staðreynd að hljómsveitin spilaði hálft sett, þá eyðilögðust visjúalarnir þannig að þeir eyddu hálftíma í að reyna að laga þá en í staðinn fyrir að taka hlutunum með reisn og beila bara til að sýningin gæti að minnsta kosti haldið pínu áætlun og stemningu ákváðu þessir aular að klára settið sitt. Niðurstaðan, myndirnar byrjuðu klukkan 24:00. Ég hreinlega get ekki látið bjóða mér svona kjaftæði, guði sé lof að ég þurfti ekki að borga fyrir miðann á þetta helvíti því þá væri einhver með skó upp í rassgatinu á sér akkúrat núna. Þessi vitleysa hreinlega eyðilagði fullkomlega alla löngun í mér til að sjá skemmtilegar hryllingsmyndir og get ég ekki annað en klappað fyrir þeim fávita, sem ákvað að ganga hreinlega ekki frá verkinu hálfkláruðu og leyfa fólki að horfa á bíó heldur þröngva sér upp á það lengur en nokkur maður kærði sig um. Tips fyrir næstu tilraun til tónlistarflutnings: Æfa sig fyrirfram og vera viss um að allt virki og ef þú ert að skíta á þig gersamlega og fullkomlega, drullaðu þér þá af sviðinu.
Tónlistin sem slík var samt skemmtileg, þetta var góð pæling en alveg hreint hræðilega framkvæmd. Skelfilegur endir á annars góðum bíódegi.

RIFF: Dagur tvö gefur góða raun

Dagurinn í gær var tvímælalaust bæting frá því í fyrradag. Ég fór á tvær myndir, Girls Rock! og Shotgun Stories, og stóðu þær báðar undir væntingum.

Girls Rock!

Einhver vandræði voru með sýningartækin í byrjun og var þess vegna hafið smá Q&A fyrir myndina. Leikstjórinn hafði reyndar frekar fátt að segja og lítið merkilegt þar sem enginn var búinn að sjá myndina. Myndin byrjaði svo 20 mínútur yfir og allir voru glaðir. Skemmst er frá því að segja að þessi mynd er rosalega skemmtileg. Hún fjallar um "rokkbúðir" fyrir stelpur á aldrinum 7-18 ára í Bandaríkjunum, sem eru til þess gerðar að brjóta stelpur út úr steríótýpum og gefa þeim nýja sýn á sjálfar sig. Við fylgjumst náið með nokkrum stelpum í búðunum, þeirra á meðal asíska dauðarokkaranum Laura og 7 ára prinsessunni Palace, sem breytist í harðasta pönkara þegar hún tekur upp mic-inn. Inn á milli í myndinni er skotið inn staðreyndum um vandamál sem stelpur þurfa að glíma við í nútíma samfélagi í sambandi við steríótýpískt útlit og hegðun. Jafnvel þótt það hafi kannski virkað rosalega bandarískt að koma með fullt af statistík um líðan stúlkna á skólaaldri virkaði þetta ágætlega þegar upp var staðið og eftir stóð flott og skemmtileg mynd, vel unnin og með fallegan boðskap.
Eftir myndina bauð leikstjórinn þeim sem vildu að spyrja sig spjörunum úr varðandi gerð myndarinnar og tók ég það á mig að ríða á vaðið. Margt skemmtilegt kom upp úr kallinum, til að mynda að rúmlega 250 klukkutímar af efni hefðu verið teknir á þeim 5 dögum sem búðirnar stóðu auk viðtala við fjölskyldur sumra stúlknanna fyrir og eftir búðir. Þannig fannst pönkarinn Palace t.d. ekki fyrr en þeir sáu hana vappandi á göngum rokk campsins og ákváðu að tékka aðeins meira á henni og úr varð einn skemmtilegasti karakter myndarinnar. Hann talaði líka mikið um að klipping myndarinnar hefði verið ofboðslegt verk og að nú rétt áður en myndin fór í sýningar á kvikmyndahátíðum hafi leikstjórarnir tveir verið að breyta hlutum, og búðirnar voru tekanr upp 2005. Allt í allt, mjög skemmtileg mynd og fræðandi Q&A. Endilega tékkið á henni.
4/5

Shotgun Stories

Þessi hér er aðeins önnur tegund. Hún fjallar um átök, sem takast upp milli tveggja setta hálfbræðra eftir að pabbi þeirra deyr. Fátt annað er að segja um söguþráðinn en þrátt fyrir það er hér um góða sögu að ræða og vel sagða. Jeff Nichols tekst að byggja upp góða mynd af lífínu hjá þessum amlóðabræðrum, sem annað hvort tapa tugþúsundum hverja helgi í fjárhættuspilum eða búa í tjaldi fyrir utan hús hvers annars.
Leikararnir standa sig fjandi vel og getur það talist mjög gott þar sem flestir leikaranna eru hér að stíga sín fyrstu skref og má því sjálfsagt hrósa Nichols fyrir það líka. Karakterarnir eru allir mjög þrívíðir og góðir fyrir utan mögulega tvo yngri bræðurna úr seinni fjölskyldu kallsins.
Ég eiginlega neyðist til að spoila pínu til að geta haldið áfram með þessa umfjöllun þannig að þið sem viljið ekkert vita um framvindu sögunnar getið sleppt restinni. Mér fannst það mjög töff hvernig átökin milli bræðranna urðu alltaf alvarlegri og alvarlegri með hverju broti og kallaðist það dálítið á við vinnumannadrápin í Njálu. Fyrst er faðirinn vanvirtur, hundur drepinn, menn drepnir og svo koll af kolli. Sterkasta pæling myndarinnar er samt klárlega endirinn. Að Nichols skuli þora að taka þessa afstöðu í myndinni þegar flestir hefðu einfaldlega klárað myndina með byssubardaga og skilið alla áhorfendur eftir sátta er virkilega skemmtilegt. Hann ákveður að stoppa í miðjum klíðum og skilur okkur eftir með boðskap um að hversu langt ,sem menn eru leiddir, þá er alltaf hægt að útkljá málin friðsamlega. Þá er sérstaklega öflugt að sjá Son eftir að hann vaknar á spítalanum, hversu þreyttur hann er á þessari vitleysu og hversu mikið hann langar að enda hana. Skyldurækni hans er svo greinilega unnin af friðarvild Boy og ástarinnar á Annie og Carter. Lokaskotið skilur okkur eftir með tvo sátta bræður, sem gerðu það rétta í stöðunni, og geta haldið áfram með sitt líf og gefið öðrum frið til að lifa sínu þrátt fyrir allt, sem komið hefur á undan.
Þessi mynd fannst mér virkilega góð og ég ætla hreinlega að skella á hana 4/5

Friday, September 28, 2007

RIFF: Dagur eitt endar með skelfingu

Þið verðið að afsaka hversu stuttaraleg þessi færsla er en ég get hreinlega ekki skrifað meira um þessa mynd.

Fyrsta myndin sem ég skellti mér á á þessari blessuðu kvikmyndahátíð, Híena, verð ég að vona að sé sú versta því það var rosalega lítið sem þessi mynd hafði fram að færa. Hún fjallar um lítinn strák í iðnaðarbæli í Póllandi sem segir vinum sínum hryllingssögur til að spæsa upp tilveruna. Ég nenni hreinlega ekki að fara lengra út í söguþráðinn því þá verð ég bara pirraður. Hinir strákarnir eru búnir að segja nógu mikið um skelfileg mynd- og hljóðgæði sýningarinnar þannig að ég held ég skelli bara einu DMS á það allt saman. Aftur á móti vil ég nota tækifærið og segja að mér fannst settingið töff og creepy og söguskotin af ógeðslega gæjanum í trailernum voru töff. Fyrir utan það hata ég þessa mynd og fyrirlít. Hún var leiðinleg, innihélt lélegt plott og asnalega karaktera. Twistin, ef svo mætti kalla, voru bæði fyrirsjáanleg og út í hött, sem og leikmyndin í lokaatriðunum. Hvað var með alla þessa plastpoka? Í alvöru talað.

Ég verð að vona að þessi mynd sé undantekning hátíðarinnar og geri passlega ráð fyrir því. Girls Rock verður pottþétt geggjuð ef lýsingin er eitthvað til að styðjast við og ég hlakka mikið til að sjá Shotgun stories, fyrsta myndin sem ég sá í bæklingnum sem greip athyglina um leið. Ég mun henda inn review um þær í kvöld eða á morgun. Annars eru þær þó nokkrar sem ég mun fara á á um helgina, þeirra á meðal You, The Living, XXY og Miðnæturmyndir David Arquette og Johnathan King, þannig að kíkið aftur á síðuna um helgina til að sjá hvað er þess virði að tékka á. Þangað til, Adios.

