Ég er maður sem horfir mikið á sjónvarp, þ.e. horfi mikið á sjónvarpsþætti í tölvunni. Eftir að ég ánetjaðist þessari fíkn hefur það komið mér á óvart, trekk í trekk, hversu ótrúlega gott sjónvarpsefni er hægt að gera ef farið er vel að. Fyrir mann sem eyddi æsku sinni í að horfa á Star Trek og ER(ekki það að ég vilji grilla þá ágætu þætti neitt) er það rosaleg upplifun að horfa á seríur eins og Dexter, Six Feet Under eða Battlestar Galactica þar sem kostir sjónvarpsins fram yfir bíómyndina, lengri tími til að kynnast persónum og þar af leiðandi möguleiki á dýpri tilfinningalegum böndum við persónur, eru nýttir til fullnustu. Vil ég þá helst minnast á Six Feet Under, sem að öllu öðru sjónvarpsefni ólöstuðu eru bestu sjónvarpsþættir sem ég hef séð, þar sem við endann á seinustu seríunni(þeirri 5.) leið mér eins og ég væri að horfa á ævilanga vini lifa lífum sínum frekar en eitthvað lið í sjónvarpinu.
Ég hef oft pælt í því hvað það er sem gerir þetta að verkum. Ekki getur það bara verið leikurinn, því guð veit að maður sér oft fantagóðan leik í bíómyndum, og ekki er það ástæðan að sjónvarpsfólkið sé statt í einhverjum öflugri vandamálum en hver annar góður karakter. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að einu karakterarnir sem ég get fundið til með í bíómyndum eru gyðingar í útrýmingarbúðum(þó það sé reyndar að verða frekar þreytt formúla til að vinna óskarsverðlaun). Auðvitað veltur þetta allt á góðum skrifum, það er alltaf hægt að gera bíómynd tilfinningaþrungna. Gott dæmi væri American Beauty, mynd þar sem enginn af karakterunum átti beinlínis samúð mína skilið, en næganlega djúp skrif gerðu það að verkum að persónurnar urðu þrívíðari en flest fólkið sem maður hittir úti á götu. Alan Ball, maðurinn sem skrifaði þessa frábæru mynd, er einmitt maðurinn á bakvið Six Feet Under. Og kannski er ég þar með búinn að finna svarið við spurningunni. Það þarf ekkert lengri tíma, það þarf bara góð skrif, setja upp góða karaktera og kippa síðan löppunum undan þeim og þá gráta allir. Eða kannski er það bara ég. Bara pæling.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Virkilega áhugaverð pæling. Ég er þér sammála að sjónvarpsþættir eru oft miklu betur skrifaðir en Hollywood-bíómyndir. Ég hef ekki horft á Six Feet Under, en Deadwood, Dexter, fyrri helmingur af fyrstu seríunni af Lost, Arrested Development og jafnvel John from Cincinnati, The Tudors og Heroes eru miklu betur skrifaðir en 99% af Hollywood-myndum á sama tímabili.
Jim Emerson, á Scanners, er einmitt með svipaða pælingu hér.
Ég held samt að þetta snúist ekki bara um góða höfunda, því hvernig skýrum við það af hverju allir þessir góðu höfundar vinna í sjónvarpi frekar en í bíómyndum? Ætli það hafi ekki líka eitthvað með lengd þáttanna að gera. Höfundur sjónvarpsþáttar getur gefið sér tíma til þess að virkilega þróa persónu til hins ýtrasta, á meðan að flestar mainstream bíómyndir gefa sér bara fyrstu 10-15 mínúturnar til þess að kynna persónur, svo þarf hasarinn eða dramað eða grínið að byrja af alvöru. Þar að auki hefur höfundurinn miklu meira vald yfir verki sínu í sjónvarpi en nokkurn tímann í Hollywood. Í Hollywood selur höfundurinn handritið og listræn sýn hans er síuð í gegn um framleiðandann og leikstjórann sem báðir hafa meira að segja um lokaafurðina en höfundurinn. Í sjónvarpi er höfundur þáttanna ("the creator") yfirleitt sá sem á lokaorðið - þótt hann skrifi ekki endilega hvern einasta þátt þá stýrir hann söguþróuninni og ræður ansi miklu um allar hinar hliðar þáttanna.
Þannig getum við ímyndað okkur að rithöfundar með virkilegan listrænan metnað sæki frekar í sjónvarpið, einfaldlega vegna þess að þar hafa þeir meira frelsi og betra tækifæri til þess að koma sýn sinni á framfæri.
Þetta er alveg satt. Ég horfði líka á þessar þrjár seríur sem gerðar voru af Deadwood og það sem kom mér mest á óvart var skorturinn á hasar. Miklu meira var um karakterþætti og þótt ofbeldi og viðbjóður hafi verið gegnumgangandi var það aldrei á kostnað karakteruppbyggingar.
Þess vegna sést líka svona gífurlegur munur á þessum virkilega góðu þáttum og síðan sápum eins og ER eða CSI þar sem rútínan í þáttunum verður mikilvægari en persónurnar.
eitt sem mig langar að bæta við þetta er sú staðreynd að Dexter er skrifaður eftir samnefndri bók. frekar athyglisvert að þeir hafi ákveðið að búa til sjónvarpsþátt frekar en mynd eftir henni...
Post a Comment