Það gerist ekki oft að ég sjái mynd sem kemur mér svo gersamlega í opna skjöldu að ég á vart orð til að lýsa henni. Því miður gerðist þetta ekki þegar ég horfði á “Once Upon A Time In The West” eftir Sergio Leone en þrátt fyrir að ég eigi orð til að lýsa snilld þessarar myndar dregur það ekkert úr henni.
Myndin, sem var seinasti spagettí-vestri Leone, er alveg eins og hinir vestrarnir hans að því leiti að sama orðið má nota til að lýsa þeim. Þótt skera megi myndirnar niður í tónlist, leikmynd, búninga, hljóð, myndatöku, leikstjórn, leik og hvaðeina er aðeins eitt orð sem þarf til að lýsa öllu sem myndin inniheldur. Töff. Þegar Chayenne gengur inn á kránna í fyrsta atriðinu sínu með hlekkina á höndunum og heyrir stefið hans Munnhörpu í fyrsta sinn. Töff. Í fyrsta atriði myndarinnar þegar þrír leigumorðingjar bíða eftir lest. Töff. Öll saga myndarinnar, myndatakan, tónlistin, rykfrakkarnir og allt sem ég taldi upp áðan, ótrúlega töff.
Ég ætla samt ekki að gerast vafasamur gagnrýnandi hérna þannig að smá niðurbrot er nauðsynlegt eftir þessa amatörísku efnisgrein. Tónlistin, eftir Ennio Morricone er að vanda snilld. Að horfa á þessa mynd er eins og að horfa á Star Wars þegar kemur að tónlistinni. Allir helstu hafa þemastef fyrir sig og það er ekkert eins ánægjulegt eins og að finna stef renna saman þegar tveir karakterar hittast. Ég vil ekki spoila neinu, en endaatriði myndarinnar inniheldur einhverja flottustu og andrúmsloftsfyllstu tónlist sem ég hef heyrt í kvikmynd, án gríns. Hvernig manninum tekst að gera einvígin í þessum vestrum jafn epísk og raunin er er gersamlega ótrúlegt.
Sagan er líka frábær. Myndin fjallar um konu sem kemur frá New Orleans útí eyðimörk til að búa hjá nýjum eiginmanni sínum. Ekki vill þó betur til en svo að kallinn er drepinn og fjölskylda hans öll áður en konan mætir á svæðið og eignast hún því bæinn og svæðið allt í kring. Inn í hennar vandræði tvinnast svo nokkrir ógeðslega svalir gæjar í rykfrökkum með sexhleypur. Sagan er skemmtileg og dramatísk á sama tíma og þrátt fyrir lengd myndarinnar(Tveir og hálfur tími) verður hún aldrei langdregin eða leiðinleg. Alltaf er eitthvað að gerast og nýjar hliðar á sögunni að koma í ljós.
Klippingin er síðan sér kafli út af fyrir sig. Eins og í öllum myndum Leone er klippingin algert undirstöðuatriði í svalleika myndarinnar og hér, eins og í hinum, er hún gallalaus. Ég nefni hér aftur lokaatriði myndarinnar sem státar af einni svölustu uppbyggingu sunnan og norðan Alpafjalla. Allt gengur upp, tónlistin og klippingin syncha fullkomlega og sagan er sögð með þvílíkum rytma og ákveðni að ekki er möguleiki að slíta augun af skjánum.
Klippingin væri ekki mikils virði ef ekki væri gott myndefni til að klippa og myndatakan hér er virkilega góð. Maður tekur kannski ekki eftir því í öllum atriðum myndarinnar en alltaf er eitthvað skemmtilegt að gerast í vinkli skotsins eða hreyfingu myndavélarinnar og þegar kemur að nærmyndum af pírðum augum gerir enginn betur en Leone.
Leikurinn hefur alltaf verið vandamál fyrir mig í myndum Leone þar sem hann er gjarn á að fá Ítali til að leika aukahlutverk, enda myndirnar teknar upp á Ítalíu. Það er örlítið kjánalegt að sjá dubbunina á stundum, en allt í allt er myndin vel leikin af aðalleikurunum og það er það sem skiptir mestu máli, enda eru þeir lang oftast einir í mynd. Charles Bronson, sem maðurinn með munnhörpuna, og Henry Fonda, sem vondi kallinn, eru báðir eitursvalir og kunna illu augnaráðin utanað. Það svalasta við myndina eru að sjálfsögðu veðruðu kempurnar með pírðu augun að skjóta hver annan og þeir standa sannarlega fyrir sínu hér.
Að lokum, til að taka smá af ráðum Guðnýjar Halldórs bókstaflega, vil ég minnast á leikmyndina, en hún er geggjuð. Allt passar inn og þá sérstaklega búningarnir, sem klikka aldrei. Rykfrakkar og kúrekahattar eru auðvitað klassík en ekkert sem kemur hér fyrir er á nokkurn hátt út úr karakter fyrir myndina eða tímabilið.
Þetta er geggjuð mynd, tjékkið á henni. 4 ½ / 5
2 comments:
Tek undir það. Geggjuð mynd. Samt ekki alveg síðasti vestrinn hans Leone, því hann gerði Duck You Sucker (aka Fistful of Dynamite) 1971. Ég hef reyndar ekki séð hana síðan hún var sýnd á RÚV, ca. 1992, en mig minnir að hún hafi verið ágæt.
jæja, ég vissi bara af trílógíunni með Eastwood og svo þessari. kannski maður tékki á henni við tækifæri
Post a Comment