Thursday, September 27, 2007

Sjónvarpsveturinn 2007-2008

Nú er október rétt handan við hornið og um þetta leiti ár hvert hefjast sjónvarpsseríur að nýju eftir sumardvalann. Mig langaði nú bara til að skella inn áliti mínu á opnunarþáttum nokkurra skemmtilegra þáttaraða og ráða í hvað gæti verið þess virði að fylgjast með yfir vetrarmánuðina.

Prison Break

Þetta er þáttur sem ég var mjög skeptískur með eftir lok 2. seríu. Fyrsta serían náði að reiða fram einhverja skemmtilegustu og mest spennandi þáttaröð seinni ára, þegar Michael og Linc börðust við að sleppa úr Fox River fangelsinu. Önnur serían sýndi okkur tvo bræður á flótta ásamt drjólunum sem sluppu út með þeim. Þessi sería náði ekki að heltaka mig á sama hátt og sú fyrri. Þrátt fyrir skemmtilega karaktera tapaði serían dampi og missti dálítið sjónar á lokamarkmiðinu. Við enda seríunnar höfðum við bræðurnar tvo á Panama, Michael ákærðan fyrir morð og sitjandi í Sona fangelsinu þar sem verðirnir koma ekki nálægt veggjunum, og Linc sitjandi í reiðileysi án þess að vita neitt hvað er í gangi. Þá kemur spurningin, getur þáttaröð eins og Prison Break tekist að finna upp hjólið í þriðja skiptið í jafn mörgum seríum eða lendir hún í þeim vandræðum sem Lost glímdi við í 2. seríu, að hafa ekkert merkilegt að segja?
Til allrar hamingju virðist þeim félögum ætla að takast að halda manni spenntum eftir allt saman. Ný ráðgáta er leidd fram, við fáum að vita af hverju Michael hefur verið komið fyrir á þessum sorastað og Lincoln fær nokkrar sendiferðir. Aðalskemmtun þáttarins er fangelsið sjálft, mun harðneskjulegra en Fox River og elementið að hafa enga verði innan veggjanna heldur einungis harðsvíraða fanga gefur seríunni nýjan lit. Hér er enginn fangelsisstjóri eins og Pope í fyrstu seríunni heldur einungis stór svartur gæji, sem lúkkar frekar vafasamur. Án þess að gefa of mikið upp um plottið í fyrsta þættinum vil ég bara segja að hann lofar góðu fyrir seríuna og ef Scofield og félögum tekst að halda rétt á spilunum gætum við verið að horfa fram á frábæra seríu af Pris.


Heroes

Fyrsta sería Heroes endaði með skelli. Eftir að hafa beðið heila seríu eftir bombu bardaga milli Peter Petrelli og Sylar fengum við ömurlegt "brawl" sem gaf okkur ekki einu sinni smjörþefinn af því sem þessir menn geta raunverulega gert. Það var því með litla von í hjarta sem ég horfði á þennan fyrsta þátt annarrar seríu og ég get ekki sagt að ótti minn hafi verið bægður burt, þó ekki hafi þetta verið alslæmt. Vissulega tekst höfundum þáttanna að koma með nýja skemmtilega pælingu inn í plottið og það lítur út fyrir að sagan gæti orðið ágæt, en af hverju er mér þá alveg sama? Þessir karakterar hreinlega dóu fyrir mér í lokabardaga fyrstu seríu. eini karakterinn sem mér er ekki hjartanlega sama um er Claire, veit ekki hvort það er bara vegna þess að ég fíla menntaskólapælinguna, sem hún er að detta í, svona vel. Ef þú getur komist yfir þessa annmarka geturðu sjálfsagt skemmt þér ágætlega yfir þessari seríu og ég mun sjálfsagt halda áfram nokkra þætti í viðbót, en ég verð að segja að ég er ekki yfir mig spenntur.

Californication

Nei, ekki Red Hot Chili Peppers heldur David Duchovny. Þessi sería er reyndar ekki að byrja núna, hún hefur verið í gangi í rúman mánuð núna og eru komnir 7 þættir í loftið. Þessi sería fjallar um rithöfund, Hank Moody, sem hefur ekki tekist að skrifa orð í allt of langan tíma, er hættur með kærustu sinni til langs tíma, sem reynist einnig vera barnsmóðir hans, og eyðir dögum sínum í að pikka upp hverja fallegu konuna af annarri til að fylla upp í tómarúmið í lífi sínu. Hank er rosalega kaldhæðinn og skemmtilega leiðinlegur og klúr. David Duchovny á þessa seríu, hún væri ekki hálfdrættingur á við sjálfa sig ef einhver annar léki aðalhlutverkið. Duchovny gersamlega neglir þennan karakter og þrátt fyrir að maður hefði kannski ekki gaman af að þekkja þennan mann er frábært að eyða með honum hálftíma í viku. Ástæðan fyrir því að þessi sería virkar er sú að húmorinn er góður, blandaður temmilegu drama og dobíu af skemmtilegum karakterum, þá sérstaklega Moody sjálfum og umboðsmanninum hans, leiknum af Evan Handler sem sumir kannast kannski við úr Sex and the City.
Snilldar sería, gott snakk.

Dexter

Hér er þáttur sem ég gersamlega get ekki hamið mig yfir. Fyrsta serían var snilld, pure and simple, ogþar með telst leikurinn, sagan, myndatakan og hreinlega allt saman. Karakterinn Dexter Morgan er einn sá skemmtilegasti í sjónvarpinu um þessar mundir og ekkert gæti fengið mig til að skipta um skoðun á því.
Fyrsti þátturinn í 2. seríu veldur ekki vonbrygðum. Þrátt fyrir snilldarsögu fyrri seríunnar tekst höfundunum að búa til aðra ótrúlega skemmtilega pælingu fyrir þessa seríu og verður virkilega gaman að sjá hvernig hún þróast. Leikararnir eru enn í toppformi, sérstaklega Michael C. Hall í aðalhlutverkinu. Hvort sem hann leikur ástsjúkan jarðarfarastjóra í Six Feet Under eða tilfinningalausan raðmorðingja hér tapar hann aldrei trúverðugleika og missir ekki úr nótu. Ég er sjálfur rosalega ofnæmur fyrir spoilerum og gef því sem minnst uppi en segji þó að ég get ekki ímyndað mér nokkra stöðu þar sem þessi sería verður nokkuð annað en geðveikt klikkuð.

Sunday, September 23, 2007

The Birth Of A Nation

Vá. Það er ein af þeim tilfinningum sem streyma um mann eftir að hafa horft á kvikmynda afrekið Birth Of A Nation. Vá, yfir því hversu epísk myndin er og flott miðað við elli. Vá, yfir því hversu góð sagan er og síðast en ekki síst vá yfir því hversu rosalega rasísk þessi mynd er. Það er kannski ekki D.W. Griffith að kenna hversu einhliða sagan hans er. Þrátt fyrir allt er þetta fyrst og fremst mynd um hörmung og ömurleika stríðs, stríðs sem hafði verið alið upp í Griffith sem "Uppreisnin mikla" af föður hans, miklum Suðurríkjadrjóla. En hversu illt innrætti sem menn fá þá eru ákveðnar pælingar hér alveg ofboðslega þröngsýnar og kjánalegar. En áður en við dembum okkur í það skulum við aðeins pæla í góðu hlutunum.

Þessi mynd er rosalega stór. Sagan er epísk á hvaða mælikvarða sem er, bardagaatriðin stórfengleg og íburðarmikil, dramatíkin tilfinnanleg og grínið alltaf til staðar þegar mest þarf á að halda. Þrátt fyrir þetta þurfti Griffith að vinna við mjög ákveðna fjármagnsáætlun og mátti ekki spreða í hvað sem er. Við Ari leigðum DVD-diskinn á Laugarásvídjó og ég horfði svo á heimildamynd um gerð myndarinnar í morgun þar sem margt skemmtilegt kom í ljós. Í stóru bardagasenunum voru herforingjarnir í skotgröfunum leiknir af aðstoðarleikstjórum og sáu um frá fyrstu hendi að leikararnir gerðu allt eftir kúnstarinnar reglum svo ekki þyrfti að eyða pening í aukatökur.

Leikurinn er eitthvað sem maður hefur svosem ekki fullt vit á, þar sem þöglar myndir eru aðeins annað fyrirbæri en hávaðasami frændi þeirra. Ég tel mig samt geta sagt að aðalmaður myndarinnar, "Little Colonel" Ben Cameron, hafi verið mjög vel leikinn af töffaranum Henry B. Walthall. Annars er myndin oft mjög ofleikin en þrátt fyrir það, og kannski af þeirri ástæðu, er skemmtilegt að horfa á hana.

Tónlistin er líka geggjuð, vissulega mikið um stef sem ekki voru sérsamin fyrir myndina, breski þjóðsöngurinn og fleiri, en öll tónlistin er mjög góð og gefur mjög góðan fíling fyrir myndina og hljóð og mynd passa vel saman í flestum tilfellum.

Margt gerist í myndinni, enda epísk mynd um Bandaríkin fyrir og eftir borgarastyrjöld. Við fáum að fylgjast með Abraham Lincoln(leikinn af ofboðslegum leppalúða) skrifa undir stríðsyfirlýsinguna á hendur Suðurríkjunum, Norðurríkin vinna stríðið, Abraham Lincoln myrtan af John Wilkes Booth(rosalega flott atriði) og Ku Klux Klan berjast gegn óréttlætinu sem upp úr því hefst í Suðurríkjunum af hendi svertingjanna og samverkamanna þeirra. Í gegn um þetta allt tvinnast svo sögur tveggja vinafjölskyldna, Cameron frá Suðurríkjunum og Stoneman frá Norðrinu, af ástum, ofbeldi, svikum og vináttu.

Það sem kom mér mest á óvart var hversu vel sagan er sögð. Maður missir aldrei þráðinn í þessu rúmlega 3. tíma bákni þrátt fyrir allt sem er að gerast á sama tíma. Dramatíkin er líka mjög góð og ekki hægt að segja að þessi mynd fái neitt minna á mann en hver önnur góð stríðsmynd. Þó má ekki líta framhjá aðalveikleika, og kannski aðalstyrkleika myndarinnar á sama tíma, rasismanum. Þessi mynd væri ekki eins fræg nú og raun ber vitni ef hún hefði ekki verið jafn alræmd á sínum tíma en á móti kemur að hún var alræmd og af góðri ástæðu.

"...until at last there had sprung into existence a great Ku Klux Klan, a veritable empire of the South, to protect the Southern country"

Myndin sem kom Ku Klux Klan aftur í gang og fékk fullorðna karlmenn til að gráta úr sér augun yfir hörmungum stríðs á við það vandamál að stríða að hún er einhliða í frásögn sinni. Ekki einhliða þannig að Norðurríkjamenn hafi verið ömurlegir að ráðast á Suðurríkin, heldur einhliða í þeim skilningi að eftir að Abraham Lincoln deyr eru vondir kallar annað hvort svartir eða "black sympathisers". Í raun er myndin rosalega þroskuð að því leiti að enginn er litaður sem vondi kallinn í baráttu norðurs og suðurs en þegar kemur að helvítis svertingjunum eru þeir allir illa lyktandi dýr nema þeir viti hvar þeir standa og haldi sig bara við þrældóminn. Nokkur atriði fara þarna hátt á blað í vitleysunni. Atriðið í þingsalnum þar sem svertingjarnir éta kjúkling og drekka sig fulla með tærnar upp á borðum er alveg rosalegt hvað þetta varðar. Annað slíkt er atriði í lok myndar þar sem svartir menn ætla sér að fara að kjósa en mæta byssuhlaupum Klansmanna við útidyrnar og ákveða að halda sig heima. Eftir að svertingjarnir höfðu gert það nákvæmlega sama við þá hvítu nokkrum vikum áður finnst Griffith það fyllilega réttlætanlegt að henda í okkur þessari senu til að sýna fram á yfirburði Klansins. Það er eins og hann vilji boða jafnrétti og bróðurlega ást en vilji samt skjóta negra á kjörstað og finnist ekkert skrítið við þennan málstað, enda þurfti hann að sitja undir ámæli frá flestum minnihlutahópum Bandaríkjanna í nokkur ár á eftir og myndin kom af stað kynþáttauppþotum og átökum á mörgum stöðum þar sem hún var sýnd.

Allt í allt er þetta frábær mynd, hún er ekki bara rosaleg heldur er hún skemmtileg líka, eitthvað sem ég bjóst alls ekki við. Þrátt fyrir annmarka sína hvað varðar rasisma gerir það myndina í raun bara skemmtilegri, það er gaman að gera grín að svertingjunum í myndinni fyrir að vera steríótýpur, nauðgarar og morðingjar. Skellið ykkur á hana ef þið eruð til í þögult bíókvöld með geggjaðri tónlist. 4 af 5

"Dem free-niggers f'um de N'of am sho' crazy."

Önnur pæling

Ég var að horfa á Weeds um daginn og tók eftir því að heyrnarlausa gellan í þeim þáttum leikur líka heyrnarlausa stelpu í Jericho, sem leiðir af sér að ég legg tvo og tvo saman og kemst að því að hún er í raun heyrnarlaus en ekki bara geðveikt góð að leika heyrnarlaust lið. Gellan sem leikur heyrnarlausa lögfræðinginn í My Name Is Earl leikur einmitt líka heyrnarlausa stjórnmálafræðinginn í West Wing. Nú er ég að spá, A) er virkilega svona erfitt að leika heyrnarlaust lið og B) ef svo er eru þá bara tvær leikkonur á sjónvarps-circuit í Hollywood, ein miðaldra og ein ungleg stelpa, sem eru fengnar í öll stór, heyrnarlaus kvenhlutverk í stórum sjónvarpsseríum? Er þetta þá ástæðan fyrir því að það eru aldrei heyrnarlausir gaurar í svona þáttum, því það eru ekki nógu góðir heyrnarlausir leikarar í gangi?

Saturday, September 22, 2007

Once Upon A Time In The West


Það gerist ekki oft að ég sjái mynd sem kemur mér svo gersamlega í opna skjöldu að ég á vart orð til að lýsa henni. Því miður gerðist þetta ekki þegar ég horfði á “Once Upon A Time In The West” eftir Sergio Leone en þrátt fyrir að ég eigi orð til að lýsa snilld þessarar myndar dregur það ekkert úr henni.

Myndin, sem var seinasti spagettí-vestri Leone, er alveg eins og hinir vestrarnir hans að því leiti að sama orðið má nota til að lýsa þeim. Þótt skera megi myndirnar niður í tónlist, leikmynd, búninga, hljóð, myndatöku, leikstjórn, leik og hvaðeina er aðeins eitt orð sem þarf til að lýsa öllu sem myndin inniheldur. Töff. Þegar Chayenne gengur inn á kránna í fyrsta atriðinu sínu með hlekkina á höndunum og heyrir stefið hans Munnhörpu í fyrsta sinn. Töff. Í fyrsta atriði myndarinnar þegar þrír leigumorðingjar bíða eftir lest. Töff. Öll saga myndarinnar, myndatakan, tónlistin, rykfrakkarnir og allt sem ég taldi upp áðan, ótrúlega töff.

Ég ætla samt ekki að gerast vafasamur gagnrýnandi hérna þannig að smá niðurbrot er nauðsynlegt eftir þessa amatörísku efnisgrein. Tónlistin, eftir Ennio Morricone er að vanda snilld. Að horfa á þessa mynd er eins og að horfa á Star Wars þegar kemur að tónlistinni. Allir helstu hafa þemastef fyrir sig og það er ekkert eins ánægjulegt eins og að finna stef renna saman þegar tveir karakterar hittast. Ég vil ekki spoila neinu, en endaatriði myndarinnar inniheldur einhverja flottustu og andrúmsloftsfyllstu tónlist sem ég hef heyrt í kvikmynd, án gríns. Hvernig manninum tekst að gera einvígin í þessum vestrum jafn epísk og raunin er er gersamlega ótrúlegt.

Sagan er líka frábær. Myndin fjallar um konu sem kemur frá New Orleans útí eyðimörk til að búa hjá nýjum eiginmanni sínum. Ekki vill þó betur til en svo að kallinn er drepinn og fjölskylda hans öll áður en konan mætir á svæðið og eignast hún því bæinn og svæðið allt í kring. Inn í hennar vandræði tvinnast svo nokkrir ógeðslega svalir gæjar í rykfrökkum með sexhleypur. Sagan er skemmtileg og dramatísk á sama tíma og þrátt fyrir lengd myndarinnar(Tveir og hálfur tími) verður hún aldrei langdregin eða leiðinleg. Alltaf er eitthvað að gerast og nýjar hliðar á sögunni að koma í ljós.

Klippingin er síðan sér kafli út af fyrir sig. Eins og í öllum myndum Leone er klippingin algert undirstöðuatriði í svalleika myndarinnar og hér, eins og í hinum, er hún gallalaus. Ég nefni hér aftur lokaatriði myndarinnar sem státar af einni svölustu uppbyggingu sunnan og norðan Alpafjalla. Allt gengur upp, tónlistin og klippingin syncha fullkomlega og sagan er sögð með þvílíkum rytma og ákveðni að ekki er möguleiki að slíta augun af skjánum.

Klippingin væri ekki mikils virði ef ekki væri gott myndefni til að klippa og myndatakan hér er virkilega góð. Maður tekur kannski ekki eftir því í öllum atriðum myndarinnar en alltaf er eitthvað skemmtilegt að gerast í vinkli skotsins eða hreyfingu myndavélarinnar og þegar kemur að nærmyndum af pírðum augum gerir enginn betur en Leone.

Leikurinn hefur alltaf verið vandamál fyrir mig í myndum Leone þar sem hann er gjarn á að fá Ítali til að leika aukahlutverk, enda myndirnar teknar upp á Ítalíu. Það er örlítið kjánalegt að sjá dubbunina á stundum, en allt í allt er myndin vel leikin af aðalleikurunum og það er það sem skiptir mestu máli, enda eru þeir lang oftast einir í mynd. Charles Bronson, sem maðurinn með munnhörpuna, og Henry Fonda, sem vondi kallinn, eru báðir eitursvalir og kunna illu augnaráðin utanað. Það svalasta við myndina eru að sjálfsögðu veðruðu kempurnar með pírðu augun að skjóta hver annan og þeir standa sannarlega fyrir sínu hér.

Að lokum, til að taka smá af ráðum Guðnýjar Halldórs bókstaflega, vil ég minnast á leikmyndina, en hún er geggjuð. Allt passar inn og þá sérstaklega búningarnir, sem klikka aldrei. Rykfrakkar og kúrekahattar eru auðvitað klassík en ekkert sem kemur hér fyrir er á nokkurn hátt út úr karakter fyrir myndina eða tímabilið.

Þetta er geggjuð mynd, tjékkið á henni. 4 ½ / 5

Tuesday, September 18, 2007

Crying Game


Þótt þrjár færslur á einum degi beri þess merki að ég hafi ekkert að gera á daginn langar mig að henda þessari inn til að koma af mér öllum þeim myndum sem ég hef séð undanfarið og skrifað síðan jafn óðum héðan í frá. Þeir sem hafa ekki séð þessa mynd mega svosem alveg lesa þetta, ég tala ekkert um plottið sem slíkt en það eru ákveðnir hlutir hér sem eyðilögðu upplifunina fyrir mér upp að vissu marki. Þeir sem vilja, haldið áfram að lesa.
Um daginn sá ég myndina The Crying Game, mynd sem ég hafði heyrt margt gott um áður, þar á meðal að hún ætti að innihalda eitt feitasta twist allra tíma. Þótt þessar upplýsingar sem slíkar segji mér í raun ekkert um innihald myndarinnar eyðileggja þær fyrir manni upplifunina og ég fann fyrir því hvað ég beið allan tíman eftir þessu twisti og eyddi löngum tíma af myndinni í að ímynda mér hvað það gæti verið. Þess utan var þessi mynd svona ágæt. Hún fjallar um breskan hermann á Norður-Írlandi, sem er handsamaður af IRA og haldið í gíslingu. Ég verð að viðurkenna að fyrir myndina hafði ég alltaf ímyndað mér að þessi mynd hlyti að vera með Cuba Gooding Jr., veit ekki af hverju en svo var ekki. Myndin er þrátt fyrir það vel leikin og twistið er rosalegt verð ég að segja. Forrest Whitaker er alltaf góður og aðrir leikarar voru fínir.
Leikstjórinn, Neil Jordan, virðist vera að fóta sig í leikstjórastólnum hér og, þótt hann skíti ekkert á sig, finnst mér Interview With The Vampire(1994) ,sem hann gerir tveimur árum seinna, sýna hann hafa mun betra tak á atburðarásinni. Hann gerir allt eftir kúnstarinnar reglum en myndin verður aðeins þyngri en hún þurfti að vera. Sagan er klassísk svo langt sem það nær en ég datt samt ekkert rosalega inn í myndina þótt hún hafi verið ágætlega flott. Það sem fór aðallega í taugarnar á mér var hljóðið í myndinni. Mér leið einhvern vegin alltaf eins og ég væri að horfa á mynd með hljóði frá 1950, ég veit ekki af hverju, var kannski bara eitthvað gruggugt. Allt í allt fannst mér myndin fín en, eins og Easy Rider, er hún þess virði að sjá aðallega til að geta lesið um hana seinna meir.
3/5

Ég er að gera ráð fyrir að því lengra aftur í kvikmyndasöguna sem ég kemst á þessum lista verði myndirnar betri, enda bara það besta frá þeim tíma sem reitt er fram. Ég veit að þetta er ekki listi yfir bestu myndir allra tíma og spurning hvort maður reddi sér ekki einum slíkum frá Ebert til að bera saman kvikmyndafræðilegt mikilvægi annars vegar og gæði og skemmtun hins vegar.

Easy Rider


Fyrst ég er nú einu sinni byrjaður að vinna mig til baka í kvikmyndasögunni með Do The Right Thing(póstur að neðan) hefur þetta flætt frekar eðlilega eftir það. Næst á dagskrá var Easy Rider(1969) eftir Dennis Hopper, sem með frábærum leik sínum færði okkur meðal annars snilldarkaraktera eins og vonda gæjann í Waterworld og geðveika blaðamanninn í Apocalypse Now auk þess að gera Bowser ódauðlegan í Super Mario Bros.(1993). Ég hélt fyrirfram að þetta væri einhver mótorhjóla og ofbeldismynd með Jack Nicholson en brá heldur betur í brún þegar myndin byrjaði. Þessi mynd fjallar um hippa á dópi á leiðinni til New Orleans með fullt af pening. Á leiðinni gera þeir hippalega hluti eins og að heimsækja kommúnu og reykja gras. Í rauninni olli þetta mér ekki beinum vonbrygðum en ég var það hissa að fyrsti hálftíminn fór svolítið fyrir ofan garð og neðan. Síðan reyndist það líka vera Peter Fonda en ekki Jack Nicholson sem var í aðalhlutverki(Jack gamli kemur seinna í aukahlutverki, frábær að vanda).
Það eru nokkrar skemmtilegar pælingar í gangi í þessari mynd, aðallega hversu Bandaríkjamenn í Suðurríkjunum eru lokaðir fyrir öðruvísi fólki og hreinlega geðveikir á köflum(umburðarlyndi ábótavant) og hversu hakkaðir hippar eru(frjálslyndi verður steikt á endanum). Þó ég sé ekki viss hvort leikstjórinn ætlaði sér að sýna fram á það seinna tekst honum það allavega í seinni tíð því ég get ekki ímyndað mér margt steiktara en lið sem hættir í háskóla til að búa útí eyðimörk og rækta þar hrísgrjón og gras. Umburðarlyndi suðurríkjamanna hefur svosem komið fyrir í mörgum myndum, bæði fyrir og eftir þessa þannig að það kemur mér fátt á óvart í þeim efnum. Engu að síður er pælingin til staðar að þótt Peter Fonda keyri um á mótorhjóli alþöktu bandarísak fánanum tekur fólk ekki vel í hann einungis því hann er með sítt hár. Grunnhyggni kanans og fólks allstaðar liggur mjög á Hopper að því er virðist.
Myndatakan í myndinni er frekar straight-forward og tíðindalítil, það er ekki fyrr en við komum í sýruvímurnar sem hlutirnir fara að gerast. Þessi atriði hafa sjálfsagt þótt rosaleg á sínum tíma en eftir að hafa séð Fear And Loathing In Las Vegas of oft til að halda tölu gerðu þau ekkert fyrir mig. Endirinn er síðan kapítuli út af fyrir sig, vil ekki fara neitt nánar út í hann.
Þessi mynd hefur elst illa að mínu mati. Allar pælingarnar sem í gangi eru hafa verið gerðar betur eftirá, en á sínum tíma, í miðri hippabyltingunni, hefur hún sjálfsagt verið rosaleg og staðfesting á því valdi sem ungt fólk hefur í samfélaginu. Fín mynd fyrir sögu sakir. 2 1/2 /5

The Thing


Eins og sjá má á bloggum okkar félaganna leigðum við The Thing um daginn og löngu kominn tími á mig að bomba inn færslu. The Thing er gerð af John Carpenter, þeim mikla meistara, sem færði okkur einnig Halloween og In The Mouth Of Madness meðal annarra. Þetta var í annað sinn sem ég sé myndina og hún var hreinlega betri í annað skiptið ef eitthvað er. Hún notar gamla trikkið í hryllingsmyndageiranum að planta hópi fólks útí rassgati(Suðurpólnum í þessu tilfelli) og henda í þau skrímsli. Suðurpóllinn sem staðsetning gerir myndina skemmtilegri að mínu mati því það er auðveldara að tengja við hann heldur en t.d. geimskipin í Alien eða Event Horizon auk þess sem kuldinn gefur manni alltaf átómatískan hroll.
Það sem sker þessa mynd frá mörgum öðrum klassískum hryllingsmyndum er hversu fljótt við fáum að sjá skrímslið og fáum að vita eiginleika þess. Carpenter lítur augljóslega á það þannig, sem að mínu mati er mjög áhrifaríkt, að jafnvel þótt þú þekkir eitthvað getiru samt verið skíthræddur við það. Til að menn geri nú samt ekki alveg í brækurnar er Kurt Russell mættur á svæðið sem þyrluflugmaður og gerir sitt til að drepa kvikindið. Ég verð að segja að þessi maður er í uppáhaldi hjá mér, hann á svo auðvelt með að vera svalur að hálfa væri nóg.
Björn minntist á það í sínu bloggi að honum þætti það skapa minni spennu að myndin notast mikið við föst skot og pan skot frekar en óreiðufulla kameruvinnuna sem finna má í mörgum nýrri hryllingsmyndum. Þessu verð ég að vera ósammála því það er eitthvað sem fær virkilega á mig við svona straight-forward myndatöku á einhverju jafn disturbing og þessu skrímsli. Mörg ofboðsleg atriði eiga sér stað í þessari mynd og má þá sérstaklega minnast á endurlífgunartilraunina og biluðu eldvörpuna í því samhengi. Augljóst er að Carpenter kann fullt lag á gömlu Halloween-stíls brellunum og nýtir þá kunnáttu til fullnusut hér. Aldrei finnur maður fyrir aulahrolli yfir nokkru sem hér fer fram eins og oft vill verða með myndir frá 9. áratugnum. Hann er líka mjög góður að skapa spennu, blóðatriðið verandi fáránlega spennandi. Það bætir líka virkilega skemmtilegum fídus við myndina að allir karakterarnir eru karlmenn. Það eyðir vandræðunum sem sumir leikstjórar lenda í þegar þeir henda kellingu með fyrir PC sakir en vita svo ekkert hvað á að gera við hana. Þarna höfum við 10 harða kalla að berjast við geimverur og ekkert rómantíkurbull eða vesen, bara aksjón og blóð.
Að lokum finnst mér eðlilegt að bera þessa mynd saman við In The Mouth Of Madness sem ég nefndi áðan. ITMOM er mun meira geðveikis og óhugnanlegheita mynd heldur en Thing sem styðst meira við spennuuppbyggingu og hrylling. Mér þykir það aðdáunarvert að leikstjóri skuli hafa jafn sterk tök á báðum hliðum hryllingsmyndaformsins og Carpenter hefur, enda ekki að ástæðulausu sem hann er kallaður hryllingskóngurinn.

Sunday, September 16, 2007

Veðramót

Það verður að segjast að ég hafði mínar efasemdir um þessa mynd áður en ég gekk inn í Sal 1 í Háskólabíó fyrr í dag til að bera hana augum. Trailerinn er sá slakasti sem ég hef nokkurn tíma séð og konseptið að láta einungis börn frægs fólks leika í myndinni fór ekki alveg vel í mig. Þá sannast það sem oft er sagt að best er að fara á góða mynd með engar væntingar.
Þessi mynd er frábær. Hún er virkilega, virkilega góð. Ég nenni ekki að rekja fyrir ykkur söguna enda svosem ekki mikið um hana að segja, set-up-ið lýsir myndinni. Karakterarnir eru skemmtilegir og trúverðugir, leikurinn fantagóður, þá sérstaklega hjá þeim sem léku Samma og Eyju(?), og lúkkið á myndinni mjög skemmtilega gróft og hrjóstrugt. Einmitt skemmtilegt hvernig lúkkið virtist breytast milli 7. áratugarins og nútímans, mjög töff. Rosalega Aviator.
Ég get ekki sagt að ég hafi haft gaman að fyrri myndum Guðnýjar, eiginlega ekkert gaman, en þessi mynd sker sig úr sem virkilega solid leikstýrð og handritið virkilega sterkt. Samtölin eru hvergi þvinguð eins og mér finnst oft verða í íslenskum bíómyndum og Hilmir Snær hendir inn sinni bestu frammistöðu að mínu viti síðan í Englum Alheimsins. Ég hef alltaf litið svo á að sú mynd sé besta íslenska myndin og þó ég standi enn á þeirri skoðun kemst Veðramót ansi nálægt og tekur fram úr á nokkrum sviðum, þá aðallega leik. Það er virkilega frískandi að sjá íslenska mynd þar sem maður liggur ekki í keng yfir aulahrollinum frá öllum sviðsleikurunum sem halda að þeir séu ennþá uppi á sviði, berandi fram hvern einasta sérhljóða svo hann heyrist upp í rjáfur.
Að lokum verð ég þó að enda á sorlegu nótunum. Það er virkilega sorglegt hversu góða aðsókn Astrópía er að fá miðað við þessa mynd, sem er svo miklu, miklu betri. Astrópía er drasl, bara ef íslensk dagblöð hættu að hype-a allar íslenskar myndir myndi fólk trúa því þegar það sér 4 stjörnu dóm um veðramót frekar en að horfa bara á trailerinn og hugsa "Hvaða grín er þetta?", en svona gerist þegar menn skíta gersamlega á sig í markaðsmálum.

Saturday, September 15, 2007

Topp Tíu - framhald

Jæja, þá er fimmta sætið á listanum komið á hreint og ég er orðinn frekar ánægður með listann sem slíkan. Þetta er samt ekki á neinn hátt endanlegur listi, held ég. Hann á ábyggilega eftir að breytast mikið í framtíðinni, but for what it's worth:

5. Gold Rush

Þessa mynd var ég svo lánsamur að sjá á einni af ferðum mínum í Sinfóníubíó og ég held að þetta sé jafnvel skemmtilegasta bíómynd sem ég hef séð. Karakterarnir eru frábærir eins og venjan er í Chaplin myndum, lífsreyndi einfarinn heldur sínu striki og gott betur. Ég hef séð áður The Circus, The Great Dictator og The Adventurer af myndum Chaplins og þótt þær séu allar stórskemmtilegar reynist Gold Rush sú allra frábærasta. Það er ekki margt sem þessum manni datt ekki í hug að gera og sköpunargáfan og ánægjan sem hann hefur af kvikmyndagerðinni skín í gegn í öllum myndum hans, hversu þungt sem efnið kann að vera.

6. American Beauty

Það er ofboðslega fátt sem ekki hefur verið sagt um þessi mynd áður. Handritið og sagan í heild auk frábærra tilburða leikaranna gera þetta að bestu karakter stúdíu sem ég hef séð. Kevin Spacey er sérstaklega frábær í aðalhlutverkinu. Tónlistin er líka mjög góð.

7. Apt Pupil

Sumir kunna að reka upp stór augu við þessa mynd enda kannski ekki eins þekkt og aðrar á þessum lista. Eftir að ég heyrði að Bryan Singer ætti að leikstýra fyrstu X-men myndinni lagðist ég í það að horfa á fyrri myndir hans, þar á meðal þessa og Usual Suspects. Ég er mjög áhugasamur um allt sem tengist seinni heimsstyrjöldinni og nasistum sérstaklega og get þess vegna upp að vissu marki tengt mig við huga aðalpersónunnar(þó ég gangi kannski ekki alveg jafn langt). Leikurinn hjá Ethan Hawke og Ian McKellen er frábær og sagan öll er mjög óhugnanleg en á sama tíma rosalega áhugaverð. Þetta er mynd sem ég mæli eindregið með að allir sjái, hvort sem þeir hafa áhuga á nasistum eða ekki.

8. Citizen Kane

Fyrir utan það að vera framsæknasta kvikmynd síns tíma hvað varðar kvikmyndatöku og hljóð er þessi fyrsta kvikmynd Orson Welles einnig frábær bíómynd um líf og daga fjölmiðlarisa í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar. Það að Welles hafi verið 25 ára þegar hann gerði hana bætir einnig miklu við sjarmann að mínu viti. Leikurinn og handritið eru í toppformi hér en það magnaðasta af öllu finnast mér vera förðunarbrellurnar á Kane sjálfum. Welles var breytt úr frekar þykkum 25 ára gæja í hrumt gamalmenni án þess að maður efist nokkurn tíma um sannleika myndarinnar. Ég hef kannski ekki séð mjög margar myndir frá tímabilinu en þessi er algjör snilld og skilduáhorf fyrir hvern sem hefur minnsta áhuga á sögu kvikmyndalistarinnar og góðum klassískum myndum.

9. The Unforgiven

Ég hef séð ófáann vestrann í minni tíð, myndir á borð við "The Man Who Shot Liberty Valance" með John Wayne eða spagettívestra Leone, en engin þeirra kemst í hálfkvisti við þetta meistaraverk Clint Eastwood. Hver sem lesið hefur sér eitthvað til um gamla vestrið sér um leið að það var ekki mjög viðkunnanlegur staður og því tekst Clint að koma fullkomlega til skila. Hér er ekkert svart og hvítt, enginn vondur eða góður heldur allir á gráu svæði, eins og vill sjálfsagt verða þegar menn búa við eilíf morð án dóms og laga áratugum saman. William Munny er maður með mjög vafasama fortíð að baki, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og ætlar sér að græða smá pening á hausaveiðum eftir að hafa lagst í helgan stein frá manndrápum nokkrum árum áður. Grimmur raunveruleiki vestursins leikur í höndum Eastwoods og ekki er hægt annað en dást að samtölunum, kvikmyndatökunni, karakterunum og síðast en alls ekki síst ofbeldinu, sem ekki verður þurrð á. Ein flottasta mynd sem ég hef séð, útlitslega séð.

10. Lord Of The Rings

Þessar myndir verða að vera inni á hvaða lista sem mér dettur í hug að búa til um góðar bíómyndir. Fyrir utan að vera meistaraverk hvað varðar allt frá söguaðlögun til tónlistar eru þessar myndir það stór hluti af pop kúltúr minnar samtíðar að þær eru samgrónar kvikmyndasmekk mínum að miklu ef ekki öllu leyti. Leikurinn er frábær, handritið frábært, myndatakan, tæknibrellurnar, hljóðið, förðunin, hreinlega allt sem gerir bíómynd að bíómynd tekst frábærlega hér. Ég væri hreinlega kolbilaður ef þessi næði ekki inn á lista.

Jæja, þá er það búið og ég vona að þessi listi komi einhverjum af ykkur að gagni næst þegar haldið er út á leigu.

Wednesday, September 12, 2007

Do The Right Thing

Jæja, þá er maður loksins farinn að vinna í þessum 102 mynda lista og fyrsta mynd á dagskrá var Do The Right Thing eftir Spike Lee. Ég hef einungis séð þrjár myndir eftir Lee fyrir, Jungle Fever, Inside Man og 25th Hour, og get því ekki borið hana mikið saman við önnur verk, en get þó sagt að þetta er besta mynd Lee sem ég hef séð til þessa. Það fer reyndar pínulítið í mig hversu straightforward hann er á stundum(líkt og baðherbergisatriðið í 25th Hour) en ég skil vel að margir kunni vel að meta þá aðferð, það þurfa ekki allir að vera jafn "subtle". Allavega, myndin fjallar um dag í Brooklyn hverfinu í New York, þar sem flestar myndir Lee gerast, og tekur á þeirri deilu sem kemur upp milli svarts gæja, sem býr í hverfinu, og ítalskættaðs ameríkana, sem rekur Pizzeriu, að einungis hangi myndir af öðrum ítölum uppi á "wall of fame" á pizzastaðnum, en engum svertingjum. Ég sá fyrst fyrir mér að þetta yrði kannski eitthvað í líkingu við myndir á borð við Menace 2 Society eða Boys N' The Hood en svo reyndist ekki, enda Brooklyn og Compton ekki alveg sömu hverfi(og ekki í alveg sömu borg ef við förum út í það). Myndin snýst ekki um að skella skuldinni á neinn sérstakan hóp þegar kemur að kynþáttahatri, heldur málar alla upp sem sama, venjulega fólkið sem endar alltaf á að gera einhverja tóma vitleysu. Eftir að hafa pælt aðeins í myndinni fór hún að vinna á og í augnablikinu verð ég að segaj að ég er helvíti ánægður með hana. Hún tók vel á málefninu og skilaði sínu vel, þótt leikur Spike Lee sjálfs hafi mér fundist eini veiki hlekkur myndarinnar, hann var ekkert skelfilegur en hefði vissulega getað verið betri. Mest kom þó á óvart að sjá Martin Lawrence skjóta upp kollinum og leika mann sem ég hataði ekki frá byrjun, vissulega mikil framför fólgin í því(eða kannski frekar afturför enda er þessi mynd gerð 1989). ***1/2/*****
Að endingu vil ég bara minnast á að ég ætla að halda áfram að vinna í þessum lista á næstunni(er með nokkra torrenta í gangi núna) og hlakka mikið til að vinna mig aftur í kvikmyndasögunni með hann að vopni. 27 myndir komnar, 75 eftir.

Tuesday, September 11, 2007

Maraþonið

Þrátt fyrir að hafa ekki vitað að við ættum að sækja myndavélina í fyrsta tíma á mánudaginn tókst okkur að koma yfir hana höndum og allt draslið sem með fylgdi. Siggi bombaði á okkur gátlista líka til að vera nú viss um að við týndum engu, og það tókst heldur betur, fyrir utan það að við týndum blessuðum gátlistanum.
Við höfðum verið með frekar skemmtilega hugmynd fyrir tökudag en svo óheppilega vildi til að rigning á tökudegi hamlaði henni allverulega, þannig að skipta þurfti um pælingu. Ég vil nú ekki fara neitt út í myndina, þið sjáið hana bara þegar þar að kemur, en ég get þó sagt dálítið frá vinnuferlinu. Við fórum heim strax eftir skóla, strákarnir í Ólympíuliðinu, og fórum að kasta á milli okkar hugmyndum að strúktúr fyrir hugmyndina. Pælingin með að klippa þyrfti í myndavélinni þrengdi vissulega möguleikana en bjó einnig til vandamál sem gaman var að komast yfir(kredits-atriðið er eitt af þessum). Á endanum vorum við komnir með frekar stabílan strúktúr og þá tóku við tökur. Fyrst á dagskrá var að læra pínu á vélina, hvernig skipta skildi milli VCR og Camera, hvernig skipta ætti á milli 48k hljóðs og 32k, og fleira og fleira. Þegar við vorum komnir með allt á hreint fórum við að taka upp sem tókst aldeilis glimrandi og þegar hlutirnir ganga vel fyrir sig verður allt miklu skemmtilegra. Þegar kom að samtalsatriðum hripuðum við eitthvað niður á blað(Ari Ritvél tók þessar skildur að sér að mestu) eða bara spunnum þetta, ekki svo langar romsur sem við vildum hafa í þessu. Myndin endaði á að vera rétt rúmar 6 mínútur að lengd og tók um það bil 7 klukkutíma í gerð(ætli hún hefði ekki tekið aðeins minni tíma hefðum við kunnað á tækin fyrirfram). Audio Dubbið tók svo dálítinn tíma að lokum, smá juggle um hvaða snúrur ættu að fara hvert, finna réttar snúrur, skipta milli channela og fleira, en á endanum gekk allt upp og við vorum ánægðir með lokamyndina. Engin Citizen Kane kannski, en hverjum er ekki drjólanum meira en sama um það? Ég hlakka aftur á móti rosalega mikið til að gera aðra stuttmynd þar sem við fáum að taka aðeins meiri tíma í þetta og klippa eitthvað af alvöru. Þangað til, skemmtið ykkur yfir maraþoninu, því það er geðveikt gaman að búa til bíó í góðra vina hóp.

Friday, September 7, 2007

Topp Tíu

Þessi blessaði topp tíu listi. Ég hef alltaf átt ofboðslega erfitt með að setja saman svona lista því það eru einfaldlega allt of margar myndir sem eiga heima á honum. Það sést vel á mínum að það kvelur mig ótrúlega að afneita myndum af listanum og síðan ég gerði hann upphaflega hefur hann breyst mikið.

Röðin skiptir engu(kannski pínu) máli:

American Psycho
Fyrir það eitt að vera myndin sem kynnti mig fyrir Christian Bale á þessi mynd skilið sæti á þessum lista. Það sem heillar mig mest við þessa mynd eru, augljóslega, leikurinn, þá sérstaklega Bale sem Bateman, karakterinn Bateman og soundtrackið. Christian Bale er uppáhalds leikarinn minn. Hann er leikari af gömlu gerðinni, maður sem leggur á sig raunverulega kvöl og pínu fyrir hlutverkið. Hann er, eins og einungis bestu menn geta státað af, alltaf góður þótt myndin sé vond. Hann er frábær í Batman, frábær í Machinist, frábær í Harsh Times og listinn heldur áfram.
Patrick Bateman er karakter sem ég elska. Hann er svo gersamlega falskur gaur að svo virðist sem allt sem hann gerir sé öfugt við persónuleiak hans. Besta dæmið er um miðbik myndar þegar Willem Dafoe spyr hann hvort hann fíli Hughie Lewis and the News, band sem Patrick var að enda við að útskýra að væri ein besta sveit 9. áratugarins, og Patrick segir þá vera of svarta fyrir sinn smekk.
Það verður ekki minnst á þessa mynd án þess að tala um soundtrackið, sem er án allra ýkja besta soundtrack sem ég hef heyrt í bíómynd. Katherine In The Waves, Hughie Lewis and the News, Phil Collins, Robert Palmer, öll lögin í myndinni gera sitt til að bæta við '90s uppamenninguna sem myndin lýsir svo einstaklega vel. Þess vegna er þessi mynd númer 1.

Shawshank Redemption

Mér finnst það eiginlega óþarfi að lýsa því hvað mér þykir frábært við þessa mynd. Allir eiga að hafa séð þessa mynd og ef þú sérð ekki hvað mér finnst svona frábært við hana áttu ekki eftir að vera sammála neinu sem ég segji hérna. Andrúmsloftið, samtölin, handritið, leikurinn og aðallega hin frábæra tilfinning sem ég finn til við hvert áhorf gera þessa mynd að einni af mínum allra uppáhalds myndum. Ef þú hefur ekki séð þessa, áttu mikið eftir.

Aliens

Meistaraverk á allan hátt. Þar sem fyrsta Alien myndin, eftir meistara Ridley Scott, var hryllingsmynd sem nýtti sér til fulls innilokunarkennd geimskipsins og víðáttufælni geimsins er Aliens, eftir Jim Cameron, mun meiri spennumynd. Handritið, set-upið, leikurinn, karakterarnir, brellurnar, spennan og síðast en alls ekki síst hljóðið, sem fær mig til að missa vatn í hvert skipti, gera þessa mynd ekki einungis að bestu mynd James Cameron, sem sendi einnig frá sér meistaraverk á borð við Terminator og Terminator 2, Titanic, The Abyss og True Lies, heldur að bestu hasarmynd allra tíma. "One-Line"erarnir eru í toppformi hérna, til að mynda hin tíma lausa setning "They mostly come out at night... mostly". Leikararnir, Sygourney Weaver, Michael Biehn og Bill Paxton sérstaklega, gera þessa mynd svo að þeirri snilld sem hún er. Þó Ripley karakternum hafi verið nauðgað allharkalega í þeim skelfilegu myndum Alien 3 og Alien: Resurrection er hún enn fersk og trúverðug hér og fjölskyldueiningin, sem við endum með, er ein sú yndislegasta sem ég hef séð.

Requiem For A Dream

Ég vil byrja á að segja eitt. Ef þú hefur ekki séð þessa mynd nú þegar skaltu drullast út á leigu núna og horfa á þessa mynd áður en þú lest nokkuð um hana. Hún er skylduáhorf, fyrir alla.
Að því sögðu vil ég segja að þessi mynd er í raun í sérflokki á þessum lista því ég hef einungis séð hana einu sinni og held ég muni aldrei vilja sjá hana aftur, svo rosaleg er hún. Þrátt fyrir frábæran leik hjá öllum sem að myndinni koma, þá sérstaklega Ellen Burstyn, er það andrúmsloftið hér sem fer gersamlega með mig. Það er næstum að ég tárist núna þegar ég fer að hugsa til baka hversu rosaleg þessi mynd er. Myndatakan er í sérflokki, sem og soundtrackið, sem hittir á allar réttu tilfinningataugarnar á réttum stundum. Það er ekki oft sem ég kala leikstjóra snilling eftir að hafa einungis séð eina af myndunum hans en Darren Aronofsky á þann titil svo sannarlega skilinn. Enginn, alls enginn, má án þess vera að hafa séð þessa mynd.

Ég er ekki alveg viss með næsta sæti á listanum, ég klára þessa umfjöllun þegar ég er kominn með 5. sætið á hreint.

Thursday, September 6, 2007

Transformers

Það er rosalega mikið í tísku í Hollywood þessi misserin að eyðileggja fyrir fólki ungdómshetjur þess. Þar á ég t.d. við myndir á borð við Fantastic Four og Daredevil, svo ekki sé minnst á gamlan hrylling á borð við He-Man með þeim mæta manni, Dolph Lundgren, í aðalhlutverki. Það er því alveg hreint frábær tilfinning þegar maður fer á bíómynd sem gerir sitt besta til að gera gömlu átrúnaðargoðunum hátt undir höfði. Transformers er ein af þessum myndum. Henni er leikstýrt af Michael Bay, manninum sem færði okkur bæði snilld á borð við The Rock og Armageddon og einnig skelfinguna Bad Boys. Fyrirfram var ég frekar skeptískur á að leggja jafn hjartfólgna minningu og Transformers í hendur jafn mistæks leikstjóra, en hafði þó trú á kallinum til að ná því besta úr efninu og viti menn, honum tókst það svo sannarlega.

Myndin fjallar, í stuttu máli, um risastór vélmenni að slást. Inn í þessa flóknu fléttu flækjast svo tveir krakkar, Sam(Shia LaBeouf) og Mikaela(Megan Fox). Shia LaBeouf er í raun það sem kom mér mest á óvart við þessa mynd. Hann hefur þegar leikið stór hlutverk í nokkrum áhugaverðum myndum, þar á meðal I, Robot, og virðist vera að koma sér vel fyrir, sem einn af heitustu ungu leikurunum í Hollywood. Leikur hans hér fær toppeinkun hjá mér, sérstaklega hvað grínið varðar. En hvað svo með myndina? Aldrei hefði ég búist við því að sjá Transformers mynd með góðum leikurum, hvað þá almennilegu handriti, sem kemur heim og saman á endanum. Því blessaða fólki, sem gerði þessa mynd að veruleika, tókst þó að gera þetta auk þess að sýna mér hversu rosaleg slagsmál milli tugtonna vélmenna geta orðið í miðri stórborg. Ég get vel viðurkennt þá staðreynd að ég ber sterkar taugar til viðfangsefnisins en það breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að Transformers er alveg hreint hörkugóð hasarmynd. Þótt greina megi klysjur í handritinu skiptir það hreinlega engu máli. Þessi mynd minnti mig að mörgu leyti á endurkomu John McClane hér fyrr í sumar, þar sem gamla, góða hasarmyndin átti endurnýjun lífdaga auk þess að reiða fram nóg af góðum húmor í kaupbæti.

Nú, á tímum endalausra Saw mynda, þegar ekkert virðist víst í bíóheiminum, annað en óskert vanvirðing lélegra leikstjóra við aðdáendur sína, eru virkilega góðar poppkornsmyndir mikilvægari en nokkru sinni. Ég veit ég tala fyrir hönd margra þegar ég biðst þess lengstra orða að Hollywood fari enn á ný að framleiða góðar spennumyndir og hætti þessari ömurlegu pælingu með vondar hryllingsmyndir, því ég kýs góðan Optimus Prime eða John McClane fram yfir krabbameinssjúkan Jigsaw hvaða dag sem er.

41/2 /5

Monday, September 3, 2007

Bara pæling

Ég er maður sem horfir mikið á sjónvarp, þ.e. horfi mikið á sjónvarpsþætti í tölvunni. Eftir að ég ánetjaðist þessari fíkn hefur það komið mér á óvart, trekk í trekk, hversu ótrúlega gott sjónvarpsefni er hægt að gera ef farið er vel að. Fyrir mann sem eyddi æsku sinni í að horfa á Star Trek og ER(ekki það að ég vilji grilla þá ágætu þætti neitt) er það rosaleg upplifun að horfa á seríur eins og Dexter, Six Feet Under eða Battlestar Galactica þar sem kostir sjónvarpsins fram yfir bíómyndina, lengri tími til að kynnast persónum og þar af leiðandi möguleiki á dýpri tilfinningalegum böndum við persónur, eru nýttir til fullnustu. Vil ég þá helst minnast á Six Feet Under, sem að öllu öðru sjónvarpsefni ólöstuðu eru bestu sjónvarpsþættir sem ég hef séð, þar sem við endann á seinustu seríunni(þeirri 5.) leið mér eins og ég væri að horfa á ævilanga vini lifa lífum sínum frekar en eitthvað lið í sjónvarpinu.

Ég hef oft pælt í því hvað það er sem gerir þetta að verkum. Ekki getur það bara verið leikurinn, því guð veit að maður sér oft fantagóðan leik í bíómyndum, og ekki er það ástæðan að sjónvarpsfólkið sé statt í einhverjum öflugri vandamálum en hver annar góður karakter. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að einu karakterarnir sem ég get fundið til með í bíómyndum eru gyðingar í útrýmingarbúðum(þó það sé reyndar að verða frekar þreytt formúla til að vinna óskarsverðlaun). Auðvitað veltur þetta allt á góðum skrifum, það er alltaf hægt að gera bíómynd tilfinningaþrungna. Gott dæmi væri American Beauty, mynd þar sem enginn af karakterunum átti beinlínis samúð mína skilið, en næganlega djúp skrif gerðu það að verkum að persónurnar urðu þrívíðari en flest fólkið sem maður hittir úti á götu. Alan Ball, maðurinn sem skrifaði þessa frábæru mynd, er einmitt maðurinn á bakvið Six Feet Under. Og kannski er ég þar með búinn að finna svarið við spurningunni. Það þarf ekkert lengri tíma, það þarf bara góð skrif, setja upp góða karaktera og kippa síðan löppunum undan þeim og þá gráta allir. Eða kannski er það bara ég. Bara pæling.

Saturday, September 1, 2007

Astrópía

Nei, haldiði að ég hafi ekki bara dottið á Astrópíu rétt eftir að ég kláraði hina færsluna. Vindum okkur nú í að kjafta um þessa mynd.
Myndin byrjar ágætlega og tekst að halda ágætum dampi og hressleika. Sérstaklega fannst mér atriðin í búðinni standa upp úr hvað grínið varðar. Sveppi og Pétur Jóhann eru náttúrulega alveg nógu fyndnir til að bera þann hluta myndarinnar. Eftir að Role-Play dæmið byrjar fer myndin aftur á móti að tapa fókusnum. Það er saga í gangi í raunveruleikanum en um leið og role-play ævintýramennskan byrjar skiptir það engu máli. Mér leið dálítið eins og RPG elementið væri þarna til þess eins að búa til skemmtilegan trailer. Allt í allt fannst mér myndin innihalda skemmtilegar pælingar og ég held að með betra handriti og aðeins fókuseraðri mynd mætti gera þetta konsept að einhverju geggjuðu. Það tekst aftur á móti ekki í þessari mynd þar sem role-play atriðin fjara alltaf út í pirring(sérstaklega þegar stóri bardaginn á að byrja og myndin fade-ar í svart). Endirinn er svo frekar skrítinn, skemmtilegur, en aðeins of steiktur til að virka vel. Það sem aftur á móti fór mest í taugarnar á mér var hversu illa bæði leikurum og leikstjóra virtist vegna í vandræðalegum atriðum. Má þá sérstaklega minnast á atriði um miðbik myndarinnar þegar Hildur fer út úr bílnum hjá aðalgæjanum, man ekki hvað hann hét. Þetta atriði fer í bakminnið og verður héðan í frá borið saman við öll önnur léleg, vandræðaleg atriði sem botninn á skalanum. Leikurinn hjá Ragnhildi er alger skelfing í þessum atriðum, mun verri en í restinni af myndinni. Mér leið dálítið eins og leikstjórinn kynni ekki almennilega að láta þessi atriði flæða þannig að allt endaði í langdregnum leiðindum.
Þá á ég samt ennþá eftir að mynnast á mcguffin elementið í endinum, þegar Jolli hringir í Hildi upp úr þurru og biður hana að hitta sig niðrí bæ... því það er búið að sleppa honum... eftir að hann var dæmdur í 4 ára fangelsi tveimur vikum áður eða eitthvað. Þetta er án vafa slakasta framvinda á plotti sem ég hef séð í langan tíma. Hversu ótrúlega heimska átti eiginlega að gera Hildi? Mér leið stundum einsog hún ætti að vera frekar sniðug og eðlileg en atriði eins og þetta grafa gersamlega undan allri slíkri persónusköpun.
Jæja, þá er ég búinn. Stjörnugjöf 3/10, einvörðungu fyrir fyrsta bardagann, sem virkaði frekar töff, og húmorinn í búðinni.

Haldið ykkur rólegum

Fyrst ég missti af bekkajrsýningunni á Astrópíu og á ennþá efti að sjá hana(ætli það gerist ekki á morgun) hef ég ákveðið að sefa hungur ykkar allra með smá færslu. Ég hef verið nölli allt mitt líf, ekkert við því að gera, enda er það líka geggjað. Ef ég væri ekki nölli gæti ég ekki réttlætt það fyrir sjálfum mér að hanga heima heilu helgarnar, horfandi á sjónvarpsþætti í tölvunni og étandi snakk milli þess sem ég skelli mér í einvhern feitan tölvuleik. Af sömu ástæðu er ég núna dottinn í þetta fag, mér finnst gaman að horfa á sjónvarp og bíómyndir og mér finnst gaman að rífa kjaft um hvað er skemmtilegt og hvað ekki. við skulum þá ekkert vera að draga þetta lengur og vinda okkur í eitthvað aðeins hressara.

Um daginn sá ég Apocalypse Now í fyrsta skipti síðan ég var svona 10 ára. Ég mundi ógreinilega eftir ákveðnum atriðum en að mestu leyti var myndin ný fyrir mér. Nú veit ég ekki hvernig það hefur verið að berjast í Víetnam stríðinu, en ég veit hvernig tilfinning það er að hafa tekist að drulla illa á sig og líða geðveikt illa í maganum, annað hvort af sektarkennd eða almennri vanlíðan. Einmitt þannig leið mér meðan ég horfði á þessa mynd. Mér leið einsog mér væri rosalega heitt útí frumskógi og allir í kringum mig væru gersamlega kolbilaðir. Maður lendir í því öðru hvoru í partýum að lenda í samræðum við mann sem við fyrstu sín virðist frekar eðlilegur en endar á því að vera gersamlega út í hött og fáránlegur. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hversu ótrúlega óþægilegt er að umgangast slíka menn einvörðungu, á bát, í víetnam og með endalaust af asíubúum tilbúnum að stúta mér.
Allt í allt var þetta ógeðslega góð mynd, aðallega vegna þess að hún fékk mig til að hugsa um það hversu gallað fyrirbæri mannskepnan er og líka því hún fékk mig til að líða illa. Ég tengi þessa mynd ómeðvitað við aðra mynd um Víetnam stríðið sem ég hef séð þó nokkuð oftar, Platoon, aðallega vegna þess að Martin Sheen og Charlie Sheen leika aðalhlutverkið í hvorri fyrir sig. Platoon hafði á vissan hátt sömu áhrif á mig og Apocalypse Now, en þar sem Apocalypse fékk mig til að hugsa um breiskleika mannsins, fékk Platoon mig til að hugsa mun meira um Víetnam stríðið sem slíkt. Kannski get ég bara ekki sætt mig við það að allir sem börðust í þessu stríði hafi verið svona kolklikkaðir og finsnt þess vegna Apocalypse aðeins of ýkt til að geta tekið hana alvarlega í þeim skilningi.
Allavega, nú er ég búinn að tala rosalega lengi um rosalega fátt og læt staðar numið í bili. Astrópíufærslan kemur á næstunni